30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Það er ekki margt í ræðum hv. þm. Barð. og 2. þm. Reykv., sem gefur tilefni til andsvara. En þó verð ég að setja fram örstutta aths.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir enn gert að höfuðumræðuefni í sambandi við þessa löggjöf það, sem gerðist á bæjarstjórnarfundinum 9. nóv. síðastl., og þó einkum það framferði lögreglunnar að ryðja fundarsalinn, sem þá var fullur af fólki. Hann hefir alveg réttilega tekið fram, að lögreglumennirnir hafi yfirleitt hagað sér þannig, að allt þeirra framferði bar þess ljósan vott, að þeir vildu halda friði til lengstra laga. Hann hefir fellt þá alveg undan sök fyrir þá útrás, sem gerð var úr salnum. Hann varpaði svo fram þeirri spurningu, hver beri ábyrgð á þessu, en hann hefir smeygt sér hjá að svara henni, og þá sennilega af þeirri ástæðu, að hann hefir enga persónulega hvöt til að láta ábyrgðina falla þar, sem hún á að lenda, nefnilega á lögreglustjóra Rvíkur. Það var hann, sem gaf þessa fyrirskipun. Og ef hún er ámælisverð, þá er hann ámælisverður fyrir að hafa gefið hana, og engir aðrir. Og það er þá líka rétt, að það komi í ljós.

Hv. þm. fann að því, að stj. hefði ekki með bráðabirgðal. sett ákvæði um framkvæmd þessara mála, sem þá giltu þar til Alþingi hefði haft tækifæri til að fjalla um þau. Það er nú á mína ábyrgð, að þessi bráðabirgðalög voru ekki sett. Ég held ég hafi sagt hv. þm. í öndverðu frá því, hvers vegna ég taldi það ekki rétt og eðlilegt. Ég taldi, að að sjálfsögðu hefði ríkisstj. heimild í stjskr. til allra þeirra ráðstafana, sem hún gerði, og ég áleit ekki rétt, að ófenginni reynslu, að lögfesta fyrirmæli sem einskorðaðan ramma framkvæmdanna í þessu efni, a. m. k. ekki á byrjunarstigi. Ég vildi forðast, að ég yrði svo óheppinn að setja inn í einhver slík bráðbirgðalög einhver þau fyrirmæli, sem yrðu til þess að valda óvinsældum í garð þessarar stofnunar þegar á frumstigi, hjá þeim, sem annars gátu aðhyllst stofnunina og ætluðust til þess, að sú reynsla, sem í öndverðu var fengin, yrði til þess að aðstoða löggjafann um rétt fyrirmæli, þegar til aðgerða kæmi á Alþingi. Þetta er nú ástæðan og annað ekki.

Allar bollaleggingar hv. þm. um það, að 100 manna lögregla geti orðið vopn í höndum einræðisgjarnra ofbeldismanna, sem einhverntíma kæmust að ríkisstj., þær eru að mínu viti hlægilegar. Hv. þm. hefir lýst yfir í ræðu og riti, að verkamenn hér í bænum mundu efla til samtaka sín á milli til þess að halda uppi í sínum félagsskap lögum og rétti og til þess að hafa í fullu tré, ef á að sýna þeim óbilgirni í einu og öðru. Ef þetta er nokkuð annað en eintómur belgingur, eins og flest, sem hann segir, þessi hv. þm., því að það er flest talað gegn betri vitund, ef þetta er nokkuð annað en svigurmæli, þá hlýtur að verða nokkur trygging til jafnvægis, svo að þessi 100 manna lögregla — enda þótt aukningarheimild sé til — geti ekki orðið þetta skaðsemdartæki í höndum einræðismanns. Og það vita líka allir, að 100 manna hópur nægir ekki til að gera byltingu og halda henni við.

Hv. þm. lét sér enn á ný sæma að staðhæfa það, sem oft hefir staðið í blaði hans, og hann veit alveg áreiðanlega, að er ósatt, að þessi kauplækkunarkrafa hafi runnið undan rifjum Sjálfstæðisfl. Hann hafði að vísu fullyrðinguna ekki alveg eins ákveðna og áður. Ég endurtek það, sem ég sagði í útvarpsumr. um daginn, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi, og að hv. þm. hefir ekki svo mikið sem minnsta grun um, að þetta sé satt. Hitt er annað, að vera má, að flokkur sjálfstæðismanna í bæjarstj. hafi allur staðið að þessari till. og hún verið rædd og samþ. á fundi þeirra sérstaklega. Þetta kemur miðstjórninni alls ekkert við. Ég hefi haft þá ánægju að verða þess var, að þeir menn velflestir, sem hafa heyrt á fullyrðingar okkar í þessu efni, þeir hafa vitað, að ég fór með rétt mál. (Rödd af pöllunum: Því trúir enginn verkamaður!). Ég get sagt það, að það er ekki hægt að hafa tilhneigingu til að fara með rangt mál í þessu efni. Það er allt of lítilmannlegt til að ég vilji leggja mig niður við það, né að ég myndi meta svo ókyrrð þessa götuskríls, sem á mig kynni að hlýða, að ég víki frá sannfæringu minni. Langt frá því.

Um till. jafnaðarmanna á þskj. 847 hefi ég ekki heimild til að segja neitt fyrir hönd n., þar sem n. hefir ekki gefizt kostur á að ræða þær. Ég fyrir mitt leyti álít þær ýmist óþarfar eða spillandi og verð því á móti þeim. Brtt. við 4. gr. eru alóþarfar, af því að frv. er mjög skýrt, og það er margyfirlýst að auki, að lögreglunni er ekki ætlað að hafa afskipti af kaupdeilum. Ég hefi t. d. gefið hv. 2. þm. Reykv. allar þær yfirlýsingar, sem hann getur farið fram á, og ég hygg, að ég geti ekki bundið mig rækilegar en ég hefi gert í umr.

Ég hefi ekki heimild til þess f. h. n. að segja neitt um brtt. á þskj. 864, frá nokkrum framsóknarm. En fyrir mína hönd get ég sagt það, að viðbættri þeirri skrifl. brtt., sem fram er komin, get ég aðhyllzt þær allar. Mér þykir eðlilegt, að ríkisstj. fái álit bæjarstjórnanna; og þó að ég álíti ekki ástæðu til að breyta 7. og 8. gr., þá get ég greitt brtt. atkv. til samkomulags. Auðvitað hefi ég enga trú á, að menn yrðu neyddir í lögreglulið.