10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

23. mál, breyt. á vegalögum

Halldór Stefánsson:

Ég á eina brtt. við þetta frv., sem ég á óhægra með að gera grein fyrir vegna þess, að enn er ekki búið að útbýta henni hér í hv. þd. Þetta er brtt. við Austurlandsveginn, 1. gr. frv. D.1., um það, að fyrir orðin „hjá Möðrudal um Möðrudalsöræfi um Jökuldal hjá Skjöldólfsstöðum“ komi: hjá Möðrudal, og tengiálma þaðan um Vesturárdal við Vopnafjarðarveg, um Jökuldalsheiði til Skjöldólfsstaða um Jökuldal.

Það er tvennt, sem felst í þessari brtt. Annarsvegar leiðrétting á orðalagi frv., þar sem talað er um Möðrudalsöræfi í frv., en í stað þess er lagt til, að komi um Jökuldalsheiði. Möðrudalsöræfi heitir hálendið frá Möðrudal suður til jökla, en ekki heiðin á milli Möðrudals og Jökuldals. Hér er því að ræða um rugling á orðalagi, sem stafar af ókunnugleika þess, er samið hefir frv. Heiðin milli Jökuldals og Möðrudals er ýmist kölluð Jökuldalsheiði eða Möðrudalsheiði, eftir því frá hvorri hönd hún er farin, þannig, að þegar farið er frá Jökuldal til Möðrudals, þá er hún oft kölluð Möðrudalsheiði, en þegar farið er frá Möðrudal til Jökuldals, þá er hún kölluð Jökuldalsheiði.

Að hinu leyti er brtt. um viðbót við vegakerfið, sem liggur í því að tengja fjallveginn við strandveginn með því að leggja aukaálmu frá honum hjá Möðrudal um Vesturárdal í samband við Vopnafjarðarveg. Ástæðan fyrir þessari till. er sú, að ekki er talið hægt að gera bílfært yfir Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Héraðs. Þannig verður því sambandslaust austur á bóginn, frá þjóðveginum sem liggur um byggðirnar að norðan til Vopnafjarðar sem framhald af Norðurlandsvegi, og eru þar með Vopnafjörður og nokkur hluti Norður-Þingeyjarsýslu slitinn úr beinu bílvegasambandi við Fljótsdalshérað og Austfirðina.

Þessi leið er valin í samráði við vegamálastjóra, og hefir hann látið athuga hana og fleiri leiðir til þess að tengja Vopnafjarðarveg við fjallveginn, og hefir hann fallizt á, að sú leiðin sé heppilegust, sem hér er stungið upp á. Þó skilji enginn orð mín svo, að ég beri þessa brtt. fram í samráði við vegamálastjóra eða eftir áskorun frá honum, en ég hefi borið orðalag till. undir hann, og hann er henni samþykkur í raun og veru. Hér er um nokkuð mikla vegalengd að ræða, en vegarstæði er mjög gott, eins og annarsstaðar á fjöllunum; 15 til 18 km. af þessum vegi liggja eftir endilöngum dal, sem er byggður og er á þeim parti þegar nokkur stofn til akvegar.

Ég vil loks geta þess, að það liggur fyrir þinginu áskorun frá nýafstöðnum sýslufundi í Norður-Múlasýslu um að taka þennan veg í tölu þjóðvega nú þegar, svo að ekki þurfi að gera breytingu á vegalögunum þegar fært þykir að leggja fé til hans. Ég veit ekki, hvort þessi áskorun frá sýslufundinum hefir verið lögð hér fram í lestrarsal þingsins, en hún var tilkynnt í útvarpinu nýlega. Ég hefi þá reynt að greina frá þeim ástæðum, sem eru til þess, að vegur þessi á að verða þjóðvegur, svo að það ætti að duga, ef hv. þdm. fylgjast með máli mínu og vilja skilja, hvað hér er um að ræða. Hinsvegar þykir mér ekki ástæða til að fara út í almennar umr. um frv. eða þær mörgu brtt., sem fyrir liggja.