23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mér þykir vænt um að sjá, að í þessu máli virðist ætla að verða sæmilegt samkomulag, því að þó að nokkuð beri á milli eru þó höfuðatriðin þannig, eftir því sem ég fæ bezt séð, að ekki greinir verulega á um þau. Um kostnaðinn af lögreglunni er dálítill ágreiningur, og er það ekki nema eðlilegt í sjálfu sér, að nokkuð séu skiptar skoðanir um það, hvernig kostnaðurinn eigi að skiptast. Ég skal ekki fyrir mitt leyti kveða upp neinn dóm um það, hvort sé réttara, en ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti, að ég get látið mér í léttu rúmi liggja, hvort fyrirkomulagið verður samþ. Samkv. brtt. hv. 2. þm. S.-M. nær heimild ríkisstj. til að fyrirskipa, að allt að tveir starfandi lögregluþjónar skuli vera á hverja 1000 íbúa. Það er ekki þörf á því að nota þessa heimild, þegar ekkert sérstakt er á ferðinni, nema ef hlutaðeigandi bæjarstj. eða hreppsnefnd óskar þess. Ýmsar af þessum brtt. eru mjög svipaðar, og eins og ég tók fram, læt ég mér í léttu rúmi liggja, hverjar af þeim verða samþ., hvort það verða till. hv. 1. landsk. eða hv. 2. þm. S.-M., nema að því er snertir 5. brtt. á þskj. 612. Ég er alveg sammála hv. 1. landsk. um, að það er mjög heppilegt að fá ákvæði um þetta inn í frv., einmitt af þeim ástæðum, sem hv. 1. landsk. gerði svo vel grein fyrir. Ég verð þess vegna að lýsa því yfir, að ég legg mikið upp úr því, að þessi brtt. verði samþ.; og þó að frv. væri viðunandi án þessarar brtt., þá væri ég miklu ánægðari með frv., ef þetta kæmist inn og legg á það mikla áherzlu. Að því er snertir niðurfellingu 2. mgr. 3. gr., þá get ég ekki gert það að neinu verulegu atriði, vegna þess að það er þegar heimilt að skipa lögreglustjórafulltrúa og ákveða verksvið þeirra. Það er nú svo, að hér í bænum, þar sem slíkt kemur helzt til mála og lögreglan er langfjölmennust, þar er skipaður sérstakur lögreglustjórafulltrúi. Hann og lögreglustjórinn hafa í raun og veru alla yfirstjórn lögreglunnar. Ég hefi vitaskuld ekkert á móti því, að þessi till. verði samþ., en ég tel hana ekki bráðnauðsynlega. Að öðru leyti sýnist mér ekki, að ég þurfi að ræða þessar brtt., en ég endurtek það, að mér þykir vænt um að sjá, hversu tiltölulega lítill munur er á skoðunum mikils meiri hl. hv. dm. að því er þetta mál snertir. Ég þykist vita, að hv. 2. landsk. sé ekki alveg samþykkur frekar en áður, en við það verður sennilega að standa, því að hann er svo langt til hinnar handarinnar í þessu máli, að við hann er sennilega ekki hægt að ná neinu samkomulagi.