04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég get þakkað hv. n. fyrir góða afgreiðslu þessa máls. Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði mikill ágreiningur út af þessum brtt., sem hér liggja fyrir. En ástæðan til, að ég kvaddi mér hljóðs, var eiginlega sú, að síðan þetta frv. var lagt fram, hefi ég orðið þess var, að nokkrir læknar verða talsvert fyrir barðinu á þessu frv. Þeir missa talsvert miklar aukatekjur. Þó að ég telji ekki, að það sé út af fyrir sig neitt við því að segja, að löggjöf geri breyt. á launakjörum, þá er athugandi, ef einn maður missir rúmlega helming af tekjum sínum við breyt. Þetta er bæjarlæknirinn í Reykjavík. Þetta kemur að því leyti harðar niður á honum en öðrum, að auk þess sem upphæðin er nokkuð há, þá er búið með 1. í fyrra að taka af honum heimild til þess að sinna læknisstörfum almennt í bænum. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að fram komi krafa af hans hálfu um bætur, og vildi ég láta þess getið, að þá tel ég stj. heimilt að bæta honum eitthvað úr þeim sjóði, sem myndaður er með þessum gjöldum, sem ræðir um í frv. Ég skoða það vera samþ., ef ekki koma nein andmæli fram. Ég geri ráð fyrir, að reynt verði að útvega þessum manni eitthvað annað að gera, sem geti komið upp í þetta, svo að ekki verði um miklar bætur að ræða. Ég vil taka fram, að ég hefi rætt um þetta við lækninn og við landlækni, og ég hygg, að ég geti komizt að fullu samkomulagi á þessum grundvelli.