07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Þetta er nú í annað skiptið, sem farið er af stað með þetta frv. um lögreglu ríkisins. Árið 1924, rétt fyrir þinglokin, var laumast á milli þingmanna og þeir beðnir fyrir frumvarpsóburð, sem svo kallaðir „ungir íhaldsmenn“ í bænum höfðu látið semja. Það mun hafa verið lagt fram í allshn. Nd. í þinglokin, en ekki varð þó af því, að sú n. eða meiri hl. hennar vildi líta við frv.

Samkv. þessu frv. átti að koma á fót stórri sveit varalögreglumanna í hverjum kaupstað landsins, og voru allir karlmenn á aldrinum frá tvítugu til fimmtugs skyldir til að ganga í þá lögreglu. Íhaldsstj. mun hafa verið neydd til þess af ýmsum ofstækisfullum stuðningsmönnum í bænum að flytja þetta frv. Það var áreiðanlega víst, að þáverandi dóms- og forsrh., Jóni heit. Magnússyni, var ekki ljúft að bera þetta frv. fram. Enda fylgdi hann því slælegar eftir en hann annars var vanur að fylgja málum.

Í því frv. var gengið hreint til verks. Það var sagt frá því, að það ætti að veita ríkisstj. heimild til að koma á fót fullkomnu herbákni. Það átti að skipa „generala“, sveitarforingja, eftir þörfum og kaupa hergögn og yfirleitt það, sem nýtízku her útheimtir. Það var mjög sómasamlegt hjá íhaldinu að búa þetta svona greinilega út, að hverjum manni væri auðsætt, hvað fyrir væri ætlazt. Þó að liðin séu nokkur ár síðan þetta frv. kom fram, þá má þó segja, að mönnum sé enn í fersku minni, hvernig þessu máli var tekið hjá þjóðinni og á þingi. Fyrst var það, að mótmæli drifu að hvaðanæfa af landinu, sérstaklega frá verklýðsfélögum, af skiljanlegum ástæðum, því að gegn þeim átti að beita herbákninu. Þetta frv. komst ekki fram á þinginu 1925. Það var tekið af dagskrá fyrir fullt og allt, þegar stj. sá, að það myndi verða steindrepið, til þess að verða sér ofurlítið minna til minnkunar. Stj. iðraðist eftir að hafa flutt þetta frv. Enda er ekkert efamál, að ríkislögreglufrv. frá 1925 var einn stærsti banabiti Íhaldsflokksins eða íhaldsstj. við kosningarnar 1927. Landsfólkið trúði ekki þeim mönnum til að halda áfram að fara með völdin í landinu, sem höfðu gert sig bera að því að vilja koma á fót her hér í landi, og höfðu beitt sér fyrir slíku óheillamáli.

Það urðu um þetta miklar umr. á þingi 1925. Er gaman að rifja upp fyrir sér ofurlítið af því, sem sagt var þá, bæði með og móti. Það er í sjálfu sér lærdómsríkt fyrir þá menn, sem nú styðja hæstv. samsteypustjórn, að rifja upp fyrir sér, hvað þeir þá sögðu, til þess að þeir geti verið betur í samræmi við sjálfa sig. Því að gera má ráð fyrir, að þessir menn hafi haft grundvallaða skoðun fyrir þeim stóru og sterku orðum — og réttmætu, að mínum dómi — sem þeir notuðu í baráttunni gegn frv.

Nú liggur á ný fyrir frv. til l. um lögreglu ríkisins. Það er að því leyti svipað frv. frá 1925, að því er ætlað að vinna sama verk. En sá er munurinn, að þetta frv. er miklu lævíslegar orðað en það gamla, svo að það er jafnvel ætlazt til, að það sé sett á fót stærra bákn heldur en nokkrum datt í hug 1925. Því að þótt þá væri gert ráð fyrir stórkostlegri herskyldu í 30 ár, sem næði til ca. 7 þús. manna í kaupstöðum, þá er þetta víðtækara nú. Samkv. 1. gr. frv. á að taka til ríkislögreglunnar aðstoðarmenn, eftir því sem þurfa þykir. Heimildin er alveg ótæmandi. Það fer eftir vilja og geðþótta ríkisstj. á hverjum tíma, hversu mikið lið er dregið saman. En til þess á hinn bóginn að blekkja landslýðinn, þá er ekki stungið upp á að setja nema tíu fasta menn í ríkislögregluna. (MG: Þykir þingmanninum það of lítið?). Mér þykir það of lítið, miðað við það, sem stj. ætlar sér að draga saman af liði. Mér þykir það svo naglaleg lævísi hjá hæstv. ríkisstjórn að tala um að setja á stofn tíu manna lögreglu, en ætla að fá heimild til að draga saman þúsund eða margar þúsundir.

Mér finnst það vel við eigandi að byrja röksemdafærslu á móti þessu ríkislögreglufrv. með orðum húsbónda hæstv. dómsmrh., núverandi forsrh., Ásgeirs Ásgeirssonar. Hann hóf fyrstu ræðu sína um ríkislögreglufrv. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að ekkert væri annað en það, að þetta ríkislögreglufrv. hefir ekki verið borið undir þjóðina áður en það var borið fram á þingi, þá bæri af þeirri ástæðu einni að vísa því frá“. Nú hefir þetta ekki heldur verið gert, eins og kunnugt er. Hæstv. stj. hefir laumað þessu frv. inn í þingið án þess að bera það undir þjóðina. En það getur vel verið, að þeir séu svo ráðríkir, samstarfsmenn hæstv. forsrh. í stj., að þeir geti gert allan þremilinn án þess að spyrja leyfis. Það kom a. m. k. fyrir síðastl. haust, að forsrh. og flokksbróðir hans í stj. gátu ekki við neitt ráðið. Þriðji maðurinn í ríkisstj. fór öllu sínu fram og rak mann úr embætti. Hann rak Lárus frá Kleppi og setti Helga Tómasson inn. Þeir eru líklega svona ráðríkir, sjálfstæðismennirnir í ríkisstj., að þeir geta farið öllu sínu fram, og forsrh. ræður ekkert við þá. Því að það er sýnilegt af orðum núverandi forsrh. frá 1925, að hann mundi hafa viljað leggja slíkt mál fyrir þjóðina, og þá sennilega með kosningum. Og það er í rauninni alls ekki óeðlilegt að fara fram á kosningar um það, hvort Íslendingar, sem hingað til hafa ekki verið nein herþjóð og ætla ekki að verða það, þar sem þeir hafa lýst yfir ævarandi hlutleysi, ættu að fara að koma upp her í landinu.

Það verður því helzt að ganga út frá því, þangað til annað heyrist, að hæstv. dómsmrh. geri þetta alveg á bak við hæstv. forsrh., eða hafi farið sínu fram, hvað sem hann sagði.

Síðan 9. nóv. í haust hefir ríkisstj. haft sveit lögreglumanna hér í bænum. Ég mun víkja að því síðar. En hæstv. ráðh. sagði, að aðaltildrög til þessa frv. séu deilurnar, sem urðu 9. nóv. Fyrir þessa lögreglu sína hefir ríkisstj. greitt stórfé. Ég veit ekki gerla, hve margt manna hún hefir haft á mála, en þeir hafa líklega skipt hundruðum — og kannske enn — og eftir því sem hæstv. forsrh. upplýsti á dögunum í Alþingi, þá hefir ríkislögreglan kostað um 1 þús. kr. á dag. M. ö. o. ríkisstj. er síðan í morgun búin að eyða 5—600 kr. í þessa lögreglu. Ég spyr hæstv. stj.: Hvaðan hefir hún heimild til að eyða þessu? „Hún er að reyna að fá heimild“, heyri ég að einn af stuðningsmönnum stj. segir. En hvaðan hefir hún haft heimild fyrir þessu tiltæki sínu síðan í nóv.? Það er ekki gert ráð fyrir í fjárl. né neinum öðrum lögum, að ríkisstj. megi eyða fé í slíka hluti sem þessa. Og kostnaðurinn við þessa ríkislögreglu, sem hæstv. stj. leyfði sér að koma á fót, getur orðið upp undir 400 þús. kr. á ári. Það er hægt að byggja eina stórbrú fyrir þá peninga árlega. Nú er alls ekki sagt, að þessi kostnaður geti ekki orðið meiri en 400 þús. kr. Eftir frv. getur hann eins orðið milljón eða hálfönnur milljón, eða hver veit hvað. Það voru leiddar líkur að því 1925, að ríkislögreglan, sem þá var gert ráð fyrir, mundi kosta hátt á 2. millj. kr. Og ég gæti vel trúað því, að ef ríkisstj. fer að setja á stofn þennan her, þá verði haldið áfram þangað til þetta er orðinn þyngsti útgjaldaliður ríkisins. Það hefir farið svo hjá hverri þjóð, sem byrjað hefir á herbúnaðarvitleysunni, að herkostnaðurínn varð þyngsta byrði þjóðarinnar. Þetta er byrjunin. Hún fer myndarlega af stað, 400 þús. kr. á ári. Það er áreiðanlegt, að þessi hernaðargjöld velta upp á sig; þau vaxa ár frá ári, ef á annað borð er sleppt við stj. heimild til að mynda her.

En hver er svo tilgangurinn með þessum her? Ég get ekki séð, að hann sé annar en sá sami, sem vakti fyrir íhaldinu 1925. 1925 var þáverandi fors.- og dómsmrh., Jón Magnússon, spurður í þaula um það, til hvers ætti að nota herinn. Það var lengi vel lítið um svör. En eina dæmið, sem hann loks vitnaði í, var atvik, sem kom fyrir um veturinn, að verkamenn stöðvuðu einhversstaðar vinnu. Í slíkum tilfellum átti þá að nota herinn.

Nú er þetta frv. lævíslegar orðað en frv. frá 1925, og hæstv. ráðh. gætti þess líka að skýra það lævíslega. Hann þorði ekki að taka orðalagið eins og það var í frvgr., heldur breytti hann því þegar hann skýrði frá, hvernig ætti að nota herinn. Hann vitnaði í 3. gr. og kvað alls ekki eiga að nota herinn í vinnudeilum; hefði stj. beinlínis sett í frv., að ekki ætti að nota lögregluna til að kúga vinnukaupendur eða vinnuseljendur, þegar vinnudeilur stæðu yfir. En það er dálítið annað, sem stendur í frv. Þar stendur, að það megi ekki nota ríkislögregluna til að kúga vinnukaupendur eða vinnuseljendur í löglegum kaupdeilum. Þetta orð er sett inn af einhverjum slyngum „júrista“, til þess eins og að benda á mótsetninguna, ólöglegar vinnudeilur. Og ráðh. veit, hvernig þetta muni verða túlkað, t. d. í hæstarétti. En hver á upphaflega að úrskurða, hvað séu löglegar vinnudeilur? Það gerir dómsmrh. Og hann getur sagt, að bókstaflega allar vinnudeilur séu ólöglegar. Það eru engin lög til, sem ræða um eða gera ráð fyrir vinnudeilum. Þess vegna mundu allar vinnudeilur verða ólöglegar í augum hæstv. núverandi dómsmrh. Orðalag frv. þýðir því beinlínis, að það eigi að nota ríkislögregluna í öllum vinnudeilum, sem fyrir koma. Þannig mundi það verða skilið, þannig er ætlazt til að það verði skýrt af þeim, sem frv. hafa samið.

Þá er eitt í frv., sem hæstv. dómsmrh. gat heldur ekki um. Þessi ríkislögregla, sem hér á að setja á stofn, á að standa sérstaklega undir dómsmrh., en ekki undir venjulegri lögreglustjórn. Hinn pólitíski dómsmrh. á að geta sagt fyrir um, hvenær á að nota þessa lögreglu. Hann á að geta beitt henni þegar honum þóknast, þegar hann álítur þörf á að halda uppi „reglu og öryggi“ í landinu.

Nú vil ég aðeins benda hæstv. dómsmrh. á það, hverjar afleiðingar það hefði getað haft, ef slík ríkislögregla, sem frv. gerir ráð fyrir, hefði verið komin á fót árið 1931 þegar þingrofið var. Ef þá hefði verið til ríkislögregla, vel búin að vopnum og verjum, og sem auka mátti ótakmarkað, undir stjórn þáv. dómsmrh., hv. 5. landsk., hefði hann getað sagt eitthvað á þessa leið: sjálfstæðismenn og socialistar fara um göturnar með söng og látum, þeir fara heim til forsrh., valda hávaða og óspektum; nú er fullkomin ástæða til að nota ríkislögregluna. Þannig hefði hann getað úrskurðað, og síðan gert hvað sem honum sýndist undir því yfirskini, að verið væri að halda uppi „reglu og öryggi“ í landinu. Hann hefði getað látið taka hæstv. núv. dómsmrh. (MG) og hv. 1. landsk. (JónÞ) fasta fyrir að valda óreglu á götunum og efna til ófriðar. (MT: En hv. 2. landsk.?). Hann auðvitað sömuleiðis. Hv. 5. landsk. hefði getað beitt ríkislögreglunni bæði gegn sjálfstæðismönnum og jafnaðarmönnum. (MG: Ætli hann hefði nú gert það). Það er ekkert líklegra en hann, sem pólitískur ráðh., hefði notað sér valdið yfir þessu herliði, sem hann hefði getað notað eftir eigin geðþótta. Hann hefði getað látið taka fasta þá andstæðinga, sem honum sýndist. Ég veit ekki betur en allar pólitískar fangelsanir, sem fram fara í heiminum, séu gerðar undir því yfirskini, að verið sé að halda uppi „reglu og öryggi“. Þess vegna gat dómsmrh. 1931, ef hann hefði verið búinn að fá í hendur þetta ótakmarkaða vald til þess að safna saman og vopna her manns, notað það til að taka fasta alla þá pólitíska andstæðinga sína, sem honum stóð mestur stuggur af. Hann gat fundið fyrir því einhverja ástæðu, eða þá gert það að ástæðulausu, t. d. sagt, að þeir ynnu á móti því, að regla héldist í bænum.

Þetta mikla vald vill núverandi hæstv. dómsmrh. fá í sínar hendur. Hann vill fá vald til að hafa 10 fasta menn í ríkislögreglu, og aðstoðarmenn svo marga, sem hann telur þörf á, og þeir menn, sem síðar komast í hans sæti. Mér hefir verið sagt, að hv. þm. G.-K., sem um skeið var dómsmrh., hafi viljað eftir 9. nóv., þegar ríkislögreglan var stofnuð, fá miklu stærri sveit manna heldur en tekin var. Vildi hann hafa eitthvað þúsund manns í liðinu. Nú er það kunnugt, að þennan hv. þm. langar mjög til að setjast aftur í sæti dómsmrh., hvenær sem tækifæri gefst. Hvenær sem hæstv. núverandi dómsmrh. kemur að næsta hneyksli sínu, svo honum ekki verður vært í stj., mun hv. þm. G.-K. fús að taka við stólnum. Mundi hann þá eflaust líta svo á, að hann hefði heimild til að koma upp þúsund manna vopnuðu herliði hér í Rvík. Með frv. þessu er þannig hinum pólitíska dómsmrh. veitt ótakmarkað vald yfir lífi manna og limum. Vald til að gera hvern þremilinn sem honum sýnist, ef hann bara kallar það að halda uppi „reglu og öryggi“. Svo á ríkissjóður að bera allan „óhjákvæmilegan“ kostnað. Dómsmrh. má taka svo marga menn sem hann vill á laun í þessu skyni, eyða svo miklu sem honum sýnist. Þetta er aðalinntakið í frv. fyrst og síðast.

Hæstv. dómsmrh. segir, að þetta frv. sé borið fram vegna þeirra atburða, sem gerðust 9. nóv. síðastl. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. og suma flokksbræður hans hafi gripið svo mikill skelkur út af þeim atburðum, að þeim hafi fundizt óhjákvæmilegt að koma á fót varalögreglu. En ég hélt, að þegar frá liði mundi hræðslan renna svo af þeim, að þeir hættu við þessa vitleysu sína. En það lítur ekki út fyrir, að svo ætli að verða, þar sem þeir fara nú fram á, að varalögreglan verði lögfest. Verður því að víkja dálítið að atburðunum 9. nóv. og frásögn þeirra. Um uppþotið sjálft er ekki hægt að tala án þess að fara nokkuð út í forsögu málsins.

Í byrjun nóv. var ákveðið af meiri hl. bæjarstj. Rvíkur að lækka kaupið við atvinnubótavinnu bæjarins úr kr. 1,36 um klukkutímann niður í eina krónu. Þetta er einhver hin gífurlegasta kauplækkun, sem nokkrir atvinnurekendur hafa farið fram á, að ætla að lækka tímakaupið í einu um einn þriðja hluta. Og um þetta átti ekki einu sinni að semja við verkamenn; bæjarstj. ályktaði aðeins, að þetta skyldu þeir fá og ekki meira. Var nú von, að verkamenn tækju þessu þegjandi, að tekinn væri af þeim meira en þriðja hver króna, sem þeir áður fengu fyrir vinnu sína? Auðvitað hefðu aðrir atvinnnrekendur komið á eftir og heimtað samskonar kauplækkun.

Og kauplækkun þessa átti einmitt að framkvæma á þeim tíma, þegar erfiðleikarnir voru mestir hjá verkamönnum, atvinnuleysið mest. Meiri hl. bæjarstj. mun hafa hugsað sem svo, að verkamenn mættu verða fegnir að fá þó ekki væri nema eina krónu um tímann, ef þeir fengju einhverja atvinnu.

Ég veit, að engum einasta verkamanni hefir dottið í hug að mæla þessari ráðstöfun bót. M. a. s. sjálfstæðismenn utanbæjarstjórnarinnar töluðu um það hvar sem þeir hittust, að þetta væru eiginlega óforsvaranlegar aðfarir.

Út af þessu hélt bæjarstj. fund þann 9. nóv. Þangað komu margir verkamenn og létu nokkuð til sín taka. Létu þeir á sér heyra mikla óánægju út af kauplækkunarályktun meiri hl. bæjarstj. Það má vel vera, að einhverjir hafi þar e. t. v. gengið eitthvað lengra en rétt var gagnvart fundarfriðinum. En meiri hl. bæjarstj. hafði líka gert svo mikið fyrir sér, að afsakanlegt var, þó mönnum rynni nokkuð í skap. Hinsvegar er það að segja um bardagann, sem varð eftir að fundi var slitið, að honum mun hafa valdið ógætni lögreglunnar eða stjórnenda hennar, þegar hún réðst í að ryðja húsið, réðst á hóp, þar sem saman voru komin mörg hundruð manna. Ég hugsa, að slíkt tíðkist ekki í nokkru landi, að lögregla ráðist á mannfjölda til þess að dreifa honum. Slíkt er ekki gert nema með herliði eða vopnaðri lögreglu. En það var þessi árás lögreglunnar, sem kom barsmíðunum af stað. Hefði lögreglan ekki gert annað en verja húsið og bæjarfulltrúana, mundi ekkert hafa orðið af neinum barsmiðum í sambandi við fundinn.

Hafi hæstv. dómsmrh. ekki kynnt sér forsögu þessa máls, ætti hann þó að sjá það nú, að ríkinu getur aldrei stafað hætta af róstum eins og þessum. Barsmiðarnar 9. nóv. urðu aðeins af tilviljun, af því að lögreglunni var ógætilega beitt. Það var ekki nein tilraun til að koma af stað byltingu í landinu, sem þar kom fram. Og þegar hæstv. ráðh. og stj. hefir nú fengið ráðrúm til að hugsa allmikið um þessa hluti, og að sjálfsögðu fengið upplýsingar um, hvernig á barsmíðunum stóð, ætti hann að geta fallið frá þeirri vitleysu að koma á fastri ríkislögreglu, og dreift þeim mannsöfnuði, sem ráðinn hefir verið í því skyni.

Ég ætla enn að vitna til yfirmanns hæstv. dómsmrh., hv. þm. V.-Ísf., sem nú er forsrh. Í umr. um varalögregluna 1925 segir hann m. a.:

„Það er illt verk og óþarft að espa sjálfan sig og aðra upp í byltingarótta, þegar ekki einu sinni þeir, sem mesta samúð hafa með þjóðfélagsbyltingu í öðrum löndum, telja neinar líkur til, að hér geti orðið bylting, nema hún sé á undan gengin í Englandi og á Norðurlöndum. En þess verður langt að bíða, að þar sporreisist þjóðfélögin“.

Eftir þessum orðum að dæma hefir það verið gert þvert á móti vilja hæstv. forsrh. að bera fram þetta frv., eins og þegar hv. þm. G.-K. setti Helga Tómasson inn á Klepp móti vilja hans.

Það hefir verið um þetta frv. eins og varalögreglufrv. 1925, að mótmæli gegn því hafa drifið að alstaðar af landinu. Það má segja, að verkamanna- og sjómannastéttin hafi mótmælt því einum rómi. Hún mótmælir því gerræði ríkisstj. að koma á fót herliði, sem ekki verður séð, að eigi að nota til annars en að knýja verkalýðinn til hlýðni þegar kaupdeilur eru.

Ég vil leyfa mér að lesa hér upp nokkuð af þeim mótmæluan, sem borizt hafa gegn frv.:

„11. þing Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega undirbúningi ríkisvaldsins til vopnabúnaðar í þeim tilgangi að stofna lögreglulið til þátttöku í vinnudeilum gegn verkalýðnum.

Jafnframt lýsir þingið því yfir, að verklýðssamtökin muni hiklaust beita sér fyrir hvers konar varnarráðstöfunum fyrir verkalýðinn, sem nauðsynlegar kunna að þykja til að afstýra ofbeldisverkunum í nafni réttvísinnar gegn honum, jafnvel þó samtökin verði að búa verkalýðinn samskonar vopnum og ríkisvaldið kann að láta beita í vinnudeilum“.

„Sjómannafélag Reykjavíkur skorar á yfirstandandi Alþingi að vinna á móti því, að samþykkt verði lög um ríkislögreglu eða varalögreglu, ef fram kemur frumvarp um það efni. Sömuleiðis mótmælir félagið þeirri heimildarlausu ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að stofna svonefnda varalögreglu í nóvember s. l. og telur, að það fé, er til hennar hefir verið varið, sé í heimildarleysi tekið úr ríkissjóði, enda neiti þingið samþykktar á þeim fjárhæðum sem stjórnin hefir greitt úr ríkissjóði í þessu skyni, og krefji þá greiðslu, er til varalögreglunnar hafa stofnað. Félagið álítur, að stofnun slíkrar lögreglu sé aðeins til þess eins að auka ófriðinn milli hinna andstæðu stétta þjóðfélagsins“.

„Sjómannafélag Hafnarfjarðar mótmælir harðlega stofnun hinnar svonefndu varalögreglu og hverri þeirri ráðstöfun, sem borgaraflokkarnir gera til að auka lögregluliðið að óþörfu, og krefst þess, að foringjar hinna tveggja borgaralegu flokka (Framsóknar og Íhalds) greiði allan kostnað þar af leiðandi úr sínum vasa, því að greiða kostnaðinn úr ríkissjóði telur félagið gert í fullu heimildarleysi.

Krefst félagið þess, að fjármálaráðherra greiði engan kostnað, sem leiða kann af þessu hernaðarbramli borgaraflokkanna, og mun stimpla þann ráðherra, er slíkt gerir, sem algerðan óráðvendismann á annara fé“.

Þannig samþykkt á fundi 4. jan. s. l. „V.K.F. Framtíðin í Hafnarfirði samþykkti 12. desember 1932 svohljóðandi tillögu: Um varalögreglu þá, sem sett hefir verið á stofn í Reykjavík og sé stefnt gegn verklýðssamtökunum, vill félagið lýsa því yfir, að það telur slíkt athæfi stórvítavert og hættulegt friðnum í landinu og skorar á ríkisstjórnina að hverfa tafarlaust frá því“.

Svohljóðandi tillaga var samþykkt í einu hljóði á fundi Jafnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði 1. des. 1932:

„Fundur haldinn í Jafnaðarmannafélaginu í Hafnarfirði lýsir megnri andúð sinni á varaliði lögreglunnar, sem nú er verið að smala saman í Reykjavík, þar sem vitanlegt er, að liði þessu verður beint gegn verkalýðssamtökunum í landinu. Mótmælir fundurinn harðlega þeim tilraunum, sem kunna að verða gerðar til slíkrar liðsöfnunar í náinni framtíð“.

4 fundi verkamannafélagsins „Dagsbrúnar“, sem haldinn var í alþýðuhúsinu „Iðnó“ föstudaginn 9. des. 1932, var samþ. eftirfarandi tillaga:

„Verkamannafélagið Dagsbrún mótmælir harðlega stofnun ríkislögreglunnar sem beinum undirbúningi þess, að ríkisvaldinu verði beitt gegn alþýðusamtökunum í vinnudeilum, og ákveður, að þeir Dagsbrúnarfélagar, sem taka þátt í þessu liði, skuli sviptir félagsréttindum og felur félagsstjórninni nánari framkvæmdir þess“.

Á fjölmennum fundi Verkakvennafélagsins „Framsóknar“, sem haldinn var 13. jan. 1933, var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum eftirfarandi tillaga :

„Verkakvennafélagið „Framsókn“ mótmælir harðlega stofnun ríkislögreglunnar, þar sem engar ástæður eru fyrir hendi, sem réttlætt geti slíkar ráðstafanir og þar sem óforsvaranlegt er að eyða fé ríkisins í heimildarleysi á þennan hátt, þegar á sama tíma ekki fæst fé til að bæta úr neyð alþýðunnar. Krefst því félagið þess, að ríkislögreglan verði lögð niður“.

Svofelld mótmæli voru samþykkt einum rómi á fundi jafnaðarmannafélagsins „Þórshamars“ í Vestmannaeyjum 30. des. 1932:

„Jafnaðarmannafélagið „Þórshamar“ í Vestmannaeyjum mótmælir harðlega vígbúnaði yfirstéttarinnar með stofnun varalögreglu. Félagið telur það gerræði við verkalýðinn að eyða peningum í varalögreglu á þessum tímum, þegar alþýða manna sveltur og þjóðfélagið þykist ekki geta að gert“.

Vestmannaeyjum, 6. janúar 1933.

f. h. Jafnaðarmannafélagsins

„Þórshamars“.

Þorsteinn Þ. Víglundsson, formaður.

Guðm. Jónsson, ritari.

Á fundi í Verklýðsfélagi Álftfirðinga í dag var samþ. í e. hlj. svo hljóðandi tillaga:

„Verklýðsfélag Álftfirðinga lýsir megnri óánægju sinni yfir þeirri ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að setja á stofn fjölmenna varalögreglu, sem kostar offjár, en hefir ekki annað að gera en að vera til taks, til þess að hjálpa atvinnurekendum að reyna að kúga verkalýðinn í kaupgjaldsdeilum þeim, sem fyrir kunna að koma og virða að vettugi þann sjálfsagða rétt verkalýðsins, sem er, að hann hafi íhlutunarrétt um að verðleggja þá einu eign, sem hann á, sem eru starfskraftar hans. Ennfremur samþykkir félagið að banna meðlimum sínum að taka nokkurn þátt í slíkri starfsemi, sem þarna er hafin, hvar sem hún kemur fram“.

Súðavík 11. des. 1932.

f. h. Verklýðsfél. Álftafjarðar, Súðavík

Ásgr. Albertsson,

ritari.

„Verklýðsfélagið „Bjarmi“ Stokkseyri, mótmælir harðlega stofnun varalögreglu eða ríkislögreglu, og telur það verða eingöngu til þess að auka ófrið í landinu, þar sem vitanlegt er, að verkalýðurinn tekur ekki þegjandi mót óverðskulduðum höggum lögreglunnar“.

Þannig, samþykkt á fundi dags 20. des. 1932.

Helgi Sigurðsson,

formaður.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt á fundi Verklýðsfélags Stykkishólms þann 3. þ. m.

„Verklýðsfélag Stykkishólms mótmælir harðlega hinni heimildarlausu stofnun varalögreglunnar og krefst þess, að ríkisstjórnin hætti þessu hættulega brölti.

Ennfremur bendir félagið ríkisstjórninni á, að hún gerir þetta í óþökk allrar alþýðu í landinu og að henni væri nær að draga ekki lengur sakamálarannsóknirnar á hendur stjórnar Íslandsbanka, sem allir bíða eftir með óþreyju“.

F. h. Verklýðsfél. Stykkishólms

Jóh., Rafnsson,

form.

Á fjölmennum fundi í Verklýðsfélagi Akraness 9. jan. var samþykkt eftirfarandi tillaga:

„Verklýðsfélag Akraness mótmælir harðlega ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar með stofnun ríkislögreglu og telur það beina árás á samtök verkalýðsins, því eftir því sem frekast verður ljóst um tilgang þessarar stofnunar, er henni ætlað að halda verkalýðnum í skefjum þegar hann gerir kröfur um lífsbjörg sér til handa. Laun ríkislögreglunnar telur félagið, að landsstjórnin borgi út í algerðu heimildarleysi, sem sjálfsagt sé að vita, enda ekki sennilegt, að fé hafi verið fyrir hendi í því augnamiði þar sem síðasta alþingi skar mjög við neglur sér fjárveitingar til allra verklegra framkvæmda, og við opinbera vinnu voru verkamenn látnir vinna fyrir óhæfileg hungurlaun, og það afsakað með fjárskorti. Ennfremur hefir ríkisstjórnin tjáð sig vera févana til þess að veita einstökum héruðum lán eða styrk í atvinnubótaskyni, og lántöku í því augnamiði telur fundurinn afsakanlega sem bjargráð fyrir verkalýðinn á vandræðatímum, en óafsakanlegt gerræði lántaka til rekstrar ríkislögreglu“.

Á fundi verklýðsfél. „Súganda“, Suðureyri, sem haldinn var 13. jan. 1933: „Mótmælir harðlega hinni svokölluðu

„varalögreglu“ og lítur svo á, að það fé, sem notað er til styrktar henni, sé tekið úr ríkissjóði í algerðu heimildarleysi. Og krefst þess, að hún sé tafarlaust lögð niður.

Suðureyri, Súgandaf. 14. jan. 1933.

Guðm. J. Markússon,

ritari.

Á fundi höldnum í verklýðsfélaginu „Hvöt“ á Hvammstanga 27. des. 1932 var samþykkt í einu hljóði svohljóðandi tillaga:

„Fjölmennur fundur haldinn í verklýðsfélaginu „Hvöt“ á Hvammstanga 27. des. 1932 mótmælir ákveðið stofnun varalögreglunnar og krefst þess, að hún verði nú þegar afnumin. Einnig átelur fundurinn hina heimildarlausu fjársóun ríkisstjórnarinnar til varalögreglunnar og telur fé ríkisins betur varið til atvinnubóta en til barsmíða á þessum erfiðu tímum.

Hvammstanga, 3. jan. 1933.

f. h. verkalýðsfélagsins „Hvöt“

Björn Kr. Guðmundsson,

formaður.

Sigurður Gíslason,

ritari.

„Fundur í Losunar- og lestunarfélagi Siglufjarðar haldinn 16. des. 1932 krefst þess, að varalögregla sú, sem stjórnarvöld landsins eru búin að koma upp, verði tafarlaust lögð niður, og telur fundurinn það mjög vítavert að eyða fé landsins í algerðu heimildarleysi til að halda uppi varalögreglu.

Sömuleiðis telur fundurinn þetta ráðlag stjórnarvaldanna beina árás á verkalýð landsins og almenn mannréttindi og telur því alla Íslendinga skylda til að krefjast þess, að lögregla þessi verði lögð niður tafarlaust“.

Þetta er ekki nema lítill hluti af þeim mótmælum, sem fram hafa komið. Ég get því sagt það með réttu, að ég mótmæli þessu frv. og þeim tilgangi þess, að koma upp her hér á landi, í nafni allrar verkalýðsstéttarinnar. Ég mótmæli því f. h. samtaka hennar, Alþýðusambandsins, en innan þess eru nálega 10 þús. fullorðinna manna. Það mætti segja, að þó ríkisstj. notaði út í æsar þá heimild, sem í frv. felst, þá yrði liðið þó aldrei nógu fjölmennt til að kúga verkalýð landsins í kaupdeilum. Hér í Rvík mundi sú hersveitin ávallt verða sterkari, sem fylgir verkalýðnum að málum. Þó andstæðingar verkalýðsins hafi e. t. v. fleiri kjósendur hér í Rvík sem stendur, þá mundi það sýna sig þegar til handtakanna kæmi, að verkamenn væru betur undir það búnir. Þó að ríkisstj. kæmi upp eins stórri sveit eins og hægt er að safna saman fyrir peninga, þá yrði hún samt undir, a. m. k. þangað til næsta sporið væri stigið, gripið til vélbyssanna og handsprengjanna. Það má vera, að andstæðingu.m verkalýðsins tækist þá að ná yfirhöndinni í bili, með því að taka slík tæki í sína þjónustu. En herbúnaður hjá öðrum aðilanum leiðir ávallt til þess, að hinn verður að taka upp samskonar tæki. Verkamenn mundu brátt búast sömu vopnum og ríkisherinn. Þetta sýnir reynslan alstaðar annarsstaðar. Við sjáum, hvernig komið er í Þýzkalandi. Daglega berast fregnir þaðan af manndrápum og blóðugum bardögum milli fascista og komamúnista, og fascistarnir hafa einnig knúð jafnaðarmennina til að safna liði til varnar sér. Þannig gætu afleiðingarnar orðið hér af þessu hervaldsbrölti ríkisstj.

Það getur alltaf komið fyrir í einstaka tilfelli, að lögreglan verði undir. Það væri eflaust hægt að benda á mörg dæmi þess, að yfirvöld hafi verið kúguð til eins og annars, án þess að rokið væri í að stofna her. Ég man ekki betur en að Páll Briem sýslumaður væri einu sinni kúgaður til þess af bændum í Rangárvallasýslu að sleppa manni úr varðhaldi, sem hann ætlaði sér ekki að láta lausan. Þó að verkalýðurinn yrði ofan á í róstunum 9. nóv. hefir ekkert verið hafzt að síðan, og sýnir það, að enginn byltingarhugur stóð þar að baki. Að engar óeirðir hafa orðið síðan 9. nóv. sýnir, að þetta var ekki tilraun til byltingar, heldur einungis tilviljun, sem e. t. v. og að mínu áliti var stjórn lögreglunnar að kenna.

Það væri kannske ekki skaðlegt að samþ. frv., þar sem ákveðið væri að skipaðir yrðu allt að 10 fastir starfsmenn sem ríkislögregla, ef engin aukaheimild væri á bak við og ef fellt yrði niður það ákvæði, sem miðar til þess að koma á stórfelldum liðsafnaði. Það væri kannske ekki úr vegi, að stj. legði þetta til í lögreglu bæjarins. En ég mundi samt ekki vilja rétta út litla fingurinn til að koma þessu á, því það teldi ég vera að skemmta skrattanum, og jafnvel ekki þó að sjálfur friðarhöfðinginn bæri fram till. um það. Ég ætla því að greiða atkv. móti þessu frv. nú þegar.

Ég hefði talið réttara, án þess ég láti mig það miklu skipta, að málið færi til allshn., ef það á annað borð kemst svo langt, og geri ég það því að till. minni. Hæstv. dómsmrh. vill vísa því til fjhn., af því að hann veit, að þetta felur í sér svo mikla fjáreyðslu. Hann veit, að það nemur hundruðum þúsunda kr., sem þetta hefir í för með sér. (MG: Það voru millj. kr. rétt áðan). Til að byrja með eru það hundruð þús. kr., en þegar fram líða stundir, og það fyrr en varir, mun það nema millj. kr., ef samþ. verður. Það hefir hvergi verið komið upp her án þess að þjóðirnar hafi orðið innan skamms að leggja til millj. kr. í kostnað. Að öðru leyti tel ég réttast, samkv. framansögðu, að málinu verði vísað til allshn, ef það á annað borð kemst til nefndar. Þar minnir mig að ríkislögreglufrv. hafi verið 1925.