20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

6. mál, verðtollur

Jón Jónsson:

Ég skal ekki deila við hv. 1. landsk. um, hve mikið verk hann hafi unnið til þess að sannfæra þjóðina um sinn málstað. Það verða e. t. v. skiptar skoðanir um það, eins og fleira nú á dögum. Það, sem mér finnst hann núna vera að leggja til, er að sannfæra með sleggjunni. (JónÞ: Brjóta múra). Brjóta múra, við skulum segja það. En það, sem hann hefir skrifað og talað um stjórnarskrána sjálfa og hvaða fyrirkomulag er heppilegast, hefir miðað til þess að sannfæra þjóðina. Mér finnst, að hann, eins og hver annar góður þegn í þjóðfélaginu, eigi að sætta sig við og bíða, þangað til þjóðin sannfærist um, að hann hafi á réttu að standa. (JónÞ: Áskorun frá meira en 20 þús. manns liggur nú fyrir Alþingi, — og hvað viljið þið hafa það meira?). Mér finnst, að eftir því sem hann er sannfærðari um, að sinn málstaður sé réttur, þá ætti hann að vona, að ekki verði langt að bíða, enda er eftir þeim tilboðum, sem fyrir liggja frá meiri hl. þings, öruggt, að meirihl. þjóðarinnar geti fengið meiri hl. þings, og þá ættu ekki að verða vandræði úr því.