04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Vilmundur Jónsson:

Ég get byrjað á að geta þess út af því, sem hv. þm. sagði, að því fer fjarri, að ég hafi farið niðrandi orðum um embættisrekstur héraðslæknisins í Vestmannaeyjum. Mér hafa alls ekki borizt kvartanir undan framkomu hans sem sóttvarnarlæknis, enda er hann því starfi vanur, heldur hefir af sumum verið fundið að fyrirkomulaginu á þessu eftirliti. Og um það gat ég. Annað eða meira átti það nú ekki að vera, enda er það ekki sú fyrirmynd, að ástæðulaust sé undan því að kvarta. Ég efast ekki um, að þessi héraðslæknir hafi hagað sér eftir lögum og reglum í þessu efni, og tel það öldungis víst.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. mundi vera lítið athugað og illa undir búið. En það er ekki rétt. Ég get gjarnan skýrt frá undirbúningi frv. Annars hefir hann tæplega ástæðu til að finna mikið að frv., þar sem hann heldur því einnig fram, að í því sé sama sem engin breyting á núgildandi löggjöf, sem hann vill halda fast við og engu um breyta. Um undirbúning frv. er það að segja, að ég hefi samið það. Svo hefir það verið nákvæmlega athugað af embættismanni, sem sökum æfingar í meðferð þessara mála ætti að hafa bezt vit á því, sem frv. fjallar um, en það er skrifstofustjórinn í dómsmrn. Þá hafa prófessorar læknadeildar háskólans sagt álit sitt á því, og um höfuðbreytingarnar, sem í frv. felast, var læknadeildin á sama máli og ég, og hefi ég það skjallegt um öll hin fræðilegu atriði. Í fjórða lagi hefir frv. legið hjá stjórn læknafélags Íslands í tvo mánuði, og er það ekki komið þaðan enn. Ég skil það svo, að Læknafél. hafi ekkert við það að athuga, og veit það raunar með vissu af samtali, sem ég hefi átt við form. fél. Við það atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir mest rætt um, hafði form. Læknafél. m. a. ekkert að athuga. Hv. andmælendur frv. hafa gert allt of lítið úr þeim trafala, sem skipin hafa af þessu eftirliti víðsvegar um land. Þess gætir máske ekki mikið í Reykjavík og Vestmannaeyjum, af því að læknir er þar ávallt til taks. En víða er það svo, að skip þurfa að bíða á höfnum tímum saman, af því að erfiðleikum er bundið að ná til læknis. Venjulega eru þessar biðir alveg óþarfar. Það kemur t. d. oft fyrir, að togari, sem kemur beint frá útlöndum, verður að bíða 5—6 klst. eftir lækni og má ekki hafa samband við land. Læknirinn er e. t. v. ekki á staðnum eða bundinn við önnur störf. Og enga undantekningu má gera, þó öllum sé ljóst, að skipshöfnin sé alheilbrigð og ekkert sé að óttast. Slíkur hégómaskapur elur á andvaraleysi hjá þeim, sem hlut eiga að máli.

Þegar ég var héraðslæknir, leið ég oft önn fyrir þessar heimskulegu reglur og sjálfan mig, sem þurfti að fara eftir þeim, og gat nærri gremju skipverja og farþega, er urðu að bíða eftir því, að ég kæmi út í skipin til að fullnægja þessari hégómlegu skyldu.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir alveg misskilið, hvernig þetta eftirlit er venjulega framkvæmt. Það er oftast aðeins í því fólgið, að læknir hefir lauslegt tal af skipstjóranum á þilfari eða frá bryggjusporði og fær stutta skýrslu frá honum. Ef skipstjórinn gefur falskar upplýsingar, þá geta allir orðið sviknir, læknir jafnt og aðrir, og eftirlitið reynzt gagnslaust. En á því er ekki mikil hætta. Erlendir skipstjórar eru venjulega mjög samvizkusamir í þessum efnum. Þeir eru aldir upp við það, að á þeim hvíli ábyrgðin. Þetta lærist einnig okkar skipstjórum. Þeir verða síður andvaralausir þegar þeir vita, að ábyrgðin hvílir á þeim og að þeir geta ekki varpað henni að öllu leyti af sér yfir á herðar læknisins. Það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm., að nú sé fyrirkomulagið það, að læknir skoði skipshafnirnar og alla farþega í skipum, sem koma frá útlöndum. Og hitt er einnig að mestu leyti hjátrú, að læknir geti ábyrgzt það, að farsóttir berist ekki í land úr skipi. Ef skipstjórinn gefur honum ekki nógu glöggar upplýsingar, getur t. d. innflúenza komið upp á morgun í því fólki, sem læknirinn sá ekkert á í gær, þegar skipið kom til landsins.

Ég ætla, að með þessu nýja eftirliti sé engu tapað af því er sóttvarnaröryggi snertir. Skipstjórinn verður látinn skrifa undir drengskaparyfirlýsingu um heilbrigðisástandið í skipinu. Eftirleiðis veit hann, að ábyrgðin á að mestu leyti að hvíla á honum, eins og hún gerir nú, en honum er miklu síður ljóst. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að eftirlitið sé verra, ef læknir fer út í skipin. Ég tel það aðeins óþarft í flestum tilfellum. Það skiptir líka nokkru máli fyrir sjávarútveginn, að í hvert sinn, sem togari fer til Englands, verður hann að borga 20 kr. fyrir lækniseftirlit, og þó hitt meiru, að auk þess verður hann að bíða heila og hálfa daga eftir því að fá lækni um borð. Þó að ekki hafi verið kvartað mikið undan þessu opinberlega, þá hafa hlutaðeigendur fundið til þess, hvað þetta er óþarft og stundum mjög bagalegt.

Ég held, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ranghermt það eftir mér, að á móti þessu frv. væru aðeins þeir læknar, sem misstu tekjur fyrir breytinguna á eftirlitinu. Ég talaði um, að læknar væru yfirleitt fylgjandi frv. Ég hygg, að ég hafi aðeins sagt það, að þetta frv. hafi ekki mætt mótspyrnu fyrir annað en það, að nokkrir læknar, e. t. v. aðeins einn læknir, gerir ráð fyrir tekjumissi af völdum þess. Annars hefði frv. gengið hljóðalaust gegnum þingið. Ég vænti, að málið hafi nú skýrzt svo, að umr. styttist úr þessu.