14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (1324)

79. mál, innflutning karakúlasauðfjár

Flm. (Halldór Stefánsson):

Við höfum nokkrir þm. leyft okkur að bera fram þáltill. á þskj. 105 um innflutning karakúlasauðfjár, þar sem skorað er á ríkisstj. að nota heimild l. nr. 27 frá 8. sept. 1931, um innflutning þessa fjár frá Þýzkalandi, og það svo fljótt, að unnt sé að hafa til framtímgunar á næsta vetri.

Með þessum nefndu 1. er leyfður innflutningur á tvennskonar fjártegundum frá útlöndum, brezku holdafé og þessu hérnefnda karakúlafé. Leyfið um innflutning holdafjárins brezka var notað á næstliðnu ári, svo að næsta haust verður hægt að gera sér hugmynd um ávinning af því. En heimild um þetta fé hefir ekki verið notuð. Ýmsir álíta þó, að ekki væri síður ástæða til að nota þessa heimild en hina, og því er það, að þessi till. er borin fram.

Eins og menn vita, framleiðum við nú meira en nóg kjöt fyrir þann markað, sem til er. Landbúnaðinn skiptir því nú mestu máli að auka markaðssvið sitt, og þar sem dýrmætustu afurðir karakúlafjár eru loðfeldir, en markaður fyrir slíka vöru er sízt stopulli en aðrir markaðir, má ætla, að sízt sé minna að vænta af innflutningi karakúlafjár en hins brezka holdafjár. Í heimildinni fyrir innflutningnum er svo ákveðið, að fé megi flytja inn aðeins til einblendingsræktar eða hreinræktar. Til þess að innflutningur karakúlafjár eigi að geta komið að verulegum notum, þarf jafnframt að vera hægt að efna til stofnblendingsræktar með því og íslenzku fé. Lagaheimildin er því of þröng, en nú hefir verið talað um að rýmka þessa heimild, og vil ég þá vænta, að þetta atriði verði einnig tekið til greina.

Okkur flm. er kunnugt, að stj. hefir haft þetta mál til athugunar og sent það til umsagnar Búnaðarfélagsins, og má vænta þess, að stj. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að nota þessa heimild. En af því að það hefir dregizt til þessa, en hinsvegar hafa komið fram áskoranir um, að svo verði gert, teljum við styrk og hvöt í því fyrir ríkisstj., að þáltill. verði samþ. Í till. er gert ráð fyrir, að svo bráður bugur verði undinn að útvegun fjárins, að það geti orðið til framtímgunar á næstu brundtíð. Veit ég ekki, hve langan tíma útvegunin ætti að taka. Þarf auðvitað að gæta sóttvarna, og verður álits dýralæknis að sjálfsögðu leitað um það efni.

Í þáltill. er ekki tekið fram, hve margt féð skuli vera, en við ætlum, að það megi ekki vera öllu færra en hið brezka holdafé, eða um 20 talsins.

Það skiptir öðru máli um fjöldann af hvoru kyni en um brezka féð. Yrði að flytja inn fleira af hrútum en ám, nálægt í öfugu hlutfalli við brezka féð, ef til vill eingöngu hrúta. Þó ætla ég, að menn muni einnig vilja reyna, hversu féð reynist til einræktar. Kemur það vel heim við þarfirnar í þessu efni, að hrútarnir eru miklu ódýrari en ærnar.

Ég vil svo gera ráð fyrir, að till. verði, að athuguðu máli, vel tekið af þingi og stjórn.