18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það urðu litlar umr. um þetta frv. hér við 2. umr., sem m. a. stafaði af því, að hv. 4. landsk. var þá ekki viðstaddur. Ég ætla þess vegna að koma dálítið inn á þau rök, er meiri hl. n. færir fyrir því, að hann getur ekki fallizt á brtt. hv. þm.

Ég ætla þá fyrst að benda á, að það er dálítið óviðkunnanlegt að vera að breyta sóttvarnarlögunum þannig, að þau gildi ekki eins fyrir allt landið. Ef það er nauðsynlegt, að einungis læknar hafi þetta eftirlit, þá á ekki að breyta lögunum. — Ég vil taka til dæmis Austfirði; þangað koma mörg skip beint frá útlöndum, svo að þar er hættan sýnilega mikil, og ætti því að vera engu minni ástæða að gera þar undantekningu heldur en í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Þá er það annað, að læknar þeir, sem þetta mál hafa haft til umsagnar, eru á gagnstæðri skoðun við hv. 4. landsk. Það er þá fyrst landlæknir, sem her þetta frv. fram. Auk þess hefir hann, eins og sjá má á bréfi frá honum, er fylgir frv., borið það undir læknadeild háskólans. Hún hefir að vísu hliðrað sér hjá að svara þessu, en aðeins af þeirri ástæðu, að hún telur það snerta launamál sinnar stéttar. Aftur á móti hafa prófessorar læknadeildarinnar, þeir Guðmundur Hannesson, Guðmundur Thoroddsen og Jón Hjaltalín, játað það persónulega, að gildandi lög í þessu efni ættu ekki rétt á sér, af því að þau svari ekki til þeirrar tryggingar, sem til er ætlazt í þessu efni.

Þá hefir landlæknir ennfremur lagt þetta frv. ásamt öðrum frv., er hann hefir borið fram og snerta heilbrigðismál, fyrir Læknafélag Íslands. En Læknafélagið hefir líka hliðrað sér hjá því að mæla með því, af því það snertir hagsmuni lækna. Ennfremur segir landlæknir, að Steingrímur Matthíasson héraðslæknir hafi í skýrslu sinni dæmt hart núverandi ákvæði um sóttvarnir, og hefir hann nýlega fallizt á ákvæði þessa frv.

Af till. lækna má því ráða, að þeir telji frv. í heild sinni gagnlegt og að læknisskoðun í skipunum, eins og hún er nú framkvæmd, sé ekki þarfleg eða nauðsynleg. Ennfremur er það vitanlegt, að ef eitthvað reynist grunsamlegt við skip, þá á eftir frv. að skoða skipshöfnina miklu nákvæmar en nú er gert. Þess vegna verða rök hv. 4. landsk. gegn frv. heldur veigalítil. Ég held, að hann líti aðallega á það, að þessi breyt. verði óþægileg fyrir tvo lækna, sem hér eiga hlut að máli, af því að hún rýri tekjur þeirra, sem sennilega er rétt. Hann hefir því með brtt. sinni hugsað sér að rétta hlut þessara tveggja héraðslækna, í Reykjavík og Vestmannaeyjum, en ég hygg, að þingið geti tæplega gert slíkar ráðstafanir aðeins vegna hagsmuna einstakra manna. Þessi sama löggjöf verður að sjálfsögðu að gilda jafnt um allt land, og ætti því fremur að fella frv. en gera á því nokkrar undantekningar.

Móti ástæðum hv. þm. fyrir nauðsyn á undantekningum fyrir Reykjavík má geta þess, að það er einmitt gert ráð fyrir því í lögunum, að sóttvarnarhúsið hér verði gert miklu fullkomnara en það er nú, og á þann hátt verði hægt að gera móttöku næmra sjúkdóma fullkomnari en verið hefir og öruggari fyrir landsmenn. Í sambandi við ástæðuna fyrir því, að bæta þurfi héraðslækninum upp, það sem hann kann að tapa fyrir þessa breyt., má geta þess, að hann hefir nú hálf önnur læknislaun. Hann er eini læknirinn á landinu, sem hefir slíka aðstöðu. Þetta er svo af því, að gert er ráð fyrir, að hann sé allmikið upptekinn af því að gera skýrslur um heilbrigðismál og ýmislegt þar að lútandi, svo að hann geti ekki sinnt almennum læknisstörfum. (PM: Hann má ekki sinna almennum læknisstörfum). Já, þess vegna hefir verið bætt við hann hálfum launum. Ennfremur skilst mér, að heilbrigðisstjórnin og landlæknir hafi undirbúið það, ef þetta frv. verður að lögum, að hann fái tvennskonar aukastörf og aukatekjur vegna breytinganna, þar sem hann á að hafa yfirumsjón með sóttvarnarhúsinu og eftirlit með útlendingum. Ég hygg því, að það sé fyrir því séð af heilbrigðisstj., að af persónulegum ástæðum vegna einstakra manna þurfi ekki að gera vanskapning úr frv.