09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (1338)

68. mál, innflutningsleyfi fyrir sauðfé

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Á sumarþingi 1931 voru samþ. l., sem heimiluðu ríkisstj. að flytja inn vissa tegund af sauðfé til sláturfjárbóta. Var þetta leyfi þó takmarkað að því leyti, að aðeins mátti flytja inn holdafé frá Bretlandi og karakúlafé frá Þýzkalandi. Hefir þetta leyfi verið notað að því er snertir fé frá Bretlandi, og nú liggur fyrir þáltill. um að skora á stj. að nota einnig hina heimildina.

Þó eru nokkrir örðugleikar á, að hægt sé að nota þetta eins og þyrfti að vera. Er þessu svo fyrir komið, að ríkisstj. hefir ein heimild til að koma upp búum til hreinræktar hinna erlendu sauðfjárkynja. Er hugmyndin sú, að þaðan verði seldir hrútar til þeirra bænda, er þá vilja kaupa og nota til einblendingsræktar. Nú er það séð, að bændum er gert ókleift að fá sér hrúta á þennan hátt, nema að litlu leyti, því að til þess þyrfti að setja upp slíkan fjölda sauðfjárbúa víðsvegar um land, ef fullnægja ætti á þann hátt þeirri eftirspurn, sem áreiðanlega verður eftir hrútum þessum. Held ég því, að heppilegra verði að hafa frjáls samtök í þessu efni, að leyfa einstaklingum að hafa stofnfjárrækt með höndum, auðvitað með nægilega ströngu eftirliti af ríkisins hálfu að því er kemur til sjúkdómshættu og slíks. Liggja þegar fyrir margar fyrirspurnir frá bændum og kröfur í þessa átt. Menn reyna nú, á þessum örðugleikatímum, að grípa hvert hálmstrá til þess að bæta afkomu sína.

Þessi þáltill. mín, sem ég ber fram ásamt. hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Ak. á þskj. 92, er komin fram vegna háværra krafna um þetta. Gerum við þar ekki meira en að skora á ríkisstj. að athuga, hvort ekki mætti endurskoða l. um þetta frá 1931 og breyta á þann hátt, að auðveldara yrði gert fyrir um stofnfjárrækt.

Á síðasta ári var í fyrsta sinn flutt inn brezkt holdafé, og fæst fyrsta reynsla nú næsta sumar um það, hvernig lánast að nota það til einblendingsræktar með okkar kyni. En á karakúlafé byggja menn nú miklar vonir um fjölbreyttari afkomu atvinnurekstrarins á landbúnaðarsviðinu. Er erfitt að standa á móti því að gera eitthvað í þessu efni, og verður þingið a. m. k. að sýna, að það hafi vilja á því að láta athuga málið.

Mín skoðun er sú, að rétt væri að láta fara fram breytingu á l., er veittu einstaklingum möguleika á því að fá hingað erlent fé til reynslu. Þó hefi ég ekki talið rétt að svo stöddu að leggja fram frv. í þessa átt. Verður Búnaðarfélagið að sjálfsögðu látið framkvæma athugun þessa, og þá einkum sauðfjárræktarráðunautur þess, ef hv. d. samþ. þáltill. þá, er hér liggur fyrir.

Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Mun ég ekki leggjast á móti því, að málinu verði vísað í n., ef óskir koma fram um það, þótt ég telji það ekki nauðsynlegt.