20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

6. mál, verðtollur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki rekja meira hið sögulega samband milli skattamála og kosningarréttar. Ég hefi ekki lesið blöð frá 1832. Maður kemst varla yfir að lesa þau, sem nú eru gefin út á voru landi, svo að ég mun ekki fara svo langt aftur í tímann. Má vera, að þá hafi skatt-„strike“ utan þings ráðið nokkru, en ég hefi ekki kynnt mér það. En það skeður sumt annað skrítið, eins og þegar það bar við á Englandi, að þeir, sem barizt höfðu fyrir rýmkun kosningarréttar, greiddu atkv. á móti því, þegar til kom, því að þá voru flokkarnir orðnir of sammála (!) til þess að geta átt samleið. Svona hlutir hafa skeð, að mál, sem flokkar hafa barizt fyrir, skilja þeir við, þegar andstæðingarnir eru búnir að taka þau upp. Og ég er hræddur um, að Sjálfstfl. og jafnaðarmenn telji af flokkslegum ástæðum ekki forsvaranlegt að fylgja þessu máli, þegar annar flokkur er kominn hæfilega langt til móts við þá. Þannig er það, þegar flokksstoltið ræður meiru en öll rök málsins, og lýðræðið getur á hvaða tíma sem er eyðilagt sig á þennan hátt, og ég átti ekki við það, þegar ég talaði um hættuna af þessu máli, að einræði gæti sprottið upp úr því, ef þingið afgreiddi 48 þingsæti, ellegar 10 uppbótarsæti, en ætti að sleppa hjá byltingu og einræði, ef það afgreiddi 12 uppbótarsæti. Ég átti aðeins við hitt, að þegar þingræðið er komið í það horf, að það „fungerar“ ekki lengur, þegar flokkarnir missa skilyrðin til að gera málamiðlun, sem er lífsskilyrði fyrir lýðræðið, og það er ekki einungis kosningarrétturinn, sem hefir verndað lýðræðið í Englandi, heldur hitt, að Englendingar hafa kunnað að gera málamiðlun. Þótt stjskrármálið yrði afgreitt svo, að þeir, sem ýtrastar kröfur gera, sætti sig við, þá er þessi hætta ekki úr sögunni. Í sambandi við hvert stórmál sem er, getur þetta komið fyrir, ef flokkarnir missa hæfileikann til þess að gera málamiðlun á seinasta stigi málsins. Eins og er nú hér og mun verða fyrst um sinn, að enginn einn flokkur hefir hreinan meiri hl., þá sjá allir, að lýðræðinu er hætta búin, hversu jafn sem kosningarrétturinn er. Ég orðaði þetta svo, að það, sem á milli bæri, væri 48 eða 50 þm., nákvæmlega orðað, hvort ætti að vera 10 eða 12 jöfnunarsæti. En það nær alveg yfir aðalatriðið í þessu máli. Nú skal ég játa það, eins og hv. 1. landsk. sagði, að ef einhver fær þá hugmynd, að honum sé ekki sýnt réttlæti nema til hálfs, þá getur þjóðfélaginu verið hætta búin, ef það er öflugur og stór hópur, sem hefir þessa tilfinningu. En að hætt sé við, að stór hópur fái þetta í meðvitundina, getur ekki verið komið undir því, hvort uppbótarsætin eru 10 eða 12. Þá hefir hv. 1. landsk. meiri mátt á að villa mönnum sýn en ég hefi haldið, að hann hefði tilhneigingu og möguleika til. (JakM: En 8 og 10?). Það er líka munur á 8 og 10, en þó meiri munur á 8 og 12. (JakM: Það er leiðinlegt að hlusta á svona umr.). Það er stigmunur, en ekki meginmunur. Hér er ekki um það rætt, hvort einn sé ranglátur eða annar réttlátur, þar sem komið er svona nálægt hver öðrum, að ómögulegt virðist að koma mönnum saman. Það er hinn einfaldi sannleikur í þeim hlutum. Málið er komið á það stig, að atkv. verða að ráða og hver verður að þola öðrum lög. Lýðræðið heimtar jafnan kosningarrétt. Ég tek vissulega undir þetta með hv. 1. landsk. En ég vil þó heldur orða það svo, að lýðræðið heimti jafna aðstöðu um áhrif og völd í þjóðfélaginu. En hvers vegna er það, að þessi krafa hefir verið gerð með svona miklum krafti? Það er ekki vegna þess, að menn heimti jafna aðstöðu í lífinu í öllum hlutum, og ekki einungis í því, að fá einn dag á hverjum fjórum árum að ganga jafnir til kjörborðsins; og ég vil hlusta á alla þá, ,sem einungis tala um jafna aðstöðu almennings í landinu, og er fús að gera jafnræði á þessu þingi um allt. Þeir einir geta talað hér um réttlæti og ranglæti, sem þekkja það hvorttveggja í öllum sínum myndum. Og það er margt fleira, sem liggur fyrir þinginu en þetta stjskrármál. Það mál er að vísu stórt, og ég hefi viljað leggja mitt lið til þess, að unnt sé að leysa það. Og þótt óvirðulegum orðum sé e. t. v. um það farið, hvaða áhrif ég hafi meðal minna flokksmanna, og sé hnýtt aftan í þú einhverja, þá veit ég, að talið verður, að ég hafi stigið stórt spor í áttina til að leysa þetta mál. Og það er orðið svo stórt, að allt tal um stöðvun og stórar áhættur fyrir þjóðfélagið á að vera niður fellt. Ef hér á að verða bylting út af 10 eða 12 uppbótarsætum, þá yrði hún án tillits til þess, hvort einhverjir framsóknarm. ýttu undir eða ekki, því að þá liggur samskonar andi í hugarfarinu sjálfu og myndi koma fram í öðrum málum innan skamms.