23.05.1933
Neðri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Sveinbjörn Högnason:

Við 2. umr. skýrði ég frá því, að ég myndi flytja hér brtt., þar sem ég gat ekki orðið meðnm. mínum samferða um afgreiðslu málsins. Það hefir hingað til verið venja að veita mönnum ríkisborgararétt, þótt þeir væru ekki búnir að dvelja hér nema skamman tíma, enda hefir lítið eftirlit verið með innflutningi manna til landsins. En slíkt eftirlitsleysi dugir ekki í framtíðinni, né heldur það, að gefa mönnum ríkisborgararétt, þó að þeir hafi ekki dvalið hér nema fá ár.

Annarsstaðar verða menn að hafa dvalið í landinu mörg ár til þess að geta hlotið ríkisborgararétt. Sérstaklega á þetta við um England.

Einkum verður að gera ráð fyrir því, að menn dvelji svo lengi í landinu, að þeir geti talað málið. Flestir útlendingar eru ekki búnir að læra íslenzkuna fyrr en eftir 8—10 ár. Brtt. mín gengur því út á það, að einungis þeir fái ríkisborgararétt, sem dvalið hafa hér 8 ár. Hefi ég því fellt þar niður hina, sem. skemur hafa dvalið hér á landi, af þeim, sem meiri hl. allshn. hefir tekið upp. 3 hafa dvalið hér síðan 1927, Í síðan 1928 og 1 síðan 1929. Ég held, að meðan ekki er komið á öruggara eftirliti með innflutningi útlendinga, þá sé ekki annað hægt að gera en að ákveða einhvern lágmarks árafjölda. En þegar þetta eftirlit er komið, þá er meiri trygging fyrir því, að nákvæmar upplýsingar fáist um þessa menn, og má þá í hverju tilfelli athuga, hvort ekki er hægt að stytta tímann eitthvað.