23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

12. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil þakka hv. n. afgreiðslu þessa frv., þó að mér þyki hún hafa verið fulllengi með það. En ég skil þann drátt af þeim orðum hv. frsm., að n. hafi verið í vafa um það, hvort hún ætti yfir höfuð að afgreiða málið, og þykir mér vænt um, að sú niðurstaða varð á því, sem nú liggur fyrir. Hv. frsm. hefir tekið svo rækilega fram flest það, sem segja þarf um þetta frv., að ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. En að því er snertir brtt. hv. n. get ég lýst því yfir, að ég mun ekki verða á móti þeim. Mér er það ljóst, að um ýmsar þær tölur, sem settar eru í frv., getur verið álitamál, hvað rétt sé, — um það er erfitt að dæma. En ástæðan til þess, að skrifstofuféð var ekki ákveðið til 5 ára, eins og mælt er fyrir í 1., er sú, að árið 1920, þegar launal. gengu í gildi, þótti ekki fært að fastsetja þetta til 5 ára, þar sem svo miklar sveiflur voru á verðgildinu. Þá komst það á að gera þetta á hverju ári. En það er mjög leiðinlegt verk fyrir stj. að þurfa að vera að hnitmiða þetta niður árlega, því að oft er mikill reipdráttur milli embættismanna um það, er þeir bera úr býtum í þessu efni. En verði þetta frv. að lögum, eru þessar fjárgreiðslur festar í eitt skipti fyrir öll til 5 ára, og stj. hefir þá ekki heimild til þess að borga meira. Og það er vafalaust til bóta.