03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

6. mál, verðtollur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. þarf engar vonir að gera sér um það, að það lagi neitt fyrir framtíðinni, þó að þetta frv. verði fellt. Það mundi frekar spilla öllum möguleikum heldur en hitt.

Hv. þm. ber saman þær ráðstafanir, sem ætlazt er til að gerðar verði vegna landbúnaðarins samkv. frv. því, sem liggur fyrir Nd., og þær ráðstafanir, sem væntanlega verða gerðar vegna atvinnubóta fyrir verkamenn við sjávarsíðuna. Þetta er alls ekki sambærilegt á þann hátt, sem hv. þm. vildi vera láta. Þær ráðstafanir, sem ætlazt er til, að gerðar verði fyrir landbúnaðinn á næstu árum, eru fyrst og fremst vegna hinna eldri skulda og vaxtabyrði landbúnaðarins. Verkamenn, sem lifa á handafla sínum, hafa engar sambærilegar ástæður fram að bera í þessu efni. Bændurnir eru smákapitalistar, sem þurfa að hafa fjármagn fast í rekstri sínum. Sem smákapitalistar hafa þeir orðið fyrir þeim þungu búsifjum, sem enginn gerði ráð fyrir, að geta ekki staðið hjálparlaust undir hinum gömlu skuldum. Og ástæðan til þess, að ráðstöfunum út af hinum gömlu skuldum er dreift á fleiri ár, er vitanlega sú, að ríkið getur ekki á einu ári innt þessa skyldu af hendi.

Það, sem sambærilegt gæti verið, væri það, að bændum væri tryggt lágmarksverð fyrir afurðir sínar. Það eitt er sambærilegt við atvinnubótavinnu verkamanna. Ef sú ákvörðun verður tekin að tryggja bændum lágmarksverð fyrir afurðir sínar, verður það ekki gert nema til eins árs eða svo. Og það lágmarksverð, sem nefnt hefir verið, er svo lágt, að sé því deilt niður sem tímakaupi, stappar það nærri stórkostlegu atvinnuleysi hjá bændum. Það er því sízt bærilegra fyrir bændur en þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið vegna verkamanna. Báðum er að vísu fullerfitt. Það skal ég játa. En þær ráðstafanir, sem gerðar eru vegna gamalla skulda landbúnaðarins, eiga ekkert skylt við venjulegar atvinnubætur. Á því tvennu verður að gera glöggan greinarmun.