05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. meiri hl. ( Ingvar Pálmason ):

F. h. meiri hl. fjhn. þarf ég ekki mikið að segja fram yfir það, sem stendur á þskj. 502. Tel ég þar nógsamlega bent á þá annmarka, sem eru á frv. því, sem hér liggur fyrir, og þeim tillögum lýst, sem eiga að færa þetta til betra vegar. Þar er viðurkennt, að full ástæða sé til þess að gera einhverjar ráðstafanir svo að löggæzlan verði meiri og öruggari í landinu heldur en nú er. Hinsvegar er það ljóst, að þegar breyttir tímar krefjast meiri löggæzlu, þá verður þó að fara að því með allri gætni og varast áhrif frá pólitískum deilum.

Ég geri ráð fyrir því, að þingmenn utan af landi sjái öllu ljósara þörfina á þessu heldur en þingmenn úr bæjunum, sem rekizt hafa á þá annmarka, sem kunna að fylgja auknu lögreglueftirliti. Úti um land virðist, að stærsti gallinn sé sá, að þau lög, sem Alþingi setur, eru oft slælega framkvæmd. Hitt má vera, að aðrir gallar komi fram í þéttbýlinu, það skal viðurkennt. Til þess að ráða bót á þessu, þá tel ég, að fyrst og fremst beri að gera kröfur til þess að sveitar- og bæjarfélögin geri skyldu sína í þessu efni. Er því sjálfsagt að veita ríkisstj. heimild til þess að ákveða fyrir bæina nægilega lögreglu. En ég tel, að valdið yfir þessu liði sé ekki bezt komið í höndum viðkomandi ráðh., heldur í höndum þeirra sveitar- eða bæjarfélaga, sem hlut eiga að máli.

Um einstakar tillögur meiri hl. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Með þessum breyt. á frv. er ætlazt til, að fengin sé trygging fyrir því, að viðkomandi sveitar- og bæjarfélög uppfylli sjálfsagðar skyldur sínar. Ég tel þetta stórt atriði, því að ef þau ekki gæta skyldu sinnar í þessum efnum, þá getur svo farið, að löggjöfin verði öll framkvæmd með ríkisvaldi. Það mundi ég telja vafasama leið og e. t. v. hættulega, þar sem framkvæmdavaldið líktist hervaldi. En hingað til hefir okkur Íslendingum ekki verið ljúft að ganga inn á hernaðarbrautina.

Ég vil vænta þess, að þeir hv. dm., sem um þetta mál ræða í dag, geri það á þeim grundvelli að reyna að leita að hinni beztu lausn málsins. Og þótt till. okkar meiri hl. nm. séu sjálfsagt ekki alfullkomnar, þá eru þær samdar með það fyrir augum, að finna hina heppilegustu leið. Okkur meirihlutamönnum hefir verið það ekki lítill styrkur, að við höfum fengið töluverðar bendingar um þetta að baki okkar, utan af landi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja þær ástæður eða taka fram sérstök atvik, sem liggja til þess, að þetta frv. er fram komið. Ágreiningur er ekki um það, að styrkja beri lögregluna í landinu.

Get ég svo látið hér staðar numið að sinni, en hið hv. dm., sem til máls taka, að láta í ljós skoðanir sínar um till. okkar. Mun ég svo bíða með frekari umr. um þetta, þar til mér kynni að gefast tilefni til.