03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

6. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Það hafa nú farið fram samningar milli stjórnarflokkanna um að láta þetta mál ganga til 3. umr., eins og auðheyrt var af ræðu hv. l. landsk. Ég get vitanlega ekkert við því sagt, þó að þeir komi sér saman um það, þó að manni virðist það að sumu leyti koma í bág við það, sem Sjálfstfl. hefir áður látið í ljós um þessi mál. Ætli svo verði ekki samningar um það, að sleppa því til Nd. Og þá hefir stj. það í hendi sér að afgreiða það sem lög frá Alþ., því að þar hefir hún svo öflugan meiri hl., að hún getur látið málið ganga fram þar án aðstoðar frá öðrum flokkum. En að sleppa málinu til 3. umr. skilst mér verði til þess að seinka stjskrármálinu, því að það er æfinlega svo, að þegar fer að líða á þing — og þetta þing er nú orðið nokkuð langdregið og aðgerðalítið —, þá fara þm. að tala um það, að nú sé um að gera að fara að komast heim, og skilja við sem flest mál í ólestri.

Ég get lýst því yfir viðvíkjandi þessu frv., að bæði ég og flokksbræður mínir hér á þingi munum greiða atkv. á móti því, bæði af „princip“ástæðu og eins af því, að við teljum, að stj. eigi ekki að fá slík tekjufrv. meðan haldið er rétti mikils meiri hl. kjósenda þjóðarinnar um að hafa áhrif á stjórn landsins. Það má vel vera, að slík tollastefna, sem felst í þessu frv., hafi meiri hl. Alþ., en þá er eðlilegast, að það sé samþ. af þm., sem væru kosnir af þjóðinni allri, en ekki nokkrum hluta hennar. Mun ég því halda fast við skoðun mína í þessu máli.

Þessi verðtollur verður ekki til annars en að auka dýrtíðina í landinu og viðhalda erfiðleikum þeirra stétta, er nota vöruna, sem þessi tollur er lagður á, og því fremur sem nú kemur aukinn verðtollur, sem nú er í uppsiglingu í Nd., og kemur hingað innan skamms. Það verður til þess að gera ennþá erfiðara þeim, sem nú eiga erfiðast.

Ennþá bólar ekki á því, að þetta fé, sem stj. á að fá til meðferðar, eigi að nota til þess að styrkja þá stéttina, er mest stendur höllum fæti, nefnilega verkalýðsstéttina, vegna hins gífurlega atvinnuleysis undanfarandi ára, heldur þvert á móti var við umr. fjárl. í Nd. felld till., sem fól í sér fjárveitingu til atvinnubóta handa þeim, sem erfiðast eiga uppdráttar.

Ég vísa aðeins til þess, sem áður hefir verið sagt af okkar hálfu um verðtollinn, og greiði atkv. á móti þessu frv., og eins því, sem næst er á dagskránni í dag (frv. um gengisviðauka).

Að lokum get ég ekki stillt mig um að vísa til ummæla hæstv. forsrh., þar sem hann talaði um, að hann vonaðist eftir því, að stjskrfrv. færi nú að ganga fram, því nú væri verið að vinna að því. En það er sú vinna, sem gengur seint, því að það hefir ekki tekizt á 11 vikum að koma á samkomulagi um málið, og það lítur út fyrir, að það sitji fast þrátt fyrir vinsamleg ummæli hæstv. forsrh. og góðan vilja til þess að koma því áleiðis.

Það virðist svo sem flokkur hans standi þar svo örðugur, að hann fái þar engu um ráðið, nema að það komi til, að ekki séu allir sjálfstæðismenn einlægir í því að halda þessu máli til streitu.