20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Vilmundur Jónsson:

Mér þykir það koma í skakkan stað niður að bregða mér um, að hin nýja gjaldskrá, sem ég hefi samið fyrir héraðslækna, sé hörð í garð þeirra. Ég veit ekki betur en að hún hækki ákvæði gömlu gjaldskrárinnar þrefalt, fjórfalt og jafnvel meira en það. Samkv. henni eiga læknar m. ö. o. að fá þrisvar til fjórum sinnum meira fyrir störf sín en þeim var áskilið eftir gömlu gjaldskránni. Ákvæði þessa frv. eru ekki heldur hörð í garð læknanna. Fyrir skoðun skipa undir 60 smálestum er gjaldið 4 kr. og hækkar svo upp í 6 og 10 kr., eftir stærð skipanna. Þetta er að vísu lægra en ákveðið er í 1. frá 1923, en samkv. frv. á einnig að greiða þeim fyrir ferðirnar út í skipin samkv. gjaldskrá héraðslækna. Fá þeir því yfirleitt varla miklu minna fyrir hverja eftirlitsferð en áður, og stundum jafnvel meira.

Mönnum er e. t. v. ekki ljós munurinn á heilbrigðisvottorði og sóttgæzluskírteini. Um heilbrigðisvottorð eru óbreytt ákvæði í frv. frá því, sem er í gildandi lögum. Sóttgæzluskírteini er allt annað. Það eru upplýsingar um heilsufar á hafnarstaðnum, sem skipstjórinn á að sýna, er hann kemur til annars lands. Það fær hann hjá sóttgæzlum. og er þá einkar heppilegt, að hann sé sá embættismaður, sem hann þarf að sækja skipsskjöl til hvort sem er.

Hv. þm. Vestm. sagði, að héraðslæknirinn í Rvík hefði staðgöngumann, er hann væri fjarverandi. Þetta er rétt, en þó er það ekki einhlítt, því að sá staðgöngumaður getur verið í lækningaerindum úti í bæ, þegar skip koma í höfn, og eru því meiri líkur til, að hann sé önnum kafinn, er hann á að gegna tvöföldum störfum. Reynslan hefir sýnt, að gamla fyrirkomulagið hefir orðið skipunum óhagkvæmt án þess að vera megnugt að auka öryggi sóttvarnanna. Og það er ekki annað en fjarstæða að ætla að fara að spilla frv., sem ég ætla, að sé nú sæmilega úr garði gert, með því að fella inn í það ákvæði um, að sín sóttvarnarlögin gildi á hverjum stað. Enginn myndi „respektera“ slíka löggjöf, sem ekki væri von, því að í henni væri ekki heil brú.