04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (1328)

61. mál, útborgun á launum embættismanna

Flm. (Magnús Jónsson):

Það hafa nokkrir embættismenn búsettir utan Reykjavíkur haft orð á því í minni áheyrn, að þeim væri töluverð óþægindi að því að geta ekki fengið laun sín greidd mánaðarlega svo nærri heimilum sínum, að þeir gætu hafið þau sjálfir og ráðstafað þeim. Að laun embættismanna eru öll greidd hér í Reykjavík gerir það að verkum, að þeir, sem fjarri búa, verða að vera sér úti um umboðsmann hér til þess að hefja launin og senda sér þau eða ráðstafa þeim á annan hátt. Þótt þetta sé ekki stórvægilegt, getur það haft dálítinn kostnað í för með sér. Embættismaðurinn getur oft þurft að setja sig í samband við umboðsmann sinn, hringja hann upp í síma, og ef honum liggur á að ráðstafa laununum heima hjá sér, verður hann venjulega að fá þau í símaávísun. Við þetta er ekki mikill kostnaður að vísu, en þó er réttara að vera laus við hann, ef það er hægt án verulegra örðugleika. Ég færði þetta þess vegna í tal við mann einn, sem á að þekkja allra manna bezt til þessara mála, og spurði hann, hvort hann sæi nokkra „tekniska“ örðugleika á því að láta greiða laun embættismanna hvar sem væri á landinu. Kvaðst hann ekki sjá nein vandkvæði á því, enda mundu launagreiðslur vera þannig framkvæmdar víðsvegar í öðrum löndum.

Það mætti nú e. t. v. hafa ýmsar aðferðir við útborgun launa úti um land. Það væri t. d. hægt að láta útibú bankanna greiða launin, þar sem þau eru. Þó held ég, að einlægast sé að láta þá stofnun, sem ríkið sjálft ræður og peningaviðskipti hefir um allt landið, svo að segja fram til allra dala og út á hvert nes, annast þetta, en það er pósturinn. Það virðist muni vera tiltölulega auðvelt að láta pósthúsin borga út launin, og það ætti að verða kostnaðarlítið. Ég hefi heyrt, að t. d. í Danmörku sé höfð sú aðferð, að starfsmönnum ríkisins, sem búa utan Kaupmannahafnar, séu fyrir hver mánaðamót sendar ávísanir, sem þeir geta svo hafið hvar sem þeir vilja. Þetta er auðvelt þar, sem hægt er að koma ávísunum um svo að segja allt landið á einum degi. Hér finnst mér mundi vera auðvelt að láta pósthúsið gefa slíkar ávísanir á pósthúsin úti um land. Svo greiddi ríkissjóður pósthúsinu hér í Reykjavík launaféð í stórum upphæðum, til þess að ávísa út um landið. Launagreiðslunum hér mun vera hagað þannig nú, að notuð er einskonar spjaldskrá, þar sem hver starfsmaður ríkisins kvittar á sitt spjald fyrir hverja mánaðargreiðslu. Þegar fengin væri skýrsla yfir, í hvaða pósthúsi hver starfsmaður ríkisins úti um land vildi fá sín laun greidd, þyrfti ekki annað en senda þeim þessi spjöld, og myndu svo pósthúsin senda þau suður aftur „kvitteruð“ þegar árinu er lokið. Þetta virðist mjög einfalt. Hitt er annað mál, að stj. mun að sjálfsögðu, ef till. þessi verður samþ., leitast við að finna hina heppilegustu og einföldustu aðferð til þess að framkvæma þetta. Ég skal fyrir mitt leyti ekkert hafa á móti því, að umr. sé frestað og málið sett í n., ef sá hæstv. ráðh., sem þetta heyrir undir, óskar þess, þó sjálfur telji ég enga þörf á því, þar sem ég hefi borið till. undir einn þann mann, er bezta þekkingu á að hafa á þessum efnum.