04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vildi segja nokkur orð út af umr. þeim, sem hér hafa orðið, og þá fyrst viðvíkjandi hv. 3. þm. Reykv. Það er eins og hv. þm. furði sig á því, að þessi löggjöf sé endurskoðuð, og þó er hún orðin 30 ára gömul. Það er vitað, að á þessum tíma hafa svo miklar breyt. gerzt, að ekki er undarlegt, þótt eitthvað þurfi að endurnýja; aldur 1. er yfirleitt ekki svo mikill, hvað þá meiri. En þegar hann furðar sig á því, að ég hafi samþ. till. landlæknis um þessa skipaskoðun, þá get ég lýst yfir því, að ég sá enga ástæðu til annars en að gera það, enda tel ég skylt að fara eftir hinum „fag“fróðu ráðunautum landsstj. Auk þess sagði landlæknir mér, að læknar yfirleitt væru þessu algerlega samþykkir. Þess vegna sé ég ekki neitt út á það að setja, þótt þessi till. komi fram, og það er ekki hægt að ámæla neinni stj., þótt hún fari eftir till. fagmanna um atriði, sem hún sjálf hefir ekki neina sérþekkingu á. Ég tek það fram, að ég legg auðvitað ekki neinn dóm á, hvort betra er hið fyrirhugaða fyrirkomulag eða hið gamla, því að ég er ekki neinn fagmaður á þessu sviði, en ég reiði mig á það, sem fagmennirnir segja. — Viðvíkjandi sáttvarnarsjóðnum sagði hv. þm., að hann myndi ekki hrökkva. Ég tók það fram, að ekki væri nema einn einasti læknir, sem ætti slíka kröfu, og það er bæjarlæknirinn eða héraðslæknirinn í Rvík, og þó að ætti að veita honum uppbót, myndi sjóðurinn áreiðanlega hrökkva til þess. Hv. þm. Ísaf. sagði, sem sjálfsagt er rétt, að engin rödd mundi hafa komið fram gegn þessu frv., ef það væri ekki vegna bæjarlæknisins í Rvík, sem yrði fyrir barðinu á 1., og ég vildi þá rifja dálítið upp viðvíkjandi þessum manni. Fyrst er hann bæjarlæknir hér og hefir þá þessar aukatekjur sem slíkur. Svo losnar héraðslæknisembættið hér, og þá er honum gert að skyldu að taka við því gegn hálfum launum og jafnframt er honum bannað að hafa á hendi almenn læknisstörf úti um bæinn. Þetta þýðir, að ef þessar tekjur eru líka af honum teknar, þá hefir hann svona 5000 kr. í tekjur. Í þessu sambandi má minna á, hvað gerðist hér í þinginu í fyrra viðvíkjandi læknum landsspítalans, og er ég þá að svara hv. samþm. mínum. Í fyrra var um það deilt, hversu mikil laun þessir læknar skyldu hafa, og var samþ., að þeir skyldu hafa 14—15 þús. kr. og þar að auki leyfi til að gegna praksis, hafa læknisstofu, en ekki vitja sjúklinga. Er þá sanngirni, að einn maður úr sömu stétt hafi 5000 kr., en hinir 15000? Þetta finnst mér vera hin mesta ósanngirni, og ég vil berjast fyrir, að þessi maður fái einhverja bót á þessu. Hann á heimtingu á því, það er sanngirniskrafa og ég held, að hann geti fengið sinn skaða bættan með málssókn. Það er ekki hægt fyrir ríkið að fara svona að við einn starfsmann, og tel ég, að rétt sé að bæta honum þetta upp. Ég býst við, að hann kunni að hafa einhverjar tekjur af þessum skipum framvegis, en hve mikið veit enginn, og því verður það að vera óafgert nú, hverja uppbót þessi maður á að fá. Ég hefi rætt allmikið um þetta við landlækni, og hann viðurkenndi í sinni ræðu að mestu leyti það, sem ég sagði, en hann er bjartsýnni á, að hægt verði að útvega þessum manni bætur á einhvern annan hátt. Ég skal ekkert um það segja, en ég vantreysti landlækni ekki í því efni. Þó er það eðlilegt, að sá embættismaður, sem verður fyrir þessu, vilji ekki láta sér nægja, þótt yfirmaður hans hafi þá trú, að hægt verði að bæta úr þessu og vilji auðvitað hafa vaðið fyrir neðan sig. Hv. samþm. minn sagðist vera á móti því, að uppbót væri greidd úr þessum sjóði, en kvaðst ekki mæla það fyrir n. hönd, en ég vildi fá frá honum sem frsm. n. upplýsingar um, hvað n. segir um þetta, við 3. umr. — Ég ætla, að það hafi ekki verið fleira, sem ég þurfti fram að taka í þessu sambandi.