20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

6. mál, verðtollur

1182Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það gladdi mig að heyra viðurkenningu hæstv. forsrh. á því sambandi, sem hefir verið og ennþá er milli lýðræðis og skattamála, þar sem kröfurnar um lýðræði þjóðanna hafa verið bornar fram fyrst og fremst í því skyni, að þjóðirnar gætu fengið skattaálöguvaldið í sínar hendur. Hann bætti því svo við, sem verður ómótmælt af mér, að svipað samband væri milli lýðræðiskröfunnar og allra löggjafarmála. Þessu vil ég engan veginn mótmæla, heldur jafnvel undirstrika. En sá sögulegi sannleikur er það, að það eru skattamálin, sem oftast hafa orðið til að hrinda lýðræðiskröfunum af stað.

En svo vill hæstv. ráðh. halda því fram, að skattamálin hafi lítið sem ekkert verið notuð í baráttunni fyrir jöfnum kosningarrétti, sem annarsstaðar hefði aðallega snúizt móti konungsvaldinu. Ég vil gjarnan biðja hann að kynna sér ofurlítið sögu endurbótarinnar, sem kölluð er, í Englandi fyrir 101 ári síðan. Þar var sannarlega samband milli skattamálanna og þeirrar kröfu, sem þar var borin fram um jafnan kosningarrétt. Gangur málsins árið, sem málið var loks leyst, 1832, var sá, að snemma á árinu felldi parlamentið þetta frv. til breytinga á kjördæmaskipun og jöfnun kosningarréttarins, og svar þjóðarinnar varð einmitt það, að menn hættu að borga skatta í stóru borgunum, Birmingham og Manchester og mörgum fleiri borgum, sem höfðu ekki fulltrúa á þingi í neinu hlutfalli við fólksfjölda sinn. Ef hann vill lesa í enskum blöðum frá vormánuðunum 1832, þá mun hann finna þar þessa sögu málsins. Þetta var ekki heldur barátta milli konungsvaldsins og þjóðarinnar, því að konungur lýsti því yfir gagnvart íhaldinu í enska parlamentinu, að ef það léti ekki undan, þá mundu verða útnefndir nægilega margir nýir lávarðar til að samþ. þessi nýju lög. Það var fyrst fyrir þessa hótun konungsins, sem þessi þingsamkoma beygði sig undir að samþ. þessa stjórnarbót, sem þá var gerð. Svona var gangur málsins, að það var konungsvaldið, sem fyrst og fremst varð til þess að koma fram þessari stórfelldu réttarbót. Ég held, að þarna hafi ástandið verið ákaflega svipað og það er nú, þannig að skattamálin voru notuð sem vopn í þessari baráttu. En ég vona fastlega, að Alþingi beri gæfu til að leysa þetta mál, áður en til þess þyrfti að koma, að gripið yrði beinlínis til sama vopnsins og enska þjóðin gerði 1832, að neita að borga skattana.

Þá fór hæstv. ráðh. nokkrum orðum um þann ágreining, sem er um stjórnarskrármálið, og taldi, að aðallega væri um það deilt, hvort þm. ættu að verða 48 eða 50, en ég hygg, að þarna sé málum ekki allskostar rétt lýst. Við, sem berjumst fyrir jafnréttiskröfunni, gerum enga till. sérstaklega um tölu þm. Við höfum að vísu talið, að rétt væri að hafa nokkuð rúma heimild í stjórnarskránni að því er snertir tölu þm., eins og verið hefir hingað til og reynslan hefir sýnt, að gagnlegt hefir verið að geta notað sér. En þær till., sem upphaflega voru bornar fram af hálfu Sjálfstæðisfl. og Alþfl., fólu ekki í sér neina slíka fjölgun, sem nú er um að tala. Þess vegna er þetta atriði ekkert kappsmál. En það, sem er barizt um, það er, hve langt ákvæði stjórnarskrárinnar eigi að ganga í þá átt að gera kosningarrétt manna jafnan, hvort sem nú á að kjósa 48 eða 50 þm., og það er það, sem því miður skortir svo mikið á, þegar á að lögleiða 38 þingsæti í sérstökum kjördæmum. Þá er það, sem 10 eða 12 viðbótarsæti nægja ekki til að gera kosningarréttinn jafnan.

Fyrir mitt leyti er ég hvenær sem er fáanlegur til þess að fara með tölu þm. niður, jafnvel niður í það, sem hún er nú, ef það fæst gert á þann hátt, að réttur kjósenda til að velja þessa þm. verður jafn, eins og hann á að vera og allir viðurkenna, að hann eigi að vera.

Ef ekki er um annað atriði að ræða en það, hvort þingið skuli vera 2 mönnum fjölmennara eða fámennara, þá get ég tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, að leggja mætti niður stóru vopnin, en það er ekki það, sem barizt er um, heldur hitt, hvað mikinn afslátt eigi að gefa ranglætinu frá réttlætiskröfunni. Ég vil taka undir það og bæta nokkru við það, sem hæstv. forsrh. sagði um hættuna, sem af því leiddi, ef þetta mál verður ekki leyst á viðunandi hátt. Hættan er sú, að þeir, sem setja sig á móti viðunandi úrlausn á málinu, séu þar með að vinna í hendur nýrrar einræðisstefnu, en ekki að bjarga því minnihlutavaldi, sem nú er verið að berjast við að viðhalda. Það er óvíst, að það verði skjólgarður úr því fyrir það minnihl.vald. Það er eins líklegt, að það verði til þess að gefa nýju einræðisvaldi í landinu byr í seglin. Ég fyrir mitt leyti hefi engar óskir í þá átt, en ég er hræddur um, að umbót á stjskr., sem geri landsmenn ójafna að rétti til áhrifa á lög gjöf landsins, verði e. t. v. til þess að blása meir undir þá einræðisstefnu, sem nú er á uppsiglingu hér í álfu, en okkur er hollt. Og ábyrgðin liggur hjá þeim, sem eru of seinir að skilja, að lýðræðið heimtar jafnan kosningarrétt og heimtar hann alveg jafnan, og ef hægt er að ganga framan að hverjum einum og segja, hvenær sem gengið er að kjörborðinu: „þú hefir jafnan kosningarrétt og ég“, þá er ég ekki viss um, að þeir, sem hafa tilhneigingu til einræðis, vilji láta nægja, þótt komið sé til þeirra og sagt: „Þú hefir a. m. k. alltaf hálfan kosningarrétt á við aðra hér í landi“. Ég vil vara hv. þm. Framsfl. við, því að ég er ekki viss um, að þeir viti, hvað þeir eru að gera, þegar þeir á þessum tíma standa svo öndvert gegn þessu máli, sem skemmdarbreyt., er gerð var á frv. stj. í Nd., ber ljósastan vott um. Hvað þetta mál snertir, hefir enginn aðra ósk en þá, að lokið yrði samkomulagstilraunum í stjskrármálinu. Og tilmæli mín til hæstv. forseta eru, að hann, þegar honum þykir umr. orðnar nógu langar, taki þetta mál og 9. mál (frv. um gengisviðauka) út af dagskrá.