04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. sagði, að ég hefði sagt, að ég vildi, að læknirinn hefði nákvæmlega sömu laun eins og hann hefði haft undanfarið. Ég hefi sagt, að hann ætti að fá bætur, af því að það mundi vera skorið svo mikið af hans launum. Ég sagði ekki, að hann hefði haft 20 þús. kr. í tekjur, en ég hygg, að hann hafi upp undir það, sem ákveðið var á þinginu í fyrra, að læknarnir við landsspítalann hefðu í laun. Ég hygg, að það væri hægt að skaffa honum eitthvað annað að gera, sem hið opinbera þarf að borga fyrir hvort eð er, og þess vegna er ekki til annars ætlazt en að þessi sóttvarnarsjóður sé í þessu efni einskonar varaskeifa. — Ég hefi alls ekki viðurkennt, að bæjarlæknirinn ætti enga kröfu; þvert á móti. Ég hefi tekið hann út úr og sagt, að hann ætti kröfu. (StgrS: Það var sem ég sagði). Mér skildist hv. frsm. bera brigður á það. Ég sló því föstu áðan, að hann ætti í öllu falli sanngirniskröfu. Ég vil benda á aðferðina gagnvart þessum lækni. Hann er látinn taka við öðru embætti en sínu eigin með hálfum launum og síðan eru teknir af launum hans kannske h. u. b. 2/3. Að þessu athuguðu skilst mér, að enginn vafi geti verið á því, að hér sé um sanngirniskröfu að ræða, og þegar þessi sjóður er myndaður að nokkru leyti með því fé, sem annars hefði til þessa manns runnið, þá get ég ekki séð, að það sé óeðlilegt að greiða honum eitthvað úr þessum sjóði, þangað til hið opinbera hefir séð honum fyrir uppbót á þessum tekjumissi. Mér finnst það ákaflega eðlilegt.