21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

23. mál, breyt. á vegalögum

Jónas Jónsson:

Út af brtt. minni um veginn á Snæfellsnesi vil ég segja það, að með henni vil ég sýna, að fyrir mér vakir, að munur sé gerður á sumarleiðum og þeim vegum, sem opnir eru allan veturinn. Hv. þm. Snæf. minntist á Holtavörðuheiði og Vaðlaheiði. En á þeim leiðum er ekki annars kostur en fjallvega, og vegirnir myndu ekki verða lagðar þar, ef láglendi væri rétt við hliðina. Það liggur í málvenju, að „fjallvegir“ séu sumarvegir, en þjóðvegir þeir, sem færir eru allt árið. Út af skrifl. brtt. er það að segja, að samkv. henni yrðu tveir þjóðvegir á Snæfellsnesi, annar um Fróðárheiði, en hinn að sunnan. Ég væri ekki á móti þessu, ef Fróðárvegurinn spillti ekki fyrir hinum. En ef því er nú slegið föstu, að Fróðárheiði sé aðalleiðin, verður farið að leggja fé í hana, þótt víst sé, að hitt verður framtíðarleiðin. Þó mun ég ekki greiða atkv. á móti brtt. hv. þm. Snæf.

Út af ræðu hæstv. atvmrh. um langa og stutta áætlun vil ég taka fram, að ég get ekki orðið honum sammála. Vegalögin eiga að ákveða aðallínurnar. Og margar brtt. við þessa umr. eru byggðar á aukinni þekkingu á samgöngum m. a., og sérstaklega bílasamgöngum.