10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

23. mál, breyt. á vegalögum

Hannes Jónsson:

Ég á eina brtt. við frv. þetta, og er hún á þskj. 568. Ýmsir hv. dm. hafa nú talað fyrir brtt. sínum, og eins og að líkindum lætur, hafa ýms rök verið færð fyrir þeirri nauðsyn, sem ber til að samþ. þær. Og ég býst við því, að erfitt verði að skera úr, hverjir af þessum vegarspottum, sem hér eru taldir upp, hafi mestan rétt á því að komast í þjóðvegatölu, eða hvort þeir hafi meira eða minni rétt til þess en ýmsir þeir vegir, sem hv. Ed. hefir nú bætt inn í frv. Ýmsir hafa drepið á það, að ósamræmi ríkti milli héraða, hvað löggjöf þessa og till. snertir, þar á meðal hv. þm. Barð. og hv. þm. Dal. Út frá þeim forsendum er ég ófeiminn að mæla með brtt. minni. Séu lagðar til grundvallar þær röksemdir hv. þm. Dal., að vegir í Dalasýslu séu flestir þannig í þjóðbraut, að þeir komi öðrum sýslum ekki síður að notum, þá eigi þær ekki síður við mitt kjördæmi, Vestur-Húnavatnssýslu. Þar eru nær allir vegir einmitt hlutar af slíkum langvegum. Og af þjóðvegum í Vestur-Húnavatnssýslu eru ekki nema einir 18 km., sem ekki tilheyra Norðurlandsveginum, — akveginum, sem tengir saman Akureyri og Rvík. Og þó að brtt. mín yrði samþ., ykist þessi vegalengd ekki nema um 1. km., svo að hv. dm. sjá, að hér er ekki um neitt stórt stykki að ræða. Þessi till. mín er um veg frá Reykjum að skólahúsinu á Reykjatanga. Með brtt. hv. Ed. og hv . samgmn. er öðrum héraðsskólum séð fyrir sambandi við aðalvegakerfið, og því finnst mér eðlilegt, að Reykjaskóli verði sömu hlunninda aðnjótandi. Nú sem stendur eru samgöngur á landi erfiðar fyrir skólann, svo að hann verður að mestu leyti að nota samgöngur á sjó. En það er þó sérstaklega eitt, sem mælir með þessari brtt. Reykjaskólinn er nefnilega sérlega góður gististaður fyrir langferðamenn. Yfirleitt þykir mönnum of langur áfangi að aka alla leið til Blönduóss. Venjulega er komið fram á kvöld, þegar bílar frá Reykjavík fara barna um Hrútafjörðinn, og þeir bílstjórar, sem ég hefi átt tal við og eru vel kunnugir á þessari leið, telja, að það mundi verða stórmikill kostur á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar að eiga þarna aðgang að góðu gistihúsi.

Þó að ég viti, að óþarfi sé að minnast á brtt. n., þá vil ég þó segja, að það er alger misskilningur hjá hv. þm. Barð., að n. hafi verið hlutdræg í till. sínum. N. gerði áreiðanlega sitt bezta til þess að vera óhlutdræg, en vegna breyt. þeirra, sem gerðar voru á frv. í Ed., var auðvitað ekki hægt að samþ. það óbreytt hér. Ég ætla ekki að fara að tala um till. n. almennt, aðeins geta þess, að sá vegur í Vestur-Húnavatnssýslu, sem þar er tekinn upp, er aðeins 8 km. á lengd. Mig hefði langað til þess, að n. hefði tekið upp annan veg í kjördæmi mínu, sem er um 100 km. á lengd og nauðsynlegt að leggja fyrr eða síðar. Héruðin hafa þegar lagt stórfé í þennan veg, en mikið er þó eftir ógert. En þarna var beðið um nokkuð mikið, og vildi ég ekki nota mér þá aðstöðu mína, að ég var í n. til þess að koma honum á till. n., einmitt til þess að hún skyldi ekki verða sökuð um hlutdrægni. Mér duldist það ekki, að þessu máli varð Nd. að fara mjög gætilega fram, ekki síst vegna afgreiðslu málsins í hv. Ed.

En ég vænti þess fastlega, að þeir, sem hafa hlýtt á mál mitt, verði hliðhallir brtt. minni um Reykjatangaveginn.