17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Sveinbjörn Högnason:

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að 8 ár er enginn algildur mælikvarði um þann tíma, sem útlendingar þurfa til að læra okkar mál. En það er þó meiri trygging fyrir því, að þeir læri það á 8 árum en t. d. 5 árum, þótt undantekningar séu um, að menn læri það á skemmri tíma. Og mér finnst ekkert óréttmætt, þótt dvalartíminn sé ákveðinn 8—10 ár.

Þótt kallað sé, að vottorð skilríkra manna fylgi, þá eru þess þó mörg dæmi, hversu réttur sá hluti vottorðsins er, sem vottar það, að umsækjandi tali og riti íslenzka tungu. Það er að vísu rétt, að tungumálakunnátta er ekki algildur mælikvarði um það, hversu góður þegn maðurinn er. En það gæti reynzt hættulegt máli voru, ef útlendingum er hleypt takmarkalaust inn í landið og síðan veittur ríkisborgararéttur, áður en hægt er að segja, að þeir geti bjargað sér í málinu. Með því er líka tekið frá þeim það aðhald, sem þeir annars hafa um að læra málið vel. Um þetta eru miklu strangari reglur erlendis, og er ástæðulaust fyrir okkur að vera vægari í þessu efni en tíðkast annarsstaðar.