30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Það er ekki miklu að svara þessu pexi dómsmrh. nema aðallega því, sem hann sagði um jafnaðarmenn í Danmörku. Eins og ég skaut fram í ræðu hans, þá eru aðeins 400 manns í ríkislögreglunni þar, og það er ekki hægt að kalla það mikið, þar sem hún hefir auk þess sérstök störf með höndum og þar sem nazistar vaða uppi á suðurlandamærunum. En þar sem hann segir, að bæjarlögreglan sé mikil, þá veit ég ekkert um það og hann ekki heldur. Hann hefir engar spurnir af því, hve mikil hún er, en ég veit ekki til, að þar sé nein varalögregla eða nokkur löggjöf eins og hér er borin fram. (Dómsmrh.: Hvað eru margir í hernum?). Jafnaðarmenn hafa stöðugt verið að takmarka útgjöldin til hersins, út frá því, sem allir eru sammála um, að herinn verði aðallega til þess að nota inn á við og auðvitað gagnvart verkamönnunum. (Dómsmrh.: Ætlar þá stj. í Danmörku að nota hann þannig?). Nú veit dómsmrh., að hún hefir ekki meiri hl. nema með stuðningi annara flokka, og hvernig ætti hún að geta komið á afnámi hersins með minni hl. í háðum þingum?' Það kann að vera, að það sé svo skylt með flokki hans og Framsóknarfl., að þótt flokkur hans sé hér í minni hl., þá geti hann ráðið úrslitum mála. En það er ekki svo skylt með flokkum í Danmörku.

Viðvíkjandi barsmíðunum á bæjarstj.fundinum má taka það fram, að allur þessi málarekstur og ofsóknir gagnvart mönnum og þetta varalögreglulið virðist allt eiga að hyggjast á atburðunum 9. nóv. Aukning lögreglunnar virðist byggjast á því, að þegar hún gerði árás á verkamennina, innan og utan við salinn, tókst henni ekki að berja þá alla niður og dreifa því fólki, sem utan við húsið var, eins og gert var inni. Hefði verið nær, að hún hefði getað barið niður mörg hundruð manna og hefði það verið fagnaðarefni fyrir stj.? Það lítur út fyrir, að það sé þess vegna, sem hún vill koma liðinu upp, að ef annað slíkt tilfelli kemur fyrir, þá sé lögreglan fær um að lemja niður mörg hundruð manna. Það hefir verið talað um það, að lögreglan hafi meiðzt, og það er rétt, þótt það sé skiljanlegt, en það er ekki minnzt á, að fjöldi verkamanna hafi meiðzt, og þó er vitað, að þeir voru ekki að berja hvern annan. Þau meiðsli voru af lögreglunnar völdum. Við mótmælum fyrst og fremst þessari stjórnaraðferð, og ég hygg, þótt ég hafi ekki talað við lögreglustjóra um þetta mál og spurt, hvernig á því standi, að hann hafi farið þannig að ráði sínu, að þetta hefði ekki orðið, ef sá maður hefði ekki verið í dómsmrh.sæti, sem var það þá.

Dómsmrh. finnst það mikið, að 13 menn hafi gengið úr alþýðusamtökunum inn í þetta lið. Nú eru nokkrir þessara manna búnir að sættast við félögin aftur og heita því að ganga ekki í þetta lið. En hér í verkamannafélögunum eru nú um 3½ þús. karlmanna og 13 menn af þeim er ekki hægt að kalla stóran hóp. Af sjálfsdáðum kom enginn. Menn vita, að Erlingur Pálsson þaut um allan bæinn til þess að reyna að fá menn í liðið, og fjöldi manna hafði neitað því, og þeir, sem loks gerðu það og sviku þannig sína stétt, gerðu það ekki ótilknúðir, því að auk þess sem Erlingur Pálsson lagði að þeim, þá var það atvinnan. Ríkis- og bæjarstjórn hafði vanrækt að halda mönnum sæmilega lifandi hér, og sumir menn fóru í þetta af hreinni neyð, og margir þeirra hafa talað við mig, sem sögðu, að þeim hefði aldrei dottið í hug að gera það, ef þeir hefðu vitað, hvernig það var, og í öðru lagi, ef neyðin hefði ekki rekið þá til þess. Neyðina og Erling Pálsson notaði ríkisstj. til að hóa liðinu saman.