26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Það má vera ánægjulegt fyrir hlustendur að heyra þann mikla friðaranda, sem er á milli forsrh. og íhaldsmannanna tveggja, sem talað hafa í þessu máli. Fer það reyndar að vonum og staðfestir það, sem sagt hefir verið, að á milli hægri arms Framsóknar og íhaldsins gengi ekki skelþunnur hnífur. Í fyrri ræðu minni vannst mér ekki tími til að fara neitt nákvæmlega út í frv. og vil því nú skýra nokkru nánar frá því, sem við höfum helzt við það að athuga. Er þá fyrst 1. gr. þess. Þar stendur: „Ríkisstj. er heimilt að fyrirskipa, að í bæjum (kaupstöðum og kauptúnum), þar sem eru 1000 íbúar eða fleiri, skuli vera allt að tveimur starfandi lögregluþjónum á hverja 1000 íbúa, enda sé lögreglustjóri þar búsettur. M. ö. o.: Ríkisstj. getur fyrirskipað þetta, þótt engin ósk liggi fyrir um það frá viðkomandi kauptúni. Og í 6. gr. stendur, að þegar sérstaklega stendur á, getur ráðh. bætt við varalögreglumönnum, og eru engin nánari takmörk sett um tölu þeirra. Þetta þýðir það, að dómsmrh., sem nú er úr íhaldsflokknum, getur t. d. fyrirskipað Ísfirðingum eða hverjum öðrum kaupstað að hafa svo og svo stóra varalögreglu eða m. ö. o. Magnús Guðmundsson getur skipað hverjum kaupstað, er hann vill, að hafa setulið, þótt viðkomandi kaupstaður kæri sig alls ekki um það og hafi ekki um það beðið. Við vitum, að undir venjulegum kringumstæðum hefir lögreglan, svo sem hún hefir verið, dugað til þess að halda niðri þjófnaði, slagsmálum, uppistandi og öðrum slíkum lögreglubrotum. Til þeirra hluta þarf því ekki að auka hana. Hið eina tilfelli, sem er undantekning frá þessu, eru atburðirnir 9. nóv., þegar lögreglan veður að mönnum að fyrrabragði og lemur þá niður. En svo mun ávallt fara, þegar ekki er stjórnað með hagsmuni og velferð þegnanna fyrir augum. Sé þess ekki gætt, þarf meira en lögreglu þá, sem hér er gert ráð fyrir, að stofnuð verði. Þá þarf byssur og fleiri drápstæki. Þótt verkalýðurinn sé sveltur, má kannske kúga hann með herafli. En sé stjórnað svo, að honum liði vel, þá þarf enga lögregluviðbót. Ef við jafnaðarmenn réðum í bæjarstj. og ríkisstj. þyrfti enga slíka lögreglu. En hitt getur rétt verið, að núverandi ríkisstj. hegði sér svo, að hún telji sér hennar þörf.

Þá segir í 4. gr., að lögregluna megi ekki nota í vinnudeilum til annars en að halda uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum. Þeir, sem þekkja núv. dómsmrh., vita, að hann mundi túlka þessa gr. svo, að lögreglan geti samkv. henni skipt sér af öllum vinnudeilum. Ef einhver atvinnurekandi, sem lætur fólk vinna undir taxta, kallar á aðstoð, þá mun lögreglan verða send á vettvang, undir því yfirskini, að hún sé að halda uppi friði samkv. 4. gr. l. Í 5. gr. eru fyrirmæli um það, að skipshöfn varðskipanna skuli teljast til lögreglunnar, og einnig má taka tollverðina í lögregluna. En fyrst svo er gert, því er þá ekki gengið lengra? Hvers vegna eru ekki allir embættismenn og opinberir starfsmenn teknir? — Eins og tollverðina mætti t. d. taka ráðherrana í lögregluna. Það mundi ekki punta lítið upp á lögregluna, ef hún hefði Magnús Guðmundsson í broddi fylkingar, þegar hún fer út að stríða! Þetta væri líka í samræmi við það, sem heimspekingur íhaldsins, Guðm. Finnbogason, hefir haldið fram, að vera ætti.

Hvað fasta liðið snertir hér í Rvík, verður ekki um neitt smáræði að tefla. Fyrst eru ráðgerðir fastir lögregluþjónar 60, sem þó má auka upp í 90. Þá eru skipshafnir varðskipanna 50—60 manns. og loks tollverðirnir 12 eða 13. Þetta verða 150—160 manns. En þetta lið má nú samt auka, því eftir 7. gr. er það borgaraleg skylda hverjum verkfærum karlmanni að gegna kvaðningu í varalögreglu og mæta þar til æfinga, hversu lítið sem hann óskar þess. Það er látið í veðri vaka, að annað liggi á bak við þetta. En hinn nakti sannleikur er, að kveðja má hvern verkfæran mann t. d. hér í bæ til að vera í varalögreglu undir stjórn Erlings Pálssonar.

Ég hefi nú lýst frv. að nokkru og sýnt fram á, að því þarf ekki að velja nein faguryrði. Frv. er búið til og stefnt á móti skipulögðum verkalýðsflokkum, ekki kommúnistum, sem eru fámennir og óskipulagðir, heldur gegn Alþýðuflokknum. Því það er hann, sem er hættulegasti andstæðingur íhaldsins. Og þess vegna leggja þeir svo mikla áherzlu á, að þetta mál gangi fram. Hitt er undarlegra, að margir framsóknarmenn skuli vera með þessu.

Það er margt, sem ég þarf að svara, en sem tími minn leyfir ekki nema að litlu leyti. Dómsmrh. sneri út úr því, sem ég sagði, en sagði auk þess margt ósatt eins og hann er vanur. Hann sagði, að í varalögreglunni væru margir Alþýðuflokksmenn. Og þm. G.-K. kallaði þá bófa. En af þessum rúmum 100 mönnum voru einir 13 úr verkalýðsflokkunum, og þeir hafa nú allir verið reknir úr þeim. En hinu er ekki hægt að neita, að sumir þeir, sem teknir voru í liðið, eru dæmdir fyrir ýms lögbrot og hafa meira að segja gerzt brotlegir eftir að þeir gengu í varalögregluna. Enda var ekki þess að vænta, að almennilegir menn fengjust í þá lögreglu, þegar þeir vissu, til hvers átti að brúka hana.

Ráðh. sagði, að þó máske hefði verið ranglátt að lækka kaupið, þá hefði þó verið órétt að berja lögregluna. Ég hefi aldrei sagt, að það hafi verið rétt að berjast. En það voru ekki verkamenn, sem réðust á lögregluna, heldur var það lögreglan, sem réðst á þá. En það er ekki nema mannlegt að taka á móti þegar svo er af stað farið. En undir svona kringumstæðum nota kannske þeir, sem eitthvað eiga sökótt við lögregluna, sér tækifærið til að ná sér niðri á henni. — Þá er það sannleikur, sem ekki verður á móti mælt, að tillagan um að lækka kaupið var komin frá sjálfstæðismönnum, enda sagði forseti bæjarstj., að till. væri borin fram fyrir þeirra hönd.

Þá gátu þeir þess ráðh. og þm. G.-K., að kostnaður við varalögregluna hefði orðið svo mikill vegna þess að þátttakendum hennar væri meinuð vinna. En ég hefi gefið öllum kost á að taka þátt í vinnu, ef þeir segðu sig úr lögreglunni og gerðu sínar sakir góðar. Ef lögreglan verður lögð niður stendur þeim einnig opinn vegur inn í verkalýðsfélögin. En ráðh. telja sig þurfa að hafa þennan lífvörð.

Það er ekki rétt hjá ráðh., að ég hafi spurt um það, hverjir væru í varalögreglunni. Það er vitað úr öðrum stað og skrá til yfir þá menn. En það, sem ráðh. vill ekki láta mér í té, er sundurliðaður kostnaður yfir varalögregluna. Ég hélt þó, að hverjum þm. væri frjálst að sjá væntanlegt fylgiskjal með landsreikningi. Er óheppilegt, ef þingið vill ekki vernda þennan sjálfsagða rétt þm. til handa. Dómsmrh. segir, að engin hætta sé á, að menn verði teknir nauðugir í varalögregluna. Leyfið til þess að taka menn í hana og sekta þá um allt að þús. kr., ef þeir neita, er þó veitt. Samanburður hans á þessu og lögreglu Dana er óheppilegur, því hlutfallslega við Dani ættum við að hafa 12 ríkislögreglumenn fyrir landið allt.

Þótt ráðh. segi, að ekki eigi að nota ríkislögregluna í kaupdeilum, þá hefir hann þó einmitt nefnt dæmi þess, að nota bæri hana á þann hátt. (Dómsmrh: Þetta er ósatt' ). Nei, hann nefndi tvö dæmi, vörukeyrsluna frá Jóni Þorlákssyni og uppskipun úr Novu.

Ég hefi ekki tíma til að svara öllu og verð að láta hér staðar numið. Ég vil þó beina því til forsrh., að stj. þarf ekkert að óttast það, að eiga frumkvæði að því að leggja fram fé til að bæta úr almennri neyð, jafnvel þó bæjarstj. þverskallist. Og í því. sambandi vil ég minna hann á ummæli þau, er hann hafði við Jón Magnússon, er þá var forsrh., að senda þyrfti beinagrindur af mönnum úr Hafnarfirði sem fylgiskjal með kröfum þeirra. En nú er komið annað hljóð í strokkinn.