10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

23. mál, breyt. á vegalögum

Steingrímur Steinþórsson:

Við þm. Skagf. flytjum brtt. á þskj. 593. Sú brtt. er um það, að tekinn verði í tölu þjóðvega vegurinn frá eystri Héraðsvatnabrú fram héraðið austan við Vötnin, um Viðvíkursveit og Blönduhlíð og Héraðsvatnabrú á Grundarstokk. Vegur þessi liggur um breitt og frjósamt hérað, og það verða ekki deildar meiningar um það, að hér sé um þarfan veg að ræða. Hitt getur aftur verið álitamál, hvort réttara sé að gera þennan veg að þjóðvegi nú eða að það sé látið bíða. Það, að við flytjum nú till. um þennan veg, ber fyrst og fremst að skoða í sambandi við þær mörgu brtt. Ed. og hv. samgmn. þessarar d. við frv. Við vitum, að þessi vegur á ekki síður rétt á sér og miklu fremur en margir þeir vegir, sem þegar er búið að taka inn í frv. Ef þær brtt., sem nú liggja fyrir, ná samþykki hv. d., þá álítum við, að það verði að taka þennan veg með, því að hann mun eiga meiri rétt á sér en flestir þeir vegir, sem brtt. fjalla um. Mér er það fyllilega ljóst, að það nær náttúrlega ekki nokkurri átt, að allar þær brtt., sem komið hafa fram við frv. hér í þessari hv. d., verði samþ., og ég vil taka undir það með hv. þm. Barð., að það hefir verið gert of mikið að því að bera fram till. um nýja vegi, einkum í Ed., og það er talsvert áberandi, hvernig þeir skiptast í kjördæmin. Þó vil ég viðurkenna, að ýmsir þeirra eru sjálfsagðir, svo sem Siglufjarðarvegur og Norðfjarðarvegur, því að það er enginn vafi á því, að þessir vegir eiga meiri rétt á sér en flestir aðrir vegir í frv. Það er fyrst og fremst skylda ríkisins að tengja stærstu kaupstaði og hafnarstaði við þjóðvegakerfið. Ég get því yfirleitt verið þakklátur fyrir þá afgreiðslu, er frv. hefir fengið hingað til, þó nokkur mistök hafi orðið á meðferð þess og skiptar séu skoðanir um einstök atriði þess.

Að síðustu vil ég endurtaka það, að þessi vegur, Blönduhlíðarvegur í Skagafirði, á að mínum dómi miklu meiri rétt á sér heldur en margir þeir vegir, sem komnir eru í frv., að ég ekki tali um marga þá vegi, sem teknir eru fyrir með þeim brtt., sem komnar eru fram hér í hv. þd.