18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hafði skrifað undir nál. með fyrirvara, en var ekki viðstaddur, þegar málið var tekið til 2. umr., og gat því ekki gert grein fyrir, í hverju fyrirvari minn væri fólginn, en nú hefi ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 715, sem skýrir þetta.

Lög nr. 31 20. júní 1923 mæla svo fyrir, að áður en aðkomuskip hleypir manni í land, skuli fara fram læknisskoðun á skipverjum. Þetta er sett til tryggingar því, að næmir sjúkdómar berist ekki til landsins. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að sú breyt. verði gerð á þessu, að í stað héraðslæknis verði það sóttgæzlumaður, sem hafi þetta eftirlit með höndum. Og í 5. gr. frv. er sagt, að sýslumaður skuli vera sóttgæzlumaður, eða umboðsmaður hans. Í kaupstöðum myndu það verða lögregluþjónar, en annarsstaðar hreppstjórarnir, sem yrðu látnir annast þetta.

Till. þessi er ekki rökstudd með því, að það felist meiri trygging í því, að næmir sjúkdómar berist ekki til landsins, með því að fela þetta eftirlit sóttgæzlumönnum heldur en láta héraðslæknana hafa eftirlitið með höndum, eins og verið hefir. Heldur er því haldið fram, að hætta geti verið á því, að skip tefjist, ef það hittir svo á, að héraðslæknir sé fjarverandi í læknisvitjunarferð þegar það kemur að landi. Ég skal alls ekki neita því, að þetta geti komið fyrir, að skipin þurfi stundum eitthvað að bíða, þar sem héraðsl. hefir mikið að gera. En í Rvík og Vestmannaeyjum hagar þannig til, að slíkt á ekki að koma fyrir. Þar hafa héraðslæknarnir ekki annað umdæmi, og hljóta þeir því alltaf að geta verið til taks, eða umboðsmenn þeirra. Nú vill svo til, að þannig stendur á um þessa tvo staði, að þangað leita fyrst hafnar langflest skip, sem koma frá útlöndum, og er því mest hætta á, að þangað berist sjúkdómar frá öðrum löndum.

Þar sem nú það orkar ekki tvímælis, að meiri trygging sé fólgin í því, að læknir rannsaki sjúkdóma en ólærður maður eða ólærðir menn, og í öðru lagi að það er tryggt, að það geti ekki orsakað tafir fyrir skip að bíða eftir héraðslækni eða umboðsmanni hans á þessum tveim stöðum, Vestmannaeyjum og Rvík, þá hefi ég flutt brtt. um, að ákvæði laganna frá 1923 haldist að því er snertir þessa tvo kaupstaði.

Það, sem sérstaklega mun verða haft á móti því að láta þessa skipun haldast á þessum tveimur stöðum, er það, að dýrara sé að fá lækni um borð í skipin en sóttgæzlumenn. Þetta má vel vera rétt. En þó er kostnaðurinn ekki meiri en það, að hann myndi aðeins nema örfáum hundruðum fyrir þau togarafélög, sem flest skip eiga og hafa tíðastar skipakomur hingað frá útlöndum.

Þá ber og þess að gæta, sem kom fram undir umr. um málið í hv. Nd., að svo hagar til hér í Rvík, að héraðslækninum er veitt embættið með þessum aukatekjum. Ef nú á að svipta þessa lækna tekjum með samþ. þessa frv., þá verður ekki komizt hjá því að bæta þeim þann tekjumissi á annan hátt. Fyrir ríkissjóð mundi það því ekki skapa nein aukin útgjöld, þó þessi brtt. yrði samþ., en þetta væri þægilegri aðferð fyrir ríkisvaldið til að sleppa við þann vanda, er það kæmist í gagnvart héraðalækninum í Rvík. Ég vænti því, að hv. þdm. líti á þann kost brtt., að hún gefur nokkuð aukna tryggingu fyrir því, að næmir sjúkdómar bærust ekki út frá skipum, heldur en gefin er með frv., og að þeir fallist því á, að það sé mikið réttara að samþ. þessa brtt.