17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég get tekið undir það, að lítið eftirlit hefir verið haft með innflutningi útlendinga að undanförnu. En nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til að skerpa þetta eftirlit, og mun það því verða strangara eftirleiðis. Ef þingið vill miða veitingu ríkisborgararéttar við það eitt, hversu umsækjendur tala vel og rita íslenzku, þá eru 8 ár enginn algildur mælikvarði um það. Sumir útlendingar ná þessu aldrei svo vel sé, en aðrir á miklu skemmri tíma. Ég skal t. d. upplýsa það, að nr. 2 í frv., Bjarni Ágústsson, sem fluttur er hingað frá Noregi og hefir dvalið hér 3 ár, talar svo vel íslenzku, að varla er hægt að heyra annað en að þar sé um innfæddan mann að ræða. Hann fullnægir því áreiðanlega því skilyrði, að tala íslenzka tungu, þótt ekki sé hann búinn að dvelja hér lengur en þetta. Hv. þm. taldi, að vottorðin væru óábyggileg. Það er þó ekki hægt eftir öðru að fara fyrir þingið. Og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að skilríkir menn gefi röng vottorð um þetta efni. Annars er það enginn mælikvarði á það, hversu góður þegn maðurinn er, hversu vel honum gengur að læra málið. Það veitist mörgum útlendingum erfitt að læra okkar mál, svo þeir geti talað það lýtalaust, einkanlega þó Dönum.