05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki að svara hv. frsm. meiri hl. neinu. Ég geri mér beztu vonir um, að hægt sé að ná samkomulagi um þetta mál, því mér virðist ekki mikið bera á milli og ég tel það eiginlega gefið, eftir ummælum hv. frsm. meiri hl. En það var viðvíkjandi því, hvort lögreglan ætti heldur að vera ríkislögregla eða bæjarlögregla, og hv. frsm. segir, að ekki sé meining í því, að ríkið setji upp lögreglu í bæina, því þá geti verið, að þeir geri ekki sína skyldu í þeim efnum, ef þeir eiga víst að geta fengið ríkislögreglu. Það er mikið rétt í þessu. En ég hélt, að það þyrfti ekki að gera ráð fyrir því, að nein stj. geti verið svo heimsk, að hún færi að setja upp ríkislögreglu áður en hún teldi, að bærinn væri búinn að inna af hendi sína skyldu.

Í hvert skipti, sem bær eða kaupstaður kæmi til stj. og vildi fá aukna lögreglu, þá mundi stj. rannsaka, hvort næg lögr. væri fyrir og hvort bærinn mundi inna af hendi þá skyldu, sem á bænum hvílir. Ég segi þetta ekki út í bláinn, því það var hugsað um þetta atriði áður en þetta frv. var búið til, og ég veit, að hv. 1. landsk. man vel eftir, að það var einmitt rætt um þetta atriði við hann, um skyldu bæjanna til að halda uppi lögreglu. En það er viðurkennt af hv. meiri hl., að það er ekki hægt að leggja þetta allt á bæina eina.

Þá vil ég aðeins segja örfá orð við hv. 2. landsk. Ég vil fræða. hann um það, að tollverðir landsins eru náttúrlega ekki annað en löggæzlumenn, lögregla fyrir ríkið. Ég gleymdi að telja þá upp áðan, en það var gott, að hv. þm. minnti mig á það. Alveg eins er með áhafnirnar á varðskipunum. Þær eru lögreglulið á sjónum og ekkert annað. Og náttúrlega liggur það út af fyrir sig nær, ef á þarf að halda, að nota þá lögreglu á sjó. En ég býst við, að það muni sjaldan koma til þess og kannske aldrei.

Hv. þm. dró það út úr þeim orðum mínum, að mér þætti ákaflega undarlegt, að hv. 5. landsk. yrði dómsmrh. í bráð, að ég byggist við því að verða ráðh. áfram. Hv. 2. landsk. álítur þá, að ekki sé um aðra að gera en mig, eða hv. 5. landsk.

Þá er þessi deila út af lögreglunni í Danmörku. Þar er því til að svara, að það er rétt, að herinn þar er varalögregla, og það er gripið til hans, þegar í harðbakka slær. Hv. þm. upplýsti sjálfur, að þessi her væri 40 þús. manns. (JEald: Ekki fastur her). Ég held mér við þessa tölu hjá hv. þm., að hans flokksbróðir vildi hafa 20 þús. manns, en þá ættum við að hafa 666 manns eftir hans reikningi, 30 sinnum færri. Í Danmörku er hægara að halda uppi lögum, af því að þar er þéttbýlið meira en hér. En ofan á þessar 40 þús. sem varalögreglu, og ofan á alla lögreglu bæjanna, vildi Stauning fá 100 manna aukningu á ríkislögreglunni, bara til þess að verja Danmörku gegn Þýzkalandi, þegar fór að bóla á ofurlitlum óeirðum þar.