31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

66. mál, lögreglumenn

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Seyðf. hefði getað sparað sér töluvert af því, sem hann sagði, því að við vitum allir, að hann meinar það ekki. Hann tók þar við, sem hv. 2. þm. Reykv. hætti og heimtaði eins og hann að fá að vita, hver stæði fyrir því, að lögreglan væri hér í húsinu. Ég hefi nú komið í þinghús í friðsömum löndum, og þar hafa verið lögregluþjónar á hverju strái til aðstoðar og upplýsinga, t. d. í brezka parlamentinu. Lögreglan á að vera til að hjálpa almenningi, og hana á enginn að þurfa að óttast. (HV: Hvers vegna er öll lögreglan höfð hér niðri í þinghúsi, ef hún á að hjálpa almenningi?).

Tilgangurinn með þessum spurningum er auðvitað sá, að ná í þann mann, er beðið hefir lögregluna að vera hér, til að beina skeytum sínum að honum. Og hv. þm. Seyðf. skaut fyrsta skeytinu, er hann talaði um „hinn sjúka forseta Sþ.“. Þetta er fyrsta hrópyrðið. Hv. þm. Seyðf. hefði getað sparað sér þessi ummæli, því að ég veit, að hann muni iðrast eftir þau. Forseti Sþ. á engar slíkar aðdróttanir skilið. Þetta er mælt til að gefa í skyn, að sjúkleikur hans hafi áhrif á geð hans með þeim hætti, að hann þori síður að vera hér en aðrir menn. (HG: Heilaspuni!). Það fór sem mig grunaði, að hv. þm. myndi iðrast eftir þessi orð sín. En hversvegna óskar forseti Sþ. eftir lögreglu? Hafa ekki þeir atburðir gerzt 9. nóv., að þeir gefi tilefni til varúðar? Okkur er hent á eitt ráð til að hindra óeirðir að hafa enga lögreglu. Ég átti minn þátt í því, að þetta var reynt, en það bara dugði ekki. Hafa menn ekki verið að tala um „að taka til sinna ráða“ og þess háttar? Er nokkuð sennilegra en að það haldi áfram við þingið, sem byrjaði við bæjarstjórn? Hver getur með rökum amazt við því, að forseti Sþ. óski eftir lögreglu til að fyrirbyggja óeirðir í þingsalnum? Ekki geta þeir menn eða flokkar, sem engum óeirðum ætla að valda, amazt við því. Það eru þá aðeins hinir, sem ætla að hafa í frammi háreisti og óeirðir, sem hafa ástæðu til að kvarta.

Þessi krafa, sem hv. 2. þm. Reykv. var að hampa í ræðu sinni í gær, um að það yrði tafarlaust að fjarlægja lögregluna, og að engar æsingar ættu sér stað, ef lögreglan væri hvergi nærri, þessar kröfur hljóma sí og æ á gatnamótum og samkomum hjá pólitískum æsingamönnum og ábyrgðarlausum strákum. Þeir láta svo sem allt muni ganga með ró og spekt, ef lögreglan sé hvergi nálægt. Og ef eitthvað kemur fyrir, þá er spurt: Hvað var lögreglan að gera þá? Átti lögreglan ekki upptökin? Þetta heyrist þráfalt. Öllu á að vera borgið, ef lögreglan er hvergi nærri. Það er jafnvel eins og sumir verði öskuvondir, ef þeir sjá lögregluþjón, og telji sér þá skylt að hrópa upp einhver ókvæðis- eða ögrunarorð. Þetta hljómar sífellt í málgögnum einstakra flokka, næstum eins og það eigi að vera einhver fyndni. Það er notað eins og slagorð að nauðsynlegt sé að fjarlægja lögregluna til þess að komið verði á ró og friði í landinu. Léleg fyndni er það. Það er hlægileg fjarstæða, að hér eigi fyrst og fremst að tala um þá gífurlegu hættu, er stafi af því, sem lögregluþjónar kunni að fremja í bræði. Hv. þm. Seyðf. gerði svo mikið úr þessari ógurlegu hættu, og taldi að hún mundi varpa dökkum skuggum á framtíð þjóðarinnar. En það virðist hinsvegar mega stuðla að því, að hinir og aðrir æði fram og aftur með ópum og köllum og lumbri á samborgurum sínum í bræði og heiti ofbeldi, og þá má lögreglan hvergi nærri koma. Þetta er krafa hv. 2. þm. Reykv. og samherja hans. Hv. þm. Seyðf. nefndi dæmi af uppþotinu hér í Rvík eftir þingrofið 1931 og spurði, hvort ég áliti, að það hefði farið friðsamlegar fram, þó að varalögregla hefði þá verið til staðar; þó að ég ætli mér ekki að mæla þeim atburðum bót, sem þá fóru fram hér í bænum, þá var þar um að ræða skrúðgöngur um bæinn, æsingar og ræðuhöld á samkomum, en engin barsmíði eða meiðingar á fólki. Og hver vill fitja upp á því nú, að farið verði opinberlega að banna skrúðgöngur undir merkjum og ræðuhöld á almanna vettvangi? (HV: Hver fitjaði upp á barsmíðunum í gær hér á áheyrendapöllunum?).

Ég veit það vel, að alltaf þegar lögreglan lendir í einhverjum ryskingum, þá skýrir hv. 2. þm. Reykv. tilefnið á þá leið, að þar sé lögreglunni einni um að kenna. Annars þarf hv. þm. ekki að spyrja um þetta; í ræðum sínum skellir hann skuldinni jafnan á lögregluna, enda þótt hann líti öðruvísi á það undir niðri með sjálfum sér. Ég minnist þess, að í uppþotinu 1931 var m. a. komið heim til mín að kvöldlagi af flokki manna og hrópað til mín ókvæðisorðum nokkra stund, þar voru engar aðrar óspektir gerðar, og þó var engin lögregla til varnar, hennar þurfti ekki með. Eftir stutta stund sneri flokkurinn aftur burt. Þetta var ekki annað en það, sem fyrir mig kom einnig hér á götunni í gær, þar sem hópur ungra manna veittist að mér með hrópyrðum um að það þyrfti að berja mig einhvern tíma síðar þegar betur stæði á, og nefndu mig „sultar-ráðherra“ o. s. frv. Ég er alls ekki að kvarta neitt undan þessu, þó að lögreglan væri þar hvergi nærri, og teldi ekki ástæðu til að fylgja mér eftir í mannþyrpingunni. Þó að mannfjöldi safnist saman með hrópyrðum og ræðuhöldum hér í bænum eins og 1931, þá verðum við að taka því með umburðarlyndi og láta fúkyrðin sem vind um eyrun þjóta. Samkomur og próssessiur eru fullkomlega leyfilegar og ekki heppilegt að banna þær.

En það er þreytandi að heyra þennan tón, sem verið er að ala á hjá fólkinu, einkum unglingunum, í stjórnmálum. Þessir uppæstu unglingar geta í sjálfu sér verið góðir drengir, þó að þeim sé kennt að varpa ókvæðisorðum að forráðamönnum og valdsmönnum þjóðfélagsins, kalla þá pólitíska svikara og öðrum þessháttar nöfnum. Og rökin, sem þessir angurgapar nota eru fúkyrðavaðall um þrælkun valdhafanna gegn hinum vinnandi stéttum, kaupkúgun, hungur og annað þessháttar. Af þessum sökum er óneitanlega viss hætta fyrir höndum, sem þjóðin verður að gjalda varhuga við. En þjóðinni er enginn voði búinn af því, að lögregluþjónarnir fremji eitt eða annað í bræði, eins og hv. þm. Seyðf. geysaði mest um.

Bak við stóryrði hv. þm. gegn lögreglunni og þessu frv., sem fyrir liggur, er sífelld tortryggni og dylgjur um það, að í frv. sé allt annað en þar stendur. Hv. þm. er það ekki nóg, þó að sagt sé beinum orðum í 4. gr. frv., að lögreglan megi ekki hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum. Nei, hv. þm. virðist vera það geysimikið áhugamál að telja bæði sjálfum sér og öðrum trú um, að samkv. fyrirmælum frv. eigi að gera allt annað en þar er til tekið og lýst hefir verið yfir af þeim, sem flytja frv. og fylgja því fram. En þá verð ég að segja það, að ef einhverntíma kemur að þeirri hættu, sem hv. þm. fullyrðir, að lögreglan verði notuð í vinnudeilum, þá verður það þessi æsingatónn, er ég áður nefndi, sem kallar hana fram, og hin þráláta tortryggni, sem alið er á meðal almennings, um að lögreglan sé sett til þess að sporna við kaupkröfum verkalýðsins. Hv. þm. Seyðf. og flokksbræður hans geta áreiðanlega dregið mikið úr þeirri hættu, sem hér er fyrir hendi, með því að lægja ofsann og ólguna í ræðum sínum um þetta mál. Hv. þm. Seyðf. leyfir sér jafnvel að halda því fram, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá, að hafa svo sterka lögreglu í landinu eða hervald, að allar óánægjuraddir verði bældar niður með harðri hendi. Hvar er það bannað í frv., að almenningur megi láta til sína heyra? Ég þekki ekki slík fyrirmæli. Hér á Alþingi á lögreglan að gæta þess, að fundafriður haldist, en hún getur ekki meinað mönnum á áheyrendapöllunum að láta til sín heyra, svo framarlega sem það truflar ekki þingstörfin eða fundahöld í þingsölunum. Vitanlega á mönnum að vera leyfilegt að fylkja sér í skrúðgöngur og láta skoðanir sínar í ljós á þann hátt, sem þeim sýnist, ef þeir valda ekki meiðslum eða öðrum spjöllum, og það er ekki annað, sem lögreglan á að líta eftir. Þetta á auðvitað líka við um önnur þau dæmi, sem hv. þm. Seyðf. nefndi: „Bændafund“ og fund „Mosaskeggsmanna“, þar getur ekki verið um neitt lögreglueftirlit að ræða. Mönnum er vitanlega frjálst að segja allt, sem þeir vilja á opinberum mannfundum. Um þá hluti ríkir hér allt eins mikið frjálslyndi og í nokkru öðru landi; og ég vil vona, að svo verði framvegis.

Ég verð að líta svo á, að málflutningur hv. þm. Seyðf. og flokkabræðra hans í þessu máli sé óþarflega einhliða, og það að tilefnislausn. Hann hefði e. t. v. verið skiljanlegri, ef þingið hefði yfirleitt hundsað kröfur jafnaðarmanna, en því fer svo fjarri. Á þessu þingi hafa jafnaðarmenn fengið fullt svo góðar úrlausnir sinna mála og á nokkru öðru þingi. Það er einkennilegt, þegar hv. þm. er að tala um það sem aðalhættu fyrir þjóðfélagið, að vald þess verði aukið. Eða þegar ráðstafanir eru gerðar til þess með lögum, að þjóðfélagið geti sefað óspektir og stöðvað yfirgang ofstopamanna. Það gæti verið réttmætt að halda þessari skoðun fram, ef engar alvarlegar óspektir hefðu átt sér stað hér á landi, en þegar þeir atburðir hafa gerzt, sem fóru fram 9. nóv. síðastl. hér í bænum, þá er þessi skoðun orðin úrelt, og ekki undarlegt, þó að fram hafi komið það frv., sem hér er um rætt.

Hv. þm. Seyðf. talaði um, að með þessari fyrirhuguðu aukningu lögregluliðsins ætti að kúga alþýðuna. En þrátt fyrir þá fjölgun, sem gert er ráð fyrir, þá höfum við ekki tiltölulega eins sterka lögreglu eða fjölmenna og ríkisstj. jafnaðarmanna í nágrannalöndunum, Danmörku og Svíþjóð, sem telja fullkomna lögregluvernd nauðsynlega, til þess að tryggja vald þjóðfélagsins og lýðstjórnarskipulagið. Þjóðfélagsvaldið er sízt of sterkt hér á landi og miklu veikara en hjá nágrannaþjóðunum.

Ég skal fúslega játa, að það er vandi að fara með þetta vald. Og ofstopafullur ráðh. getur skeytt skapi sínu á þegnunum og kúgað þjóðina, þó að hann hafi ekki lög eins og þessi til að styðjast við. En ég vil ekki gera ráð fyrir slíkum ráðh. í okkar landi. Og það er meiri vandi að fara með þjóðfélagsvaldið, ef stj. skortir þann bakhjarl, sem veittur er með þessum lögum.