17.02.1933
Neðri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Tilgangur þessa frv. er að safna í eina heild gildandi fyrirmælum um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til landsins, og jafnframt breyta og bæta við því, sem undir núv. kringumstæðum telst nauðsynlegt og réttmætt. Hin gildandi fyrirmæli eru í fernum lögum, og er tilgangurinn að nema þau öll úr gildi, ef þetta frv. finnur náð fyrir augum þingsins. Þessi lagabálkur er nokkuð fyrirferðarmikill, en nýmæli eru ekki í honum að sama skapi. Um það, hver þessi nýmæli eru, er handhægast að vísa til aths. við frv., sem hv. dm. væntanlega kynna sér eða hafa kynnt sér.

Landlæknir hefir gengið frá þessu frv., eins og aths. bera með sér, en hann hefir óskað, að frv. væri stjórnarfrv., og með því að stjórnin gat fellt sig við frv., þótti rétt að verða við þeirri ósk. Síðan þetta frv. kom fram hefi ég heyrt raddir um það, að það muni ganga of nærri sumum héraðslæknum, sem hafa tekjur af skipakomum. Ég verð að segja eins og er, að ég er ekki vel kunnugur þeim málum, en að sjálfsögðu hlýtur landlækni að vera kunnugt um það, og ég man, að er við ræddum um frv. og flutning þess, þá var því hreyft, að héraðslæknirinn í Reykjavík mundi eiga sanngirniskröfu á bótum á einhvern hátt, ef frv. verður að lögum eins og frá því er gengið.

Ég legg til, að þegar þeir hafa tekið til máls, sem þess óska, við þessa umr., þá verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.