05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (1354)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er auðvitað mál, að stj. vill nota það fé, sem Alþ. hefir veitt til strandferða, á sem haganlegastan hátt fyrir landsmenn yfirleitt. Og líka er það auðvitaður hlutur, að stj. vill taka vel öllum till., sem fram koma á þessu þingi um ráðstöfun á þessu fé.

Þessi till. er í tveim liðum. Í fyrsta lagi er skorað á stj. að sjá um, að Eimskipafél. Ísl. geri ákveðna hluti, og í öðru lagi að sjá um, að ríkisskip geri ákveðna hluti. Stj. getur ekki ráðið yfir Eimskipafél. eða skipum þess. En það er að vísu satt, að Eimskipafél. Ísl. fer eins mikið eftir beiðni stj. eins og því er fært. Framkvæmdastjóri þess er hinn liðlegasti og vill gera það, sem unnt er að gera fyrir landsmenn. Þetta veit ég, að er umtalað milli n. og framkvæmdastjóra E. Í., og ég geri ráð fyrir því, að stj. geti litlu um þokað frekar í þá átt. Þess vegna er n. vel kunnugt um það, hvað hægt er að fá gert í þessu efni, enda er það tekið fram í nál.

Aftur á móti skyldi maður ætla, að stj. væri einvöld um að ákveða um framkvæmdir ríkisskips. En þó er það ekki nema að nokkru leyti, því að þingið í fyrra skammtaði stj. fé til strandferðanna. Það var lítið og minna en þurfti, eins og þinginu var þá vitanlegt. Þess vegna fór stj. fram á, að þetta fjárframlag yrði aukið í fjárl. 1934.

Mér virðist vera lítilsháttar villa í nál., sem að vísu skiptir ekki miklu máli. Í því er talað um 230 þús. kr. En mér virðist, að í stað þess hefði átt að vera 225 þús. kr. Þegar stj. er skammtað svona lítið fé, verður það að koma niður á einhverjum. En hinsvegar verður að skipta því á milli landshluta svo réttlátlega sem unnt er. Ég er allur af vilja gerður um það efni. En hvort hægt er að uppfylla allt það, sem farið er fram á í till. n., þori ég ekki að lofa neinu um. Því þori ég aðeins að lofa, að gert verði allt, sem hægt er, innan ramma þeirrar fjárveitingar, sem til þessara framkvæmda hefir verið ætluð. Með þessum formála sé ég ekki neitt á móti því, að d. samþ. þessa till. En það verða landsmenn náttúrlega að gera sér að góðu, að í árferði eins og nú er hlýtur það að koma víða niður, hve litlar tekjur ríkissjóður hefir og hve illa gengur að innheimta þær. Einnig verða menn að hafa það hugfast, að stj. á að vera bundin við ákvæði fjárlaga í þessu efni. Enda þótt ekki sé hægt fyrir stj. að binda þetta nákvæmlega við hina veittu fjárhæð, þá má þó kostnaðurinn í framkvæmdinni ekki fara marga tugi þús. fram úr áætlun. Yfirleitt finnst mér, að ekki megi víkja verulega frá áætlun fjárl. um þetta, nema óhjákvæmilegt sé.