02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Ég kveð mér nú hljóðs út af þingsköpum. Hæstv. ráðh. getur alls engar fyrirskipanir gefið mér um það, hvernig ég skuli greiða atkv. En hinsvegar þótti mér gott að heyra, að hann telur nú viðunandi horfur um afgr. kjördæmamálsins. En hvað snertir nefndarstörf mín á Alþingi, þá hefi ég alls ekki atkvæðamagn til þess að komast í nokkra nefnd. Og í þá einu n., sem ég á sæti í, komst ég fyrir boð annars aðalþingflokksins. Svo að hæstv. forsrh. hefir enga ástæðu til að núa mér um nasir, að ég kæri mig ekki um að taka þátt í nefndarstörfum á þingi.