30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

66. mál, lögreglumenn

Vilmundur Jónsson:

Ég á á þskj. 858 brtt. við 1. gr. frv., og af því að hún snertir ekki grundvöll þess deilumáls, sem hér er um að ræða, vona ég, að hún geti fengið góðar undirtektir. Eins og frvgr. er nú, er gert ráð fyrir því, að fjöldi lögregluþjóna, sem fyrirskipa má í bæjum, skuli vera allt að 2 á hvert þús. íbúa og þetta látið ná jafnt til hinna smæstu þorpa og stærstu kaupstaða. Það má vel vera, að hæfilegt sé fyrir stórborgir, að hafa svo margt venjulegra lög regluþjóna, að það nemi 2 á hvert þús. íbúanna, en það er fjarstæða fyrir smákaupstaði okkar, eins og þeir eru velflestir. Þar má komast af með miklu minna. Lögregluþjónaþörfin í bæjunum vex sem sé engan veginn í jöfnu hlutfalli við íbúafjölda þeirra, frá þeim fólksfæstu og til hinna fjölbyggðustu, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ákvæði frv.gr. verða skoðuð sem yfirlýsing þingsins um lögregluþjónaþörfina, og getur það haft þýðingu að sú yfirlýsing sé byggð á fyllsta viti og sanngirni. Till. mín fer einmitt í þá átt. Til þess að hv. þm. skilji brtt. mína betur, skal ég láta þá heyra, hver munurinn yrði á áætluðum fjölda lögregluþjónanna með því að samþ. hana og að láta gr. standa óbreytta.

Eftir frv. má fyrirskipa 1000 m. þorpi

að hafa 2 lögr.þj., eftir brtt. minni 1

„ 2000 — — — — 4 — — „ — 1

„ 3000 — — — — 6 — — „ — 2

„ 4000 — — — — 8 — — „ — 4

„ 5000 — — — — 10 — — „ — 6

Svo fer munurinn að verða minni, og þegar bæirnir eru orðnir stórir, er munurinn ekki verulegur. Í 20 þús. manna bæ má þannig fyrirskipa eftir frv. 40 lögr.þj., en eftir brtt. 36, og í 30 þús. manna bæ eins og Rvík 60 lögr.þj., en eftir till. 56. (Raddir: Er það hæfilegt fyrir Rvík?) Nei, það dettur mér ekki í hug að segja, en það er sönnu nær en að setja 5—6 lögregluþjóna í kaupstaði eins og Ísafj., Vestmannaeyjar eða Hafnarfj. Ég geri ekki ráð fyrir að geta haft veruleg áhrif á, hvað ákveðið yrði viðvíkjandi Rvík, sem aðallega mun vera miðað við af höf. frv., og flyt ég þessa till. aðeins til þess að gæta réttar smábæjanna að þessu leyti.

Þar sem ég þekki til í smábæjum eru 1 eða 2 lögregluþjónar og vandræði að hafa nokkuð handa þeim að gera við löggæzluna. Ef 5 lögregluþjónar yrðu t. d. settir á Ísafjörð, yrði það einungis til athlægis. Þeir, sem bera kvíðboga fyrir því, að til þess ófriðar komi, að halda þurfi uppi almennum friði með lögregluliði, verða að gæta þess, að í frv. er alls ekki gert ráð fyrir því, að skipaðir verði svo margir lögregluþjónar á þessum smástöðum, að þeir nægi til þess að skakka leikinn, ef til verulegs ófriðar dregur. Ef farið verður eftir ákvæðum frv. verða lögregluþjónarnir í smábæjunum þess vegna of margir undir öllum venjulegum kringumstæðum, og þó of fáir í þeim undantekningartilfellum, sem liðsafnaðar þætti þörf. Fyrir því vænti ég þess, að hv. þdm. geti fallizt á að samþ. þessa till.

Ég skal geta þess, að ég gerði ráð fyrir, að 1. brtt. á þskj. 847, sem er við sömu gr., mætti samþ. jafnframt brtt. minni á þskj. 858, en ef einhver tormerki eru á því, vænti ég þess, að mér leyfist að bera fram skrifl. brtt. til að samræma hana við mína till. á þskj. 858.