04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Snertir hann að vísu ekki þær brtt., sem fram eru komnar, heldur eiginlega málið í heild sinni.

Ég skal nú að vísu kannast við, að það mun víða í útlöndum vera farið þannig að með sóttvarnareftirlit með skipum eins og frv. gerir ráð fyrir. En hinsvegar er hér mjög mikið vikið frá því, sem Alþingi hefir áður talið nauðsynlegt. Hér hafa gilt hingað til mjög ströng ákvæði um skyldu til þess að láta lækni skoða skip, sem koma frá útlöndum, í hvert skipti, sem þau taka hér land. Það er ekki sama viðhorf á öllum höfnum landsins, heldur mjög misjafnt. Ekki er heldur það sama viðhorf gagnvart millilandaskipum, póstskipum eða ýmsum útlendum fiskiskipum, að því er mér virðist. Ég verð að telja, að það muni stafa miklu meiri hætta af fiskiskipum en póstskipum, sem geta með loftskeytum gert viðvart, ef nokkur sjúkdómur er á skipinu. Að vísu hafa mörg skip loftskeytatæki, en ekki nándar nærri öll, og svo er oft talsvert kæruleysi ríkjandi hjá þeim mislita hóp manna, sem berst að ströndum landsins á fiskiskipum ýmissa þjóða. Vegna þessa er ég ekki viss um, að rétt sé að leggja til, að lækniseftirlitinu, sem hingað til hefir átt sér stað, verði kippt burt. Þar sem veðrabrigði eru skjót, t. d. í Vestmannaeyjum á vetrum, þar sem veður getur breytzt mjög á einum til tveim tímum, álít ég, að það hafi verið heppileg ráðstöfun að gera að reglu, að læknir færi út í skipið, hvaða erindi sem það ætti, því að þá tekur afgreiðslan svo stuttan tíma. Þetta er m. a. það, sem gerir mig mjög hikandi við að breyta til. Ég sé hinsvegar ekki neina brýna þörf á að breyta þessari löggjöf. Hæstv. ráðh. minntist á það, að einn læknir mundi missa meginpart tekna sinna, ef þetta frv. yrði að 1. Ef svo er, þá mundi ég álíta skylt að bæta honum það, ef ekki úr þessum sjóði, sem gert er ráð fyrir að stofna með þessu frv., þá á annan hátt. En það eru fleiri en þessi vel metni læknir, sem mundu missa tekjur. T. d. veit ég, að héraðslæknar úti um landið, á einstaka höfnum, missa mikið af tekjum sínum, a. m. k. héraðslæknirinn í Vestmannaeyjum, þegar þetta skipaeftirlit er algerlega tekið af honum. Hve mikill hluti það er, veit ég ekki með vissu. Mér er að vísu ekki kunnugt um, hve mikið af tekjum þessa læknis er til komið á þennan hátt, en það mun þó vera allverulegur hluti þeirra. Ennfremur er síst, að fleiri læknar, t. d. læknarnir á Austfjörðum, verða fyrir þungum búsifjum af þessu frv., ef að lögum verður. Ég tel því sjálfsagt, að læknum þeim, sem verða fyrir tekjumissi af þessum ástæðum, sé bættur hann af því opinbera, og þá fyrst og fremst héraðslækninum í Rvík, Vestmannaeyja lækninum og svo öðrum héraðslæknum á hafnarstöðum.

Ég hreyfði því í n., að ég teldi heppilegra að hafa sérákvæði fyrir þær hafnir, sem fjölsóttastar eru. Þessi till. mín fékk ekki byr, og því skrifaði ég undir nál. með fyrirvara, og geri ekki ráð fyrir að geta greitt því atkv. út úr deildinni, nema þær umbætur verði gerðar á því, sem ég hefi þegar vikið að, þ. e. að læknum, sem harðast verða úti, sé bættur tekjumissirinn. Annars er ég í vafa um, hvort frv. í heild er annað en bjarnargreiði við fjölsóttar hafnir, og hvort núv. fyrirkomulag veitir ekki meira öryggi í raun og veru heldur en það, sem frv. mælir fyrir um.