08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

23. mál, breyt. á vegalögum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég á 2 brtt. við þetta frv., og eru þær skráðar á þskj. 587. Í fyrri brtt. er farið fram á það, að þjóðvegurinn, sem nú liggur af Borgarfjarðarbraut upp að Kláffossbrú, verði lengdur upp að Lambá, sem er skammt fyrir framan Húsafell.

Eins og kunnugt er, þá er Kaldadalsleiðin nú akfær, og hefir mikil bílaumferð verið á þeim vegi. T. d. fóru meira en 600 bílar yfir Kaldadal síðasta sumar. Þessi leið, frá Kláffossbrú um Reykholtsdal og Hálsasveit, er sýsluvegur, og hefir viðhaldskostnaður á þeim vegi aukizt mikið við þá stórauknu umferð, sem þar hefir orðið, síðan bílar fóru að fara um Kaldadalsveginn.

Ég hefi áður flutt brtt. í þessa sömu átt, og þar á meðal á síðasta þingi. Samgmn., sem hafði þá það mál til meðferðar, leitaði álits vegamálastjóra um þennan veg, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það álít hans. Það hljóðar þannig:

„Með því að Kaldidalur er nú orðinn mjög fjölfarinn á sumrin, er sýsluvegurinn um Reykholtsdal orðinn alfaraleið milli landsfjórðunga, og sýnt, að svo muni verða í framtíð. Þykir mér því eðlilegt að taka hann í þjóðvegatölu“.

Mér þykir ekki þurfa að bæta fleiru við, þar sem vegamálastjóri hefir viðurkennt réttmæti þess, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvegatölu.

Þá er hin brtt., og er þar lagt til, að Lundarreykjadalsvegur, frá Götuási á Uxahryggjaveg gegnt Gilstreymi, verði tekinn í tölu þjóðvega. Nú er búið að leggja upphleyptan veg nokkuð fram eftir Lundarreykjadal, en í öllum fremri hluta dalsins er ruddur vegur, sem er fær bæði vögnum og bílum, svo að ekki er eftir að leggja veg á þessari leið nema um miðbik dalsins. Hefir verið gerð athugun að tilhlutun vegamálastjóra, hvað kosta mundi að gera akfæra leiðina yfir Uxahryggi. Sú rannsókn hefir leitt það í ljós, að það væri tiltölulega kostnaðarlítið að ryðja akveg þessa leið yfir Uxahryggi á Kaldadalsveginn skammt frá Biskupsbrekku. Hér er því ekki um mikinn kostnað að ræða, en hinsvegar yrði mikið hagræði að þessum vegi, ekki aðeins fyrir menn úr þessu héraði, heldur einnig fyrir langferðamenn, þar sem þetta er stytzta leiðin, sem hægt er að fá suður á bóginn úr Borgarfirði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa brtt., en vona, að þetta nægi til þess að sannfæra hv. dm. um, að réttmætt sé að taka þessa vegi upp í tölu þjóðvega. — Um málið almennt vil ég segja það, að þetta hefir nú legið fyrir 4—5 undanförnum þingum, og er full ástæða til að breyta ýmsu í vegalögunum. Síðan síðasta breyt. á vegalögunum var gerð, hafa orðið breyt. á vegunum, þannig að þær leiðir, sem áður voru ekki farnar nema af innanhéraðsmönnum, eru nú farnar af almenningi. Þetta hefir þær breytingar í för með sér, að Alþingi verður að taka tillit til sanngjarnra krafna í þá átt að gera þessa vegi að þjóðvegum. Um þessa vegi hafa nú á síðustu árum aukizt bílaferðir til annara héraða og landshluta, og er því í fyllsta máta ósanngjarnt, að viðkomandi hérað beri uppi viðhald á þessum vegum. Mér virðist málið horfa þannig við, að ekki sé með nokkru móti unnt að komast hjá því að breyta vegalögunum, ef tekið er tillit til breyttra staðhátta. Og þó að ef til vill ekki sé hægt að sigla fram hjá því, að ýmsir vegir slæðist inn í þjóðvegatölu, sem ekki eiga þar heima, þá má ekki hefta það, að þeir vegir, sem virkilega eru orðnir alfaraleið, verði gerðir að þjóðvegum. Við verðum heldur að brjóta þá upphaflegu reglu um þrískiptingu veganna í hreppsvegi, sýsluvegi og þjóðvegi, en að sýna einstökum héruðum ósanngirni í þessu efni.

Í nál. er bent á, að með 5. gr. frv. sé fenginn hemill á freklegar kröfur um fé til einstakra vega, þar sem heimilað er að krefjast af héruðunum, að þau leggi fram til vegagerðanna. Mér finnst ekki ná nokkurri átt að skírskota til þessarar greinar, þar sem um alþjóðarveg er að ræða. Þetta ákvæði er sett aðeins með tilliti til þess, að inn í vegalögin slæðist innanhéraðsvegir, og alls ekki um vegi, sem eru alfaraleiðir. Ég vildi aðeins taka þetta fram, af því að nál. skírskotar sérstaklega til þessa ákvæðis í vegalögunum, sem ekki er rétt í þessu sambandi, enda er betra þó að horfið sé frá fyrri stefnu um skiptingu veganna heldur en ef gengið er hraparlega á rétt þeirra vega, sem orðnir eru alþjóðaleið.