04.06.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

66. mál, lögreglumenn

Vilmundur Jónsson:

Ég vil út af yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um að enginn skuli verða neyddur til að gegna þessu lögreglustarfi, inna hann eftir því, hvort það eigi einnig að gilda um skipshafnir varðskipanna. Mega þær líka búast við því að verða ekki neyddar til þessara starfa, ef þeim er það óljúft, a. m. k. meðan hann er ráðh.? Mér þykir nokkru skipta að fá það ljóst fram, að hið sama eigi að gilda um skipshafnirnar á varðskipunum og tollverðina, sem hæstv. ráðh. hefir gefið svo afdráttarlausa yfirlýsingu um. Það var óþarfi af hæstv. ráðh. að herma það upp á mig, að ég hafi játað mig hafa borið fram till. þá í gær í skopi. Ég hefi ekki sagt, að við höfum flutt till. í skopi, enda fór því fjarri. Hún var að vísu flutt sem fjarstæða, en þó í fyllstu alvöru og til þess að sýna fram á, hver endaleysa það væri að skylda þessa menn, tollverðina, til að gegna varalögreglustörfum. Og nú er það orðið ennþá fjarstæðara en áður eftir að búið er að fella 7. gr. frv., þar sem ákveðið var, að þessa kvöð mætti leggja á alla án undantekningar.