20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

6. mál, verðtollur

Fors:

og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]: Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ábyrgðin yrði því þyngri í stjórnarskrármálinu, eins og öðrum málum, því minna sem á milli bæri. Ég geri ráð fyrir því, að það sé nokkuð til í þessu. En það verður bara sá stóri munur frá því, að þegar miklu munar um málstað, deilist ábyrgðin jafnt, og það er það, sem orðið er í þessu stjórnarskrármáli. Ágreiningurinn er orðinn svo lítill í þessu máli, að engin afgerandi rök eru til lengur, og sú ábyrgð, sem stafar af mistökum í þessu efni í þinglokin mun deilast á alla, sem að því hafa staðið. Mér er hægara að segja þetta heldur en öðrum, vegna þess að ég stend utan við þessa deilu, sem nú stendur yfir. Þær lausnir, sem nú eru möguleikar á, eru forsvaranlegar, þó að aðrar kunni að vera betri. Og þó að málið verði afgr. með 12 uppbótarsætum, þá er vitanlega til betri lausn, sem einhverjum kynni að detta í hug að halda fram. Hér er eingöngu um stigmun að ræða, en engan eðlismun. Nú er komið svo langt þessum málum, að það verður að láta þau ganga gegnum Ed. og Nd. og sjá, hverjar breyt. kunna að verða gerðar þar á. En þær verða aldrei stórar, ef þær verða einhverjar. Þær verða aldrei svo stórar, að þær orsaki mikinn hita eða miklar afleiðingar.

Annað skal ég ekki segja um stjórnarskrármálið að þessu sinni. En alveg á sama hátt og mér hafa áður borizt óskir um, að verðtollurinn og gengisviðaukinn væru teknir af dagskrá, þá hafa mér líka borizt sterkar óskir um, að málin væru tekin á dagskrá og látin standa þar. Nú get ég ekki tekið undir ástæður þeirra manna, sem vilja, vegna stjórnarskrármálsins, leggja stein í götu þessara tveggja tollamála, sérstaklega þar sem ég veit, að meiri hl. þings og þjóðar vill halda áfram þessum gömlu tollaálögum. Samkv. gildandi lögum eiga þessir tollar að standa til næstu áramóta. Ef þessir tollar ná ekki samþykki þessa þings, getur orðið hætta á því, að halda þurfi þing fyrir áramót. En það getur ekki verið neitt úrslitaatriði. En vegna þess kapps, sem hefir verið lagt á að taka málin af dagskrá og á dagskrá, og vegna þess, hve nú er langt liðið á þingtímann, án þess að fullnaðarsamningar hafi verið gerðir, þá get ég ekki óskað eftir því, að málið verði tekið út af dagskrá; því verður deildin sjálf að ráða, hvernig hún hagar meðferð þessara mála.