07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal vera mjög stuttorður, því að ég þarf ekki mörgu að svara.

Hv. 5. landsk. lýsti sinni afstöðu til frv., og við það hefi ég auðvitað ekkert að athuga, en ég veit ekki, hvort hann læzt tala aðeins fyrir sig eða í umboði alls Framsóknarflokksins, en frv. er stjfrv., og ekki frá mér einum. (JBald: Það er nú nokkuð seint sagt). Það stendur á þskj., að það sé stjfrv., svo að ég hélt, að hv. þm. vissi það.

Ég skal ekki fara að þessu sinni langt út í það, hvort hægt væri að finna eitthvert heppilegra fyrirkomulag, en ég er viðbúinn að ræða um það við þá, sem eru þessari hugsun velviljaðir, en mig grunar, að hv. þm. sé nú að hverfa frá því, sem hann hefir áður látið uppi í sínu blaði, og að það sé nokkurskonar undirbúningur undir skoðanasnúning, sem hann er að gera hér í þessu máli.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. 2. landsk. Hann fór mörgum orðum um 3. gr., hvernig ætti að skilja hana. Vil ég nú lesa hana upp fyrir alla áheyrendur, með leyfi hæstv. fors. Hún hljóðar svo:

„Tilgangur ríkislögreglunnar er að aðstoða lögreglulið bæjarins við að halda uppi lögum og friði eftir nánari reglum, sem ráðh. getur sett. Ríkislögregluna má ekki nota til kúgunar vinnukaupenda eða vinnuseljenda í löglegum kaupdeilum, heldur aðeins til að halda uppi lögum og friði og vernda eignir fyrir óréttmætum árásum“.

Út úr þessari gr. frv. fær hv. þm. svo það, að lögregluna eigi beinlínis að stofna til þess að berja á verkalýðnum, en eins og hver maður getur séð, þá er það til að snúa því algerlega við, sem í frv. stendur, og ég er viss um, að enginn af þeim, sem á okkur hlusta nú, lætur sér detta í hug að skilja þetta á sama hátt og hv. þm. gerir.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði engu svarað til þess, hvaða heimild væri fyrir fjárgreiðslum til varalögreglunnar. Ég svaraði þessu og sagði hv. þm., að það er engin heimild, heldur hefir stj. greitt þetta upp á væntanlegt samþykki Alþingis, og ég sagði hv. þm., að þótt hann væri breiður, þá væri ekki vist, að hann gæti hindrað, að stj. fái samþ. Alþingis á þessu.

Svo talaði hv. þm. um her Staunings og her minn. Honum fannst það nokkuð annað og verra, að ég hefði 10 lögreglumenn hér á Íslandi en að Stauning hefði 7 þús. menn úti í Danmörku fyrir utan alla bæjarlögreglu. Hv. þm. sagði, að aðalatriðið væri, að ég vildi fjölga, en Stauning vildi fækka. En því vill hann þá ekki afnema herinn með öllu og þar með allan herkostnað? Þessi minnkun á herkostnaði í Danmörku stafar af því, að Stauning vill ekki hafa meiri her en þarf til að halda uppi vörnum og friði innanlands. Allur sá her, sem hann ætlar að halda úti fyrir þessar 20 millj., er eingöngu til að halda uppi friði innanlands. Og svo kemur hv. þm. og segir, að það sé nokkuð annað, sem ég ætli að gera, þar sem ég vilji hafa 10 manna her. (JBald: Eiga þeir þá ekki að vera fleiri en 10?). Jú, aðstoðarmenn eftir því sem óhjákvæmilegt þykir, en það eru andstæðingar þessa máls, sem ráða því, hvað þetta „óhjákvæmilegt“ þýðir.

Hv. þm. virðist halda, að það sé aðalstarf dómsmrh. að taka menn fasta. Ég veit ekki til, að það sé aðalstarf dómsmrh. að skipa fyrir um það. Lögreglan ákveður það með ábyrgð fyrir dómstólunum á eftir.

Svo vil ég þakka hv. þm. það, að hann gaf mér vottorð um, að ég væri allra bezti maður, ég veit ekki, hvort ég get gefið honum samskonar vottorð. Ég held nú reyndar, að hann sé ekki slæmur, en ég er bara hræddur um, að honum sé ekki síður en mér hætt við að láta misbrúka sig.