11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

N. hefir komið sér saman um að mæla með þessu frv. Þó er það þannig, að hv. 4. landsk. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann að sjálfsögðu gera grein. fyrir sinni afstöðu.

Þær breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru mjög smávægilegar orðabreytingar og efnisleiðréttingar, sem ekki mun verða deilt um.

Viðvíkjandi efni frv. get ég sagt það, að það eru gerðar nokkrar breytingar á sóttvörnunum, þannig að samkv. því er ekki gerð sú krafa, að læknir fari í öllum tilfellum fyrstur út í skip, heldur annar maður, sem ekki er jafn dýr. En þegar eitthvað er að, þá er gert ráð fyrir mun meiri læknisskoðun heldur en nú er.

Þessar breytingar verða til nokkurs léttis fyrir skipin, ekki sízt fiskiskipin, sem hafa af þessu talsverðan tilkostnað, sem læknar og heilbrigðisfræðingar telja, að ekki þurfi að vera, og fullyrt er af landlækni, að þetta skipulag sé fullt eins strangt eins og nokkursstaðar í nágrannalöndunum.

Ennfremur er gert ráð fyrir, að með þessu sparist bæði mikill kostnaður fyrir skipin og að hægt verði að koma við hér í Rvík sóttvarnareftirliti og sóttvarnarfyrirkomulagi, sem verði mun betra en þó ódýrara en nú er.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Það er vel undirbúið og ýtarlega athugað í n. í báðum deildum.