17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég vil aðeins geta þess út af ummælum hv. 2. þm. Rang., að allir þessir menn, sem um getur í frv., hafa vottorð um að geta talað og skrifað málið. Það er vitanlega ómögulegt fyrir allshn. að rannsaka þetta í einstökum tilfellum, því að hún hefir ekki mennina við hendina. Þar að auki hafa engir þeirra dvalið hérlendis skemur en 5 ár, og sumir miklu lengur. Þeir eru flestir giftir íslenzkum konum og eiga börn með þeim. Það virðist ekki ástæða til að vera að halda ríkisborgararétti fyrir þessum mönnum, ef þeir eru ekki neitt sérstaklega athugunarverðir. Auk þess hefir það verið regla að veita þeim mönnum ríkisborgararétt, sem dvalið hafa hér 5 ár eða lengur. Það væri því misrétti gagnvart þessum mönnum að neita þeim um þann rétt, sem öðrum hefir verið veittur undir nákvæmlega sömu kringumstæðum.