20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

6. mál, verðtollur

Magnús Torfason:

Við framsóknarm. höfum nú orðið að þola það, að form. Sjálfstfl. og Jafnaðarmannafl. hafi þulið hér, ekki aðeins í vetur, heldur líka í fyrravetur og fyrrasumar, langan og breiðan um þetta blessað jafnréttismál án þess að hinn flokkurinn hafi eiginlega tekið þar neitt til andmæla. Ég fyrir mitt leyti hefi setið undir þessu og átt oft bágt með að hlusta á þetta hjal allt saman. Þó verð ég að játa, að eins og nú er komið málum, finnst mér úr hófi keyra. Ég vík hér sérstaklega að hv. 1. landsk., og um hann má segja það, sem sagt var við visst tækifæri: „Villir hann vísdóm allan, veldur því karl í feldi“. Ég sé ekki betur en að allt í þessu hjali sé öfugt við það, sem rétt er, líka við það, sem sagan og sérstaklega þau dæmi, sem hann hefir vitnað til í sögunni, benda til. Það þýðir vitanlega ekki að bera saman ástandið hvað kosningarétt snertir við það, sem var í Frakklandi 1789 og Englandi 1832. Þar er svo langt bil á milli, að það nær ekki nokkurri átt að jafna því saman. Ef ætti að jafna því saman við nokkurn hlut, þá er það, hvernig nú er ástatt í þessum 2 löndum. Við getum borið okkur saman við ástandið í Frakklandi nú. Þar er líkt ástatt og hér. Það er vitanlegt, að efri deildin, öldungaráðið í Frakklandi; er þannig skipað, að dreifðu landsbyggðirnar hafa mun fleiri atkv. en bæirnir. Þetta er gert með ásettu ráði af beztu mönnum þjóðarinnar eftir byltinguna, sem varð 1870. Það skipulag stendur enn og hefir þótt reynast vel. Í Englandi er það ekki komið eins langt eins og hér um það, að menn hafi jafnan rétt til kosninga. — Svo er þess að gæta, að jafnrétti til kosninga í hverju kjördæmi, það er ekkert jafnrétti yfirleitt; ekkert annað en hreint og beint ranglæti. Það er vitanlegt, að jafnrétti nær yfir miklu meira en atkvæðisrétt; það nær til þess að hafa áhrif á þing og stjórn yfirleitt, en það er alveg víst að höfuðborgin, Reykjavík, hefir svo mikil áhrif á þing og stjórn, að það er meira en hún á að réttu lagi, enda hefir verið skorað hvað eftir annað á „réttlætismaurinn“ að finna því stoð, að hlutur Reykjavíkur hefði verið fyrir borð borinn. Þeir eiga því ósvarað enn. Það hefir ekki verið reynt. Þess vegna er grundvöllurinn undir þessu hjali öllu saman skakkur. En það er annað, sem er enn skakkara, og það er, að hv. 1. landsk. vill, að Ed. berjist fyrir meira jafnrétti kjósendanna. Ég held, að það sé einsdæmi í sögunni, að efri deild þinganna hafi barizt fyrir meira jafnrétti kjósendanna. Ég þekki ekki til þess, að það hafi nokkursstaðar átt sér stað; þvert á móti. Efri deild þinganna hefir alstaðar verið íhaldsvald, hefir verið sú deild, sem hefir staðið á móti því, að þegnarnir fengi jafna aðstöðu til þjóðmála og þjóðlífs yfirleitt. Þess vegna er það sérstakt, ef okkar Ed. á að fara að berjast sérstaklega fyrir jafnrétti í þjóðfélaginu. Það er ekkert annað heldur en jöfn völd, sem um er deilt og um á að deila, og það er víst, að Reykvíkingar hafa það jafnvel nú, hvað þá heldur, ef meiru verður við þá bætt. Nú er það borið hér fram, að á þessu stigi málsins hafi þessir flokkar meiri hl. kjósendanna á bak við sig. Ef málið líkt því og það stendur nú í Nd. væri borið fram, verð ég fullkomlega að leyfa mér að efast um, að þeir fengju meiri hl. kjósendanna til þess að vera á móti því. (JónÞ: Hvort er meira 65 eða 35?). Það var allt öðru máli að gegna, þegar kosningar fóru fram síðast. Ég segi nú. Þá var þetta tilboð ekki fyrir hendi, og ég leyfi mér að efast um, að það sé rétt hjá þessum mönnum, að þeir hafi meiri hl. með sér. Þá vil ég sérstaklega í þessu sambandi leyfa mér að benda á eitt atriði, sem hér kemur til greina, og það er, að mér er óhætt að segja, að utan Reykjavíkur sé það álit velflestra manna, að það sé alls ekki rétt að fjölga þm. Ég hefi orðið var við þetta fyrr og síðar frá því ég fór að gefa mig nokkuð við stjórnmálum. Ég er ekki í neinum vafa um það, að mönnum þykir yfirleitt, að þau væri nóg að fjölga þm. upp í 48, þó að ekki sé þar meiru við bætt. Þá var lögð áherzla á það, að baráttan hér væri um það, að meiri hl. kjósendanna ætti að fá völdin. — Hvað er það, sem hefir skeð í Nd.? Ekkert annað en með því að bjóða 48 þm. afsalar Framsfl. sér meirihlutavaldinu í þinginu. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hann fær enga 24 þm. við þær kosningar, sem eiga að fara fram eftir hinum nýju stjórnarskrárlögum. Ég býst við, að enginn þeirra manna, sem nokkuð þekkja til, sé í neinum vafa um það. Ef þetta er rétt, þá skil ég ekki, um hvað þarf að berjast, því undir eins og þessir flokkar, sem nú eru í minni hl. í þinginu; eru komnir í meiri hl., hafa þeir vitanlega í sínu valdi að breyta þessu eins og þeir vilja hafa það. Hitt er annað mál, að ég gæti vel búizt við því, að þegar samvinnunni milli jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna væri lokið um þetta mál, muni það ekki ganga svo greiðlega að fá þá til samvinnu aftur, og þá blátt áfram af því, að ég held, að ef hv. l. landsk. ræður í sínum flokki, þá muni hann verða þeirrar skoðunar, að það sé alls ekki vert að halda áfram á þessari braut. (JónÞ: En hv. 2. landsk. í sínum flokki?). Hv. 2. landsk. ræður yfir svo fáum mönnum, að jafnvel eftir nýja fyrirkomulaginu verður hann alltaf í miklum minni hl. Þess vegna er hann ábyrgðarlaus; en það er alls ekki víst, að hv. 1. landsk. verði ábyrgðarlaus eftir að farið hafa fram kosningar eftir hinni nýju breyt. á stjskr., og þá skulum við sjá, hvort ekki þýtur eitthvað öðruvísi í skjánum en nú. Hv. 1. landsk. vill láta eins og að nú væru sömu ástæður fyrir hendi eins og voru, þegar samkomulagið varð um stj.; en það er alls ekki. Síðan hefir sú stóra breyt. orðið, að Sjálfstfl. á mann í stj. og hefir stutt hana.

Þá kem ég að því, sem ég hygg, að sé líka einsdæmi, og það er, að einn flokkur neiti þeirri stj., sem hann styður, um nauðsynlega fjármuni til þess að halda við þjóðarbúskapnum. (JakM: Það var verið að biðja um að taka málið út af dagskrá). Það verður ekki fyrr en ég er búinn að ljúka máli mínu. — Þetta er líka atriði, sem vert er að athuga og sem er vitanlega á móti öllum þingreglum. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þessir 48 þm., sem flokkurinn hefir boðið til samkomulags, sé fullkomin uppgjöf af hendi Framsfl. Með því afsalar hann sér meirihlutavaldinu og sennilega ákveðið, að hann skuli vera í minni hluta héðan af. Ég segi sennilega. Hitt er vitanlegt, að það geta komið fyrir ýmis kraftaverk, og þá ekki síður vitanlega þau kraftaverk, sem hafa skeð áður. Ég lít svo á, að eitt af þeim kraftaverkum, sem gerzt hafa í þingsögunni, hafi verið einmitt það, þegar hv. 1. landsk., form. meirihlutavaldsins í þinginu, lagði meira hluta þings í hendur Framsóknar. Það var kraftaverk að fara þannig að ráði sínu, — það er ábyggilegt. Lengra hélt ég ekki, að hægt væri að pína flokk, sem hefir meiri hl. í þinginu, en nú er komið, því að þetta er fullkomin uppgjöf af flokksins hendi.

Þá er líka rétt að minnast enn á eitt atriði, sem sjálfsagt hefir meiri eða minni áhrif í allri þessari baráttu, og það er stjórnarmyndunin. Í fyrra, þegar þessir samningar voru að gerast, ákvað meiri hl. Framsóknar að skila völdunum í hendurnar á hv. 1. landsk. (JónÞ: Það hefi ég aldrei heyrt). Jú, jú, jú, jú. Þetta vissu allir. En hvernig fór? Þegar Sjálfstfl. fær vitneskju um þetta, ætlar hann að rifna og vill ekki fyrir nokkurn mun taka við völdunum. (JakM: Ætlar þm. að fara að sækja um skáldastyrk?). Ég er nú orðinn svo gamall, að það tekur ekki fyrir mig að gera það héðan af, en þetta mun vera skjalfest samt sem áður hér í bók, hvað sem hv. 1. þm. Reykv. segir um skáldskap. Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að það virðist ómögulegt fyrir Framsfl. að gera þessum flokki til hæfis á neinn hátt. Til þess liggja vitanlega ástæður; aðrar en þær, sem beint liggja að stjórnarskrármálinu. Það liggja vitanlega þær ástæður að því, að það á að fara að berjast hér í þinginu til þrautar fyrir hverju einstöku máli með því að neita hverri stj. sem er um það fé, sem þarf til þess að reka þjóðarbúið. Það er þetta, sem verið er að færa inn í þingið, og það, sem er það nýstárlega nú, það er að vera að fitja upp á þessu, jafnvel þó að tveir flokkar standi að stj., sem ráða eitthvað 9/10 hlutum þingsins, eða allt að því. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það mun sannast síðar meir, að öll þessi frammistaða hefir sín vondu áhrif á stjórnarfar okkar á sínum tíma. Hinsvegar skil ég það vel, að hv. 1. landsk. sjái þetta ekki, því að það er víst, að frá því hann steig fyrsta sporið á þessari „réttlætisins“ braut, sem hann kallar, hefir hann ekki vitað, hvað hann er að gera.