18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Eins og sést á bréfi landlæknis, sem hv. 5. landsk. vitnar i, þá hefir heilbrigðismálanefnd Reykjavíkur skorað á bæjarstj. að beina þeirri ósk til þm. Reykjavíkur, að þeir beiti sér fyrir að varna því, að horfið verði frá læknisskoðun skipa eins og hún hefir verið og er lögum samkvæmt. Bæjarstj. hefir að vísu ekki gert neinar sérstakar ráðstafanir út af þessu erindi heilbrigðismálanefndar, en ég get fullyrt, að þó bæjarstjórn hafi ekki tekið afstöðu til málsins, þá hefir hafnarstjórn Rvíkur haft eina hlið þessa máls til athugunar áður en frv. þetta kom fyrir þingið, og hennar skoðun er í þá átt, að það sé fremur nauðsynlegt að skerpa heilbrigðiseftirlit með skipum heldur en að fella það niður. Það hefir verið hreyft í hafnarstjórn ákveðnum till. um skerping eftirlitsins, og þó það mál sé ekki komið lengra þar, þá er ég viss um, að það er skoðun þeirrar stofnunar, að um verulega afturför sé að ræða, ef lækniseftirlitið verður fellt niður. Og ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að meðal bæjarbúa muni sama álit vera uppi í þessu máli. Menn skoða lækniseftirlitið þá tryggingu, sem nauðsynleg sé á þessu fyrsta stigi varnarinnar gegn því, að erlendar farsóttir berist til bæjarins. Ég er viss um, að bæjarbúar skilja það ekki, að það sé réttmætt að fela ósérfróðum tollþjónum eftirlitið í stað læknanna, til þess eins að spara skipunum að greiða 10 kr. í hverri ferð, en mér skilst, að mismunurinn sé sá, að þar sem læknir fær 20 kr. fyrir að skoða hvert skip, þá eigi ólæknisfróður maður að fá 10 kr. fyrir sömu skoðun. Ég held, að í augum almennings vegi það ekki upp á móti þessum sparnaði skipanna, þó lofað sé fullkomnara farsóttahúsi í bænum, því ég veit, að almenningur óttast það mest, að farsóttir sleppi í land og breiðist út áður en ráðstafanir eru gerðar til þess að einangra þær, og menn óttast, að veikindaberarnir sleppi fremur í land, ef skoðun skipa er framkvæmd af ólæknisfróðum mönnum heldur en af læknum. Það hefir verið viðurkennt, að í Reykjavík mundi þurfa að kosta nokkru af opinberu fé til þess að koma á þessari breyttu skipan, með því sem sé að greiða héraðslækninum bætur fyrir atvinnumissi. Það, sem hér er verið að gera, er í raun og veru ekki annað en að spara skipunum að greiða nokkur gjöld, sem svo lenda á ríkissjóði. Við þetta væri ekkert að athuga, ef það leiddi af sér umbætur á eftirlitinu, en það verða allir að viðurkenna, að það er þvert á móti. Ég er þess vegna alveg fullviss um það, að ég tala máli kjósenda í Reykjavík, þegar ég legg til, að hv. þdm. samþ. brtt. Það eru sérstakar ástæður hér og í Vestmannaeyjum fyrir því, að læknar ættu að skoða skipin, og þar sem þeir eru alltaf við hendina, er þess vegna erfitt að koma auga á réttmæta ástæðu fyrir því, að gengið sé framhjá þeim og aðrir teknir í staðinn. Ég get ekki hugsað mér, að þetta 10 kr. gjald eigi hér að ráða úrslitum. Ég get heldur ekki viðurkennt þá ástæðu gegn brtt., að það sé ófært að taka þessa tvo staði út úr, vegna þess að það er ekki ástæða til að láta frv. gera neina breyt. á eftirlitinu að því er Rvík og Vestm.eyjar snertir.