07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mér kom það ekki á óvart, þótt hv. 2. landsk. lýsti því yfir, að hann mundi ekki greiða atkv. með þessu frv. Það hefir svo oft heyrzt úr þessum herbúðum, að manni getur ekki komið það á óvart, að hann sé ekki fylgjandi þessu máli. En ég hafði ekki búizt við því, að hann rangfærði eins ákvæði frv. og sneri út úr þeim. Ég áleit, að hann teldi sig upp úr því vaxinn að fara svo að sem hann gerði. Ég sé ekki ástæðu til að elta allt, sem hann hefir nú sagt í sinni klukkutímaræðu. En ég vil út af byrjuninni segja það, að mér dettur ekki í hug að fara út í forsögu þessa máls að neinu leyti.

Ég fann það á öllu, að hv. 2. landsk. er dálítið vonsvikinn yfir því, að ekki skuli vera hærra risið á þessu frv. Hann talar með fyrirlitningu um þessa 10 menn og finnst það vera of lítið. En það, sem hann hengir hatt sinn aðallega á, eru þessir aðstoðarmenn eftir því, sem óhjákvæmilegt þykir. Hann segir, að það verði hægt að hafa þá svo marga, að skipti tugum þúsunda. Ég verð að segja eins og er, að það er ómögulegt fyrir nokkra stj. að segja nákvæmlega fyrir um, hve marga menn þarf til að halda uppi lögum og reglum í landinu. En ég get sagt honum annað, og það er það, að það er hann og hans flokkur, sem ræður mestu um það, hvað þessir menn þurfa að vera margir. (JBald: Þá skulu þeir vera engir). Það er ég fyllilega ásáttur með, ef ekki er þörf á þeim. (JBald: Það er engin þörf á þeim). Það verður þá að vera staðreynd. Ég tek ekki gild orð hv. þm. ein út af fyrir sig. Ég endurtek það, að það er á valdi þeirra manna, sem eru á móti þessu máli, hvað mikið hlýtur að felast í þessu ákvæði. En eftir því sem hv. þm. talaði í enda ræðu sinnar, þá finnst mér, að það geti orðið nokkuð mikið, því hann var að hóta því, að það skyldi verða sett upp liðsveit, jafnsterk eða sterkari en ríkislögreglan.

Hv. þm. var eitthvað að tala um tilgang ríkislögreglunnar og að dómsmrh. mundi hafa þar eitthvert óskaplegt vald. Það stendur í 3. gr. frv., að tilgangur ríkislögreglunnar sé að aðstoða lögreglulið bæjarins við að halda uppi lögum og friði. Þetta er nú ætlunarverkið. — Þá sagði hv. þm., að það þyrfti nýjar kosningar þegar ætti að koma upp her. Ég fann það á hv. þm., að honum fannst djúpt tekið í árina, þegar 10 menn ættu að kallast her, því vissa er ekki fyrir því, að það verði fleiri en 10 menn og í frv. stendur: allt að 10 menn. En ég geri nú ráð fyrir því, að það verði 10, en svo fer hitt allt eftir því, hvernig ástandið verður í bænum.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að stj. hefði enga heimild til að greiða kostnað varalögreglunnar. Stj. hefir gert það eitt, sem aðrar stjórnir gera alltaf, að greiða ýmislegt upp á væntanlegt samþykki þingsins. Hv. 2. landsk. ætlar ekki að samþ. þetta, en hann ræður nú ekki einn, þótt hann sé nokkuð hreiður. Það er undarleg þessi andstaða móti ríkislögreglunni hér á landi hjá jafnaðarmönnum.

Ég veit ekki til þess, að nokkurstaðar þar, sem jafnaðarmenn eru við völd, detti þeim í hug að afnema ríkislögreglu. Þeir hafa m. a. s. um sig stóran her. Þegar danski forsrh. Stauning ætlaði að minnka danska herinn, þá ætlaði hann að hafa 7 þús. manna lögreglusveit fasta fyrir utan alla bæjarlögregluna. Ekki var hann svona hræddur. Og hvernig var það með MacDonald? Hefir hann afnumið herinn? (JBald: Hann er nú genginn í samsteypustjórnina). Hann var nú kosinn á þing af jafnaðarmönnum enn samt. Eins var það með Branting. Hann hafði stóran her og mikla lögreglu meðan hann var forsrh. í Svíþjóð. Og af hverju? Af því hann taldi það vera nauðsyn. Allar þjóðir telja það vera nauðsyn. (JBald: Ég skal leiðrétta sögu hæstv. ráðh. á eftir). Svo spyr hann um tilgang með lögreglunni.

Honum finnst sem einhver slunginn lögfræðingur hafi búið til þetta orðatiltæki, löglegar kaupdeilur, og svo muni þessi sami segja, að allar kaupdeilur séu ólöglegar, og þó að frv. segi, að lögreglumenn eigi ekki að nota í kaupdeilum, þá eigi nú samt að gera það. Svona fer hann að því að eyðileggja það, sem stendur í frv., býr til hugsun, sem á að vera bak við meinlaust orðatiltæki og segir, að þetta muni verða notað til þess að strika út það, sem stendur í frv. Ef þetta eru ekki hinar herfilegustu blekkingar, þá veit ég ekki, hvað blekkingar eru.

Auðvitað geta kaupdeilur verið bæði löglegar og ólöglegar. Og þess vegna er alveg sjálfsagt að skilja á milli löglegra og ólöglegra kaupdeilna.

Þá eru óeirðirnar 1931. Hv. þm. sagði, að það hefði verið ákaflega vel hægt að fangelsa bæði mig og hann og fleiri, ef dómsmrh. hefði haft her þá. Ég held, að það hefði verið hægt eftir því fyrirkomulagi, sem þá var, ef lögreglan hefði bara viljað gera það. Það þurfti ekki ríkislögreglu til þess, bara að við hefðum átt það skilið og lögreglan viljað gera það.

Hv. þm. gerði lítið úr því, sem gerðist 9. nóv. En þeir munu vera margir hér í bæ, sem muna, hvað gerðist þá, og það er ekki til neins fyrir hv. þm. að reyna að slá striki yfir það, því það er enn í fersku minni. Hann kennir lögreglunni um það allt. En hann veit, að hann gerir lögreglunni rangt til. Það munu ekki vera margir, sem vilja taka undir það, að lögreglan hafi farið ósæmilega að.

Ég vil spyrja hv. 2. landsk., hvers vegna honum sé svona illa við lögregluna. Mig vantar skýringu á því, því ég tek hann ekki hátíðlega, þegar hann segir, að lögregluna eigi að nota í vinnudeilum, en mig vantar ástæðuna fyrir því, að hann er á móti lögreglunni frekar en aðrir jafnaðarmenn um allan heim.

Ég þykist vita það, að hv. 2. landsk., sem er rólegur maður, ætli ekki að gera neina uppreisn. En því er hann þá á móti lögreglunni? Ég vænti þess að fá fullnægjandi svar hjá honum. Af sparnaðarástæðum getur það ekki verið, því hann er ekki sparsamur á ríkisfé. Það er laust við það. — Hann las upp ósköpin öll af andmælum og skal ég ekkert fara út í það. Það geta allir flokkar safnað undirskriftum, en það er nú einu sinni „speciale“ Alþýðuflokksins að gera þetta, en hinir flokkarnir gera yfirleitt lítið að slíku, en það sannar ekki annað en vilja fáeinna manna hér í Rvík, sem standa fyrir slíku.

Hv. 2. landsk. sagði, að það mundi hættulegt fyrir friðinn að hafa lögreglu. Samtímis sagði hann, að síðan 9. nóv. hefði ekki borið á neinum óeirðum. Hvar er þá hættan af lögreglunni?

Ég veit, að það er ekki til neins að fara út í hin síðustu ummæli hv. þm. Það voru ekki annað en hótanir um það, að það skyldi verða tekið upp lið jafnsterkt lögreglunni, og m. a. s. að það væri ekki hægt að hafa svo sterka lögreglu, að ekki væri hægt að brjóta hana á bak aftur. Ef það eru einhverjir í landinu, sem vilja koma á uppreisn, þá ráða þeir því náttúrlega. En ég hélt ekki, að hv. 2. landsk. ætlaði að gerast uppreisnarforingi, og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því. — Ég ætla ekki í bili að segja fleira um þetta frv. eða ræðu hv. 2. landskjörins.

Ég lagði til, að málinu yrði vísað til fjhn., af því að mál svipaðs eðlis hafa jafnan verið látin í fjhn., og þá till. held ég fast við. En ef hv. 2. landsk. ber upp þá till., að málinu verði vísað til allshn., þá verður sú till. náttúrlega borin undir atkv. líka.