18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

23. mál, breyt. á vegalögum

Guðmundur Ólafsson:

Ég er svo óheppinn að eiga tvær brtt. við frv., því að n. virðist vera einhuga um það, að leggja á móti öllum brtt. frá dm., og hafa þó 2 af 3 nefndarm. komið með brtt. við frv. Frsm. n. hefir a. m. k. lýst yfir því, að n. sé á móti því nú, að nokkrar breyt. verði gerðar á frv., a. m. k. í bili, og virðist n. þannig vera sammála vegamálastjóra um það, að frv. sé svo vel úr garði gert, að bezt sé að samþ. það óbreytt eins og það kom frá hans hendi. Ef svo færi engu að síður, að einhverjar brtt. við frv. næðu samþykki d., skilst mér þó, að n. hafi ekki meiri trú á réttlæti vegamálastjóra en svo, að hún muni til með að bera sjálf fram brtt. við frv. við 3. umr.

Þegar litið er á þetta frv. og athugað, hverjar breyt. það felur í sér á núgildandi vegal., ætla ég, að flestir muni sjá, að frv. er ekki samið af neinni yfirvættis sanngirni. Ef sýslurnar eru bornar saman, kemur í ljós, að við sumar sýslur er bætt mörgum nýjum vegum, en nokkrar sýslur verða hinsvegar með öllu útundan t. d. Húnavatnssýsla, Skaftafellssýsla, Mýrasýsla og Kjósarsýsla. Hinsvegar fær t. d. Rangárvallasýsla samkv. frv. framlengingu á þjóðveginum þar, sem þegar er kominn upp í Fljótshlíð, alla leið upp til Hlíðarenda. Ég get því ekki skilið, af hverju n. getur hvorki unnað okkur þm. né heldur sjálfri sér að gera brtt. við frv., enda er betra að ganga svo frá vegal. í hvert skipti, að ekki þurfi árlega að vera að gera breyt. á l., og taka þá heldur fleiri vegi inn í l. í einu. Ég skil og ekki, hvað n. er að fara, þar sem hún segir í nál., að það sé mjög vafasamt, „að þeim héruðum, sem vegina ættu að fá, væri það nokkur greiði, þar sem óvíst er, að vegirnir yrðu fyrr byggðir en ella“, — og ennfremur: „Gagnið af lögfestingu fleiri þjóðvega nú fyrir hlutaðeigandi héruð myndi því verða lítið eða ekkert“. Fæ ég ekki séð, að héruðin eigi að þurfa að bíða lengur eftir þessum vegum, þótt þeir séu teknir upp í vegal., nema ef síður væri, enda er nú svo gott að vita, að sumir þeirra vega, sem hér hafa verið gerðar till. um, að teknir væru upp í vegal., eru þegar lagðir, svo að aðeins er um að ræða, að viðhald þeirra komi yfir á ríkissjóð.

Eins og ég tók fram í upphafi, ber ég fram tvær brtt. við frv. Annar vegurinn, sem þar er um að ræða, Svínvetningabraut, frá Blönduósi að Svínavatni, er nýlagður að heita má, og því aðeins um að ræða, að viðhaldið komi yfir á ríkissjóð. Hafa Svínhreppingar lagt mikið á sig til að koma þessum vegi upp, og ekki nema sjálfsagt að ríkið sjái við þá þessa virðingarverðu viðleitni þeirra og taki að sér viðhaldið á þessum vegi. Meiningin er að leggja þennan veg lengra fram eftir sveitinni. En landslagi er svo háttað þarna, að leggja verður tvo vegi fram sveitina vegna Svínavatnsins, eins og hv. frsm. mun kannast við, því að hann er nokkuð kunnugur á þessum slóðum. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi vegarspotti, sem ég þannig geri till. um, að verði tekinn í þjóðvegatölu, á mikinn rétt á sér í því efni, og a. m. k. meiri rétt en ýmsir vegir, sem lagt er til, að verði teknir upp í vegal.

Hin till. mín fjallar um það, að Vatnsdalsvegur, frá Vatnsdalshólum að Undirfelli, verði tekinn í þjóðvegatölu sömuleiðis. Þessi vegur er að vísu ekki lagður nema að litlu leyti, spotti og spotti, en flestir lækir brúaðir, þannig, að ekki er eftir að brúa nema eina smáá, Kornsá. Vegurinn hefir þó verið nokkurn veginn fær á sumrin í seinni tíð, og síðan hann varð það, hefir umferðin um veginn verið æðimikil af utanhéraðsmönnum, enda þykir Vatnsdalur með fegurstu stöðum á þessu landi, og fýsir því marga þangað að koma til að njóta þar. náttúrufegurðarinnar.

Ég vænti þess, að hv. n. sjái sig um hönd og fallist á að gera nauðsynlegustu breyt. við till. vegamálastjóra í frv., enda hefir n. sjálf flutt brtt. við frv., þótt ekki skipti þær miklu máli í sjálfu sér, og ég geri ekki ráð fyrir, að n. hafi flutt þær till. af gamansemi eða til þess eins að sjá þær á prenti. Ég held því, að vegamálastjóri hafi hlunnfarið nefndina og gert of mikið úr sínu eigin frv. (PHerm: Þetta er stjfrv.). Annars er ekki furða, þótt n. sé farin að gerast vegamálastjóra „undirdánug“ eftir að hann er búinn að sitja yfir henni í fullar 8 vikur samfleytt.

En n. er auðsjáanlega óánægð. Það sést bezt á því, að tveir nm. sjálfir, þeir hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Snæf., flytja brtt. Ég hafði þó haldið, að þessir menn væru meiri hl. n. Ég þekki þessa menn þá illa, ef þeir verða ekki með brtt., eftir að ég er búinn að sýna fram á, hve Húnavatnssýsla hefir verið látin mæta afgangi. Ég hefi líka hlustað á hv. 2. þm. S.-M. og fannst hann hafa mikið til síns máls, og þykist líka vita, að hann kunni að meta brtt. mínar. Það verður ekki lakara að hafa mig með till. nm. við 3. umr. Þeir verða ekki of margir samt.