18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

29. mál, iðju og iðnað

Frsm. (Jakob Möller):

Lögin eru vitanlega ónýtt, ef réttindin eru ekki skorðuð við, að menn hafi fengið sveinsbréf, hafi sýnt með því að standast sitt próf, að þeir eigi heimtingu á þeim. Það er ekki nokkur vafi um, að 1. gr. sé til stórra bóta, svo framarlega sem rétt er yfirleitt að setja löggjöf um iðnað, og sérstaklega um iðnnám. Þarna er settur annar möguleiki til þess, að menn geti fengið fullan rétt sem iðnaðarmenn án þess að taka próf. Þess vegna er varla hægt að deila um það, að svo fremi sem hægt er að gera kröfu til þess, að menn hafi lokið námi að fullu, þá verði svo um hnútana búið, að ekki séu þau réttindi veitt öðrum en þeim, sem prófi hafa lokið. Undanþága sú, sem um ræðir í 2. gr., er að veita megi próflausum mönnum stöðu, ef svo stendur á, að iðnaðarmenn vantar í eitthvert hérað; þó er sá varnagli við þessu sleginn, að hann hefir ekki réttindi á öðrum stöðum, og er heldur ekki fær um að kenna öðrum, svo að þeir öðlist réttindi í öðrum héruðum. Þetta er ekki einungis til þess að tryggja mönnum, að þeir fái vinnu, heldur og fullt eins mikið iðnaðinum til tryggingar, og einmitt þessi gr. miðar að því að bæta hag og horfur hans. Viðvíkjandi atriðinu í 3. gr., að lögbjóða eigi fyrirkomulagið um kosningu iðnráðs, vil ég segja það, að aðferðin átti að vera sú, að hæstv. ráðh. legði til grindina og Alþingi fyllti hana síðan út. Það má gera síðar, eftir því sem á horfist.