31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

66. mál, lögreglumenn

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér skilst, að nú sé komið að lokum þessarar umr.

Ég hefi setið á mér hingað til að tala um þetta mál. Ég vil þó segja nokkur orð vegna þess sem gerðist 9. nóv. og mér er vel kunnugt um. Að vísu er það ekkert aðalatriði þessa máls, þó mikið hafi verið um það rætt. Aðeins vildi ég segja, að mikið af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um þá atburði, er fjarstæða og vitleysa. Og ég er þess fullviss, að hann veit sjálfur, að svo er. Ég vil gefa þá skýringu á þessu, að hv. þm. er örðugt að stjórna skapi sínu. Það kom glögglega í ljós, bæði þá og nú. Ég tel því, að flokksmenn hans hafi illa valið, er þeir gerðu hann að frsm. sínum í þessu máli. Það var hið ótamda skap hv. þm., sem gerði það að verkum, að hann var dómfelldur fyrir athafnir sínar 9. nóv. Hv. þm. segir, að atburðirnir 9. nóv. hafi orðið vegna till., er fram kom í bæjarstj. og segir, að sú till. hafi verið samþ. af miðstjórn Sjálfstfl. (HV: Ég sagði aldrei miðstjórn flokksins!). Og hann sagði, að forseti bæjarstj. hafi skýrt sér svo frá. Nú var ég forseti á þessum fundi og veit því, að þetta er ekki rétt. Og ég veit, að aðalforsetinn sagði það heldur ekki. Og þess vegna er útilokað, að það geti verið rétt. Það, að hv. þm. er vanstilltur út af þessu máli, kemur af eðlilegri truflun vegna atburðanna og vanstillingu hans yfirleitt. Er því undarlegt, að hann skuli vera valinn til framsögu í þessu máli af flokksbræðrum sínum. En þrátt fyrir vanstillingu hv. þm. 9. nóv., þá kom hann þó í veg fyrir, að ráðizt yrði á mig og ég yrði barinn þennan dag. Kom hann þar vel og drengilega fram. Hann ætti því heldur að tala út frá því sjónarmiði að varna illdeilum, en á það brestur nú mjög.

Hv. þm. undraðist það, að lögregla skuli vera hér viðstödd nú. En það er ekkert undarlegt, þó lögreglan hafi veitt því athygli, að hingað safnaðist hópur manna og hafði verið hvattur til þess, í því skyni að hafa með ofbeldi áhrif á gang mála hér. Og í morgun voru borin áletruð spjöld um göturnar, er hvöttu menn til að mæta hér og hafa áhrif á afgreiðslu málsins. Það er því eðlilegt, að lögreglan mæti og athugi, hvað fram fer og stilli til friðar, ef með þarf.

Annars vil ég benda á það, að sá frsm., er jafnaðarmenn hafa valið sér í þessu máli, er svo mjög við málið riðinn sjálfur, að orð hans hafa minni þýðingu heldur en ef stilltari maður hefði andmælt þessu frv.

Að lokinni vil ég óska þess, að hv. þm. og liðsmenn hans bæði hér og hvar sem er annarsstaðar, hverfi frá þeirri aðstöðu, sem þeir hafa haft í þessu máli frá 9. nóv. og til þessa dags. Sú aðstaða er sköpuð af því, sem hv. þm. varð sjálfum á þennan dag. Og ég hefi viðurkenningu margra hans manna fyrir því, að svona sé þetta í pottinn búið. En ég trúi tæplega, að hann vilji lengi halda fram þeirri firru, að nokkurri stétt sé voði búinn af lögreglu, einungis ef lögunum er hlýtt. Að halda því fram, að einhver stefna þurfi að óttast lögregluna, er sama sem að halda því fram, að sú stefna ætli ekki að hlýða l. Þau rök eru því dauðadæmd og ónýt. Ég held þess vegna, að þessi hv. samþm. minn standi bráðum uppi mjög fáliðaður, ef hann heldur áfram á sömu braut. Nema þá ef hann getur fengið þessa fáu kommúnista til fylgis við sig, sem hafa að því er virðist það eitt á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir það, að lögum sé haldið uppi í landinu.