05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Ég hélt, að það mundi heyrast hljóð úr horni frá hæstv. ríkisstj. um þetta (Dómsmrh.: Það kemur á eftir) fósturbarn hennar, og ég ætlaði að heyra, hvað hún hefði að segja. En það lítur út fyrir, að hún verði með seinni skipunum í umr., og ég get ekki knúið hana til þess að fara að tala um málið strax, eða fyrr en henni sýnist.

Við 1. umr. málsins gerði ég nokkuð ýtarlega grein fyrir afstöðu minni til frv. ríkisstj. um lögreglu ríkisins. En það má gjarnan rifja upp það helzta, því að þetta mál liggur nú hér fyrir til atkvgr., og má þá nokkuð líta á, hvað það er, sem stj. býður þm. upp á að samþ.

Þetta frv. er sennilega eitt af stærstu útgjaldafrv., sem liggja fyrir þessu þingi., og stj. hefir hingað til barizt ákaflega hart fyrir því. Og það lítur út fyrir, að báðir aðalflokkarnir í þinginu séu sammála um að leggja mjög mikið fé í það, að auka nú lögregluliðið í landinu.

Um hitt hafa þeir verið fáorðari hingað til, hvað gera ætti til þess að hjálpa þeim þúsundum manna, sem nú eru á vonarvöl vegna harðæris og atvinnuleysis. Mikill fjöldi af verkafólki hefir haft svo litlar tekjur undanfarin 2 ár, að ef gerðar væru nákvæmar skýrslur yfir það, mundi þingmönnum blöskra að sjá, hve lítið er ætlað til framfæris verkalýðnum í landinu.

Nei, það er þetta mál, sem stj. er meira í hendi að koma áfram, og nú heyri ég sagt, að ríkisstj. hafi fram að þessum degi eytt á þriðja hundrað þús. kr. í ólöglega ríkislögreglu, án heimildar fyrir fé úr ríkissjóði til þessa. Það er hvergi stafur fyrir slíkri heimild í sérstökum l., heldur ekki í fjárl., að stj. megi verja fé til ríkislögreglu. Ráðherrarnir bera beinlínis persónulega ábyrgð á þessum útgjöldum, og þingið gæti í raun og veru krafið þá um þetta fé, vegna þess að heimildin var ekki til fyrir greiðslu þess úr ríkissjóði. Það er ekki lítið fé, á þriðja hundrað þús. kr., sem farið hefir til ríkislögreglunnar. Það er atvinna handa nokkuð mörgum mönnum, sem slík upphæð getur veitt. Og fyrir það hefði sennilega mátt gera allan undirbúning að vegarlagningu vegna virkjunar Sogsins, og kannske meira til. En hverjar eftirtekjur verða af því, að stj. hefir kostað þessa ríkislögreglu. Þær eru nú ekki miklar. Ja, það er kannske ekki neinn afrakstur, en það sjást þó merkin. Með stofnun ríkislögreglu hefir ríkisstj. tekizt að skapa í landinu öfgaflokka, sem gjarnan óska eftir því, að komið sé hér upp her, og sem stuðla að því með ýmsum meðulum nú. Ég á við kommúnista og nazista. (Dómsrh.: Voru kommúnistar ekki komnir á undan ríkislögreglunni?). Þessir flokkar gera sýnilega sitt til þess að hræða þingmenn til þess að fara nú að samþ. l. um ríkislögreglu. Það sýnir framferði þessara beggja flokka. En enn sem komið er hefir lögreglunni í Rvík sæmilega tekizt að halda uppi friði og reglu, þegar valdhafarnir hafa ekki gert neitt sérstakt til þess að knýja fram óánægju hjá fólkinu, eins og gert var 9. nóv. í haust af meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. Þó nú að lögreglan í einstöku tilfelli verði undir eða komi ekki sínu fram, þá hefir slíkt áður skeð í þessu landi og í öllum öðrum löndum án þess að rokið hafi verið í að auka lögregluliðið eins og hér er farið fram á. Slíka aukningu heimta ekki aðrir en þeir, sem beinlínis vilja stríð. Af stofnun pólitískrar ríkislögreglu leiðir hreint og beint, að þeir flokkar, sem sú lögregla á að beinast gegn, koma sér upp liði til varnar eða jafnvel til árása. Það eitt hefir ríkisstj. upp úr stofnun ríkislögreglu. Slíkar ráðstafanir næra þá flokka, sem beita vilja ofbeldi. Af stofnun ríkislögreglu fitna þeir, eins og púkinn í fjósinu af blótsyrðum fjósamanns, en á sama hátt myndu þeir horast niður og verða að engu, ef engin ríkislögregla væri til.

Ég lýsti því nokkuð við 1. umr. hvernig sú ríkislögregla varð til, sem nú er búið að koma upp. Hún varð til í þeim ótta og þeirri skelfingu, sem greip ríkisstj. 9. nóv. síðastl., e. t. v. ekki svo mjög vegna þeirra atburða, sem gerðust í sambandi við bæjarstjórnarfundinn í templarahúsinu, heldur munu aðrir atburðir, sem gerðust þann dag, hafa ýtt undir líka. Þeir vildu nota tækifærið með þá hugsun að baki, að e. t. v. gæti svo farið, að þeir þyrftu á slíku liði að halda til þess að ná völdunum af andstæðingum sínum, þó að þeir væru í minni hl. hjá kjósendum. Það er ekkert efamál, að ef stofnuð væri ríkislögregla eins og gert er ráð fyrir í stjfrv., undir yfirstjórn pólitískra ráðh., þá mætti nota hana, og það er mjög líklegt að hún yrði notuð til framdráttar þeim flokki, sem hefði yfirstjórn hennar. Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að ef til hefði verið ríkislögregla 1931, er ekkert líklegra en að Framsóknarflokkurinn hefði notað hana til þess að taka fasta alla andstæðinga sína í þingrofsmálinu. Ég tel mjög sennilegt, að þáverandi dómsmrh. hefði haft fullkominn hug á að taka andstæðinga sína fasta, ef hann hefði haft til þess ríkislögreglu og hún viljað fylgja honum. Það hefði ekki verið annað en það, sem raunverulega hefir gerzt í ýmsum öðrum löndum, sem ríkisher hafa. Þeir, sem ráða yfir ríkisherunum, eru víða að taka völdin í sínar hendur og eyðileggja þingræði og þjóðræði. Þeir hnekkja lýðræðisflokkunum og setja upp einræði í skjóli hins pólitíska herliðs, sem þeir hafa náð valdi yfir. Þegar búið er að stofna þá pólitísku ríkislögreglu, sem ríkisstj. fer hér fram á að fá, er eins opin leið fyrir slíkar tiltektir hér eins og í Þýzkalandi og öðrum löndum, þar sem ríkisherinn hefir tekið valdið í sínar hendur.

Ég mun, eins og ég hefi áður sagt, greiða atkv. á móti þessu frv. ríkisstj. Um till. hv. meiri hl. fjhn. get ég sagt það, að mér finnst þær í raun og veru gera ákaflega lítið. Því mér skilst, að bæirnir hafi þá heimild, sem í till. felst. Eftir gildandi lögum og lögreglusamþykktum hafa bæirnir heimild til að fjölga lögregluþjónum eftir því sem þeir telja þörf á. Það er einfalt peningaspursmál, hvað langt þeir sjá sér fært að ganga í því efni. Það er aðallega eitt atriði í till. hv. meiri hl., sem er breyt. frá því, sem nú er, og það er ákvæðið um framlög ríkisins til lögreglu bæjanna, til þess að ríkisstj. geti haft þar að einhverju leyti hönd í bagga með. Annars finnst mér þessar till. alveg óþarfar. Bæirnir geta án þeirra gert allt, sem þeim sýnist, í því að auka lögreglu sína. E. t. v. takmarka þær fremur vald bæjanna í þessu efni.

Ég ætla ekki að svo stöddu að hafa orð mín fleiri um þetta mál. Ég hefi áður gert mjög ýtarlega grein fyrir skoðun Alþýðuflokksins á frv., og með atkv. mínu mun ég sýna, hvernig ég tek í brtt. hv. meiri hl. fjhn.