23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

66. mál, lögreglumenn

1275Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég get tekið orð hæstv. dómsmrh. trúanleg um það, að þetta ákvæði, sem um er deilt, verði ekki notað þannig af honum, að menn verði teknir nauðugir í þetta starf. En þótt ég hafi loforð hans fyrir þessu, þá er það nú svo, að þessi leið er þó opin fyrir þá, sem eftir hann koma. En ég vil benda á, að það er fyllilega réttmætt af mér að bera þessa borgaralegu skyldu saman við herskyldu, þegar þessi till. er skoðuð í sambandi við 4. brtt. hv. 1. landsk., sem ákveður, að ríkissjóður skuli bera allan kostnað af þessu. Í þessum brtt. hv. 1. landsk. er enginn hemill á það settur, hvað stór og dýr viðbótarlögreglan má vera. Tel ég mér því hafa verið fyllilega réttmætt að líkja þessu við herskyldu. En það er rétt, að þessu horfir nokkuð öðruvísi við, ef brtt. mínar um skiptingu kostnaðarins eru samþ. En sé eingöngu litið á brtt. háttv. 1. landsk., þá er samanburður minn á þessu og almennri herskyldu ekki eins mikil fjarstæða og hann vill vera láta. Og ég vildi aðeins geta þess, áður en umr. væri lokið, að ég hefi alltaf talað um þetta í sambandi við 4. brtt. hans. — Ég fyrir mitt leyti tel það alltaf lakara, ef fyrri hluti 5. brtt. hans verður samþ., en þó enn verra, ef hinar aðrar brtt. hans verða samþ.